logo-for-printing

22. desember 2023

Sjóðsráð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins samþykkti 50% hlutfallslega kvótaaukningu sjóðsins

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er fjármagnaður með kvótaframlögum aðildarríkjanna sem þau reiða af hendi við inngöngu í sjóðinn. Kvótar mynda grunninn að útlánagetu sjóðsins og hversu há lán aðildarlönd geta fengið auk þess að ráða atkvæðavægi landa í sjóðsráði og framkvæmdastjórn sjóðsins.

Sjóðsráð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (e. Board of Governors) lauk sextándu almennu kvótaendurskoðun sjóðsins hinn 15. desember sl. Niðurstaða endurskoðunarinnar var stækkun kvóta aðildarríkjanna um 50% en samhliða henni verður fjárhæð lánasamninga (tvíhliða lánasamninga sem gerðir voru eftir fjármálakreppuna 2008, e. bilateral borrowing agreements (BBA), og nokkurs konar varasjóðs fyrir kvóta, e. New Arrangements to Borrow (NAB)) við nokkur aðildarlönd lækkuð sem nemur kvótaaukningunni. Kvótastækkunin og lækkun lánasamninganna mun því leiða til þess að heildarfjármögnun sjóðsins verður óbreytt en að mestu byggð á kvótum aðildarríkjanna. Kvótastækkunin nemur um 238,6 milljörðum SDR, eða um 320 milljörðum Bandaríkjadala, og verður heildarkvóti sjóðsins um 715,7 milljarðar SDR, eða um 960 milljarðar Bandaríkjadala.

Í kjölfar samþykktar sjóðsráðs munu aðildarríki Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þurfa að samþykkja kvótastækkun sína hvert fyrir sig til þess að hún öðlist gildi og skulu gera það fyrir 15. nóvember 2024. Kvóti Íslands stækkar um 161 milljón SDR og verður um 483 milljónir SDR.

Sjá fréttatilkynningu um sextándu almennu kvótaendurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á vef sjóðsins hér frá 18. desember sl. og frekari upplýsingar um hlutverk kvóta í starfi sjóðsins má finna hér.


Til baka