logo-for-printing

31. október 2023

Skipulagsbreytingar í Seðlabanka Íslands

Bygging Seðlabanka Íslands

Í dag tóku gildi breytingar á skipulagi í starfi Seðlabanka Íslands sem samþykkt var á fundi seðlabankastjóra og varaseðlabankastjóra og staðfest af bankaráði Seðlabankans í samræmi við lög um Seðlabanka Íslands.

Breytingarnar fólu í sér að sviðin upplýsingatækni og gagnasöfnun og rekstur voru lögð niður og tvö ný svið voru stofnuð; gögn og umbætur, og upplýsingatækni. Heiti sviðsins fjárhagur breyttist í fjármál og rekstur og sviðið mannauður færðist úr því að vera skilgreint sem stoðsvið í skipuriti í að vera miðlægt svið ásamt því að heiti sviðsins breyttist í mannauður og menning.

Breytingarnar eru eðlilegt framhald af sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins í ársbyrjun 2020, en eitt meginmarkmið sameiningarinnar var að auka skilvirkni og skýrleika ábyrgðar og bæta stjórnsýslu við ákvarðanatöku, nýtingu upplýsinga og möguleika á auknum gæðum greiningar og yfirsýnar. Með breytingunum er stigið frekara skref í átt að því að samþætta starfsemina eftir sameiningu sem leiðir til aukinnar skilvirkni, m.a. við gerð fjárhags- og rekstraráætlana. Með breytingunum verður aukin áhersla m.a. lögð á gagnamál, netöryggi og miðlæga stefnumótun, auk skjala- og gæðamála.

Nánari upplýsingar um stjórnskipan Seðlabanka Íslands er að finna hér: Stjórnskipan Seðlabanka Íslands 31102023.

 

Frétt nr. 18/2023
31. október 2023


Til baka