logo-for-printing

22. febrúar 2024

Breytingar á reglum um hámark veðsetningarhlutfalls og greiðslubyrðar fasteignalána

Í ljósi sérstakra aðstæðna í Grindavík hefur fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands samþykkt breytingar á reglum um lánþegaskilyrði. Nýjar reglur nr. 217/2024 um hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána til neytenda og reglur nr. 216/2024 um hámark greiðslubyrðar fasteignalána í hlutfalli við tekjur neytenda hafa verið birtar í Stjórnartíðindum og taka gildi á morgun, 23. febrúar. Um leið falla úr gildi reglur nr. 550/2023, um hámark veðsetningarhlutfalls til neytenda, og reglur nr. 701/2022, um hámark greiðslubyrðar fasteignalána í hlutfalli við tekjur neytenda.

Með hinum nýju reglum er fasteignaeigendum sem áttu íbúðarhúsnæði í Grindavík hinn 10. nóvember 2023 veitt aukið svigrúm vegna kaupa á næsta íbúðarhúsnæði. Þannig verður hámark veðsetningarhlutfalls 85% í stað 80% og hámark greiðslubyrðar í hlutfalli við ráðstöfunartekjur verður 40% í stað 35%, við kaup þeirra á næsta íbúðarhúsnæði. Framangreint svigrúm er tímabundið og fellur úr gildi 1. mars 2027.

Frétt nr. 4/2024
22. febrúar 2024

Til baka