logo-for-printing

22. nóvember 2023

Yfirlýsing peningastefnunefndar 22. nóvember 2023

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því áfram 9,25%.

Verðbólga minnkaði lítillega milli mánaða í október og mældist 7,9%. Undirliggjandi verðbólga hefur einnig hjaðnað. Áfram eru vísbendingar um að tekið sé að hægja á einkaneyslu og fjárfestingu.

Samkvæmt nýrri spá Seðlabankans hafa verðbólguhorfur þó versnað. Spennan í þjóðarbúinu hefur reynst meiri en áður var talið og gengi krónunnar hefur lækkað. Verðbólguvæntingar hafa jafnframt haldist háar og kostnaðarhækkanir virðast hafa meiri og langvinnari áhrif á verðbólgu en áður.
Þótt áhrif vaxtahækkana undanfarin misseri séu að koma skýrar fram benda verri verðbólguhorfur til þess að það gæti þurft að herða taumhald peningastefnunnar enn frekar. Þrátt fyrir það hefur peningastefnunefnd ákveðið að halda vöxtum óbreyttum að sinni í ljósi þeirrar óvissu sem ríkir um efnahagsleg áhrif jarðhræringa á Reykjanesi. Mótun peningastefnunnar á næstunni mun sem fyrr ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga.

Frétt nr. 19/2023
22. nóvember 2023

Vextir verða því sem hér segir:

1. Daglán 11,0%
2. Lán gegn veði til 7 daga 10,0%
3. Innlán bundin í 7 daga 9,25%
4. Viðskiptareikningar 9,0%

Sjá nánar: Vextir og bindiskylda við Seðlabanka Íslands 22. nóvember 2023.


Til baka