logo-for-printing

20. október 2023

Ársfundur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 2023

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, tóku ásamt öðrum fulltrúum Seðlabanka Íslands þátt í ársfundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og tengdum fundum í Marrakesh í Marokkó dagana 9. til 14. október 2023. Seðlabankastjóri er fulltrúi Íslands í sjóðsráði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (e. Board of Governors), æðstu stofnun sjóðsins. Hann sat jafnframt fund fjárhagsnefndar sjóðsins (e. International Monetary and Financial Committee, IMFC).

Seðlabankastjóri og aðrir fulltrúar bankans áttu einnig fundi með sérfræðingum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, kjördæmi Norður- og Eystrasaltslanda hjá sjóðnum, lánshæfismatsfyrirtækjum og fulltrúum alþjóðlegra fjármálafyrirtækja og hugveitna ásamt því að sækja málstofur og ráðstefnur á málefnasviði seðlabanka.
Fjárhagsnefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fundar tvisvar á ári og þar kynnir sjóðurinn mat sitt á ástandi og horfum í heimsbúskapnum, fjármálastöðugleika og ríkisfjármálum, auk þess sem framkvæmdastjóri sjóðsins kynnir stefnuyfirlýsingu sína (e. Global Policy Agenda, GPA).

Í stefnuyfirlýsingunni kom m.a. fram að efnahagsbati hefur víðast verið hægur og ójafn og að hætta sé á að sundurleitni aukist frekar. Alþjóðasamfélagið þurfi því að vinna saman að því að byggja upp sameiginlega velsæld og viðnámsþrótt. Áhersla var lögð á að varðveita þyrfti efnahagslegan stöðugleika og endurbyggja viðnámsþrótt en á sama tíma að vinna að aukinni velsæld með hagvaxtarmiðuðum og grænum umbótum. Eitt mikilvægasta stefnumál sjóðsins að þessu sinni var að tryggja nægjanlega fjármögnun hans í sextándu endurskoðun kvóta hans sem ljúka þarf fyrir lok ársins. Þetta er brýnt til þess að sjóðurinn geti áfram stutt aðildarríki sín á trúverðugan máta á tímum sem einkennast af efnahagserfiðleikum og miklum áskorunum fjölda aðildarríkja. Einnig var unnið að því að tryggja nægjanlega fjármögnun lánadeilda sjóðsins eins og Poverty Reduction and Growth Trust (PRGT), sem stendur undir lánveitingum á niðurgreiddum kjörum til lágtekjulanda, og Resilience and Sustainability Trust (RST), sem einkum er hugsað til að auðvelda löndum að takast á við áskoranir vegna loftlagsbreytinga. Mikilvægt væri að aðlaga lánamöguleika sem í boði væru hjá sjóðnum að þörfum aðildarríkja á hverjum tíma.

Hér má finna stefnuyfirlýsinguna: The Managing Director's Global Policy Agenda, Annual Meetings 2023: Building Shared Prosperity and Collective Resilience.

Vegna stríðsins í Úkraínu tókst fjárhagsnefndinni ekki að sammælast um sameiginlega yfirlýsingu á fundinum (IMFC Communiqué). Í stað hennar gaf formaður nefndarinnar, Nadia Calviño, fjármálaráðherra Spánar, út yfirlýsingu sem studd var af fulltrúum flestra ríkja í nefndinni (IMFC Chair’s Statement). Þar kom meðal annars fram að innrás Rússlands í Úkraínu, hækkandi skuldir ríkja, hert fjármálaleg skilyrði, aukin loftslagsvá, aukinn ójöfnuður, fjöldi hælisleitenda og fólks á flótta, mataróöryggi, og hætta á aukinni sundrung væru áhyggjuefni fyrir stjórnvöld á heimsvísu. Þörf væri á samstilltu átaki þjóða til að verja efnahags- og fjármálastöðugleika í heiminum. Hér má finna yfirlýsinguna: Chair's Statement Forty-Sixth Meeting of the IMFC.

Fulltrúi kjördæmis Norður- og Eystrasaltslanda í fjárhagsnefndinni var að þessu sinni Riikka Purra, fjármálaráðherra Finnlands. Yfirlýsingu kjördæmisins (e. IMFC Statement) má finna hér: IMFC Statement by Riikka Purra, Minister of Finance, Finland, on behalf of Denmark, Republic of Estonia, Finland, Iceland, Republic of Latvia, Republic of Lithuania, Norway, and Sweden.


Til baka