logo-for-printing

24. apríl 2024

Vorfundur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 2024

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sótti vorfund Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 16. til 20. apríl 2024 í Washington, ásamt Björk Sigurgísladóttur, varaseðlabankastjóra fjármálaeftirlits, og öðrum fulltrúum Seðlabankans.

Í tengslum við vor- og ársfundi sína gefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn út skýrslur um efnahagsmál og fjármálastöðugleika, auk svæðisbundinna úttekta.

Riikka Purra, fjármálaráðherra Finnlands, var að þessu sinni fulltrúi Norður- og Eystrasaltslandanna í fjárhagsnefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (International Monetary and Financial Committee, IMFC). Í yfirlýsingu Purra fyrir hönd kjördæmisins kemur m.a. fram að fjölþjóðlegt samstarf sé afar þýðingarmikið þegar tekist er á við efnahagslegar áskoranir sem alþjóðasamfélagið stendur frammi fyrir. Innrás Rússa í Úkraínu var fordæmd og miklum áhyggjum lýst af hörmulegri stöðu mannúðarmála á Gaza-ströndinni.
Yfirlýsingin er hér: Yfirlýsing kjördæmis Norðurlanda og Eystrasaltslanda í fjárhagsnefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Ekki náðist samstaða um orðalag um innrás Rússa í Úkraínu í yfirlýsingu fjárhagsnefndarinnar (e. IMFC Communiqué) fremur en á fjórum síðustu fundum nefndarinnar. Af þeim sökum gaf formaður hennar, Mohammed Aljadaan, fjármálaráðherra Sádí-Arabíu, út yfirlýsingu í eigin nafni (e. IMFC Chair’s Statement) sem studd var af langflestum fulltrúunum í nefndinni. Þar kemur m.a. fram að líkur á mjúkri lendingu í alþjóðahagkerfinu hafi aukist en að horfur séu á fremur veikum hagvexti til meðallangs tíma og að stríð og átök dragi úr hagvexti á alþjóðavísu. Fjárhagsnefndin fagnaði samþykkt sextándu kvótaendurskoðunar sjóðsins í desember sl.
Sjá yfirlýsinguna hér: Yfirlýsing formanns fjárhagsnefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMFC).

Helstu stefnumál Alþjóðagjaldeyrissjóðsins voru kynnt í stefnuyfirlýsingu Kristalinu Georgievu, framkvæmdastjóra sjóðsins (e. Global Policy Agenda, GPA). Þar var m.a. lögð áhersla á nauðsyn þess að ná verðbólgu niður í markmið, verja sjálfstæði seðlabanka, styrkja viðnámsþrótt ríkisfjármála og fylgjast vel með fjármálastöðugleika auk þess að styðja við hagvöxt til meðallangs tíma með því að gera nauðsynlegar kerfisumbætur. Í yfirlýsingunni er einnig lögð áhersla á alþjóðlegt samstarf til þess að tryggja örugga og ábyrga notkun gervigreindar um allan heim til þess að hvort tveggja virkja mögulegan efnahagslegan ávinning og draga úr tengdri áhættu.
Stefnuyfirlýsingin er hér: Stefnuyfirlýsing framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (GPA).

Seðlabankastjóri og aðrir fulltrúar Seðlabankans áttu fundi með yfirmönnum og sérfræðingum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins auk fulltrúa fjármálafyrirtækja og matsfyrirtækja.

Hér fyrir neðan má finna tengla á efni tengt vorfundinum:
Vorfundur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 2024 (ýmislegt efni)
World Economic Outlook,  vor 2024
Global Financial Stability Report,  vor 2024
MDs Global Policy Agenda vor 2024


Til baka