logo-for-printing

30. maí 2024

Úthlutun úr menningarsjóði tengdum nafni Jóhannesar Nordals

Í gær fór fram þrettánda úthlutun úr menningarsjóði sem tengdur er nafni Jóhannesar Nordals, fyrrverandi seðlabankastjóra. Menningarstyrknum er fyrst og fremst ætlað að styðja viðleitni einstaklinga og hópa sem miðar að því að varðveita menningarverðmæti lands og þjóðar sem núverandi kynslóð hefur fengið í arf. Í ár bárust 30 umsóknir um styrkinn og hlutu fimm verkefni styrk upp á samtals fimm milljónir króna. Formaður úthlutunarnefndar menningarstyrksins er Hildur Traustadóttir og aðrir í nefndinni eru Guðrún Nordal og Jón Þ. Sigurgeirsson.

Guðmundur Jónsson hlýtur 1,5 milljónir króna í styrk til verkefnisins Bændasamfélagið á Íslandi. Félagsgerð og lifnaðarhættir í upphafi 18. aldar. Markmið verkefnisins er að gefa út bók um bændasamfélagið á Íslandi þar sem lýst er lifnaðarháttum landsmanna og nokkrum megineinkennum samfélagsgerðarinnar á fyrri hluta 18. aldar. Staldrað verður við ákveðinn tímapunkt í sögunni, upphafsár 18. aldar, og efnalegar og félagslegar aðstæður Íslendinga verða grandskoðaðar og samspil þeirra við náttúrulegt umhverfi. Viðfangsefnið verður sett í stærra sögulegt samhengi þannig að bókin varpar ljósi á bændasamfélagið almennt á 17. og 18. öld. Verkinu er ætlað að gefa núlifandi kynslóðum allnákvæma mynd af lifnaðarháttum Íslendinga fyrir 300 árum og efla skilning þeirra á rótum nútímasamfélags. Guðmundur Jónsson er ritstjóri verksins en fjölmargir aðrir fræðimenn sinna verkinu með einum eða öðrum hætti.

Þórbergssetur á Hala hlýtur eina milljón króna í styrk til verkefnisins Fátækt fólk í frelsisleit. Þórbergssetur á Hala - minningarsetur um Þórberg Þórðarson rithöfund, er menningar- og rannsóknarstofnun á Höfn í Hornafirði. Setrið beitir sér fyrir margháttuðu menningar- og listastarfi. Gísli Sverrir Árnason er höfundur verksins sem hlýtur styrk en um er að ræða rannsókn á ævi og sögu Eymundar Jónssonar og Halldóru Stefánsdóttur í Dilksnesi í Nesjum í Hornafirði en þau áttu þátt í að leggja grunn að nútímasamfélagi í Hornafirði. Eymundur og Halldóra voru samtíðarfólk Þórbergs Þórðarsonar og deildu kjörum með honum og öðrum Austur-Skaftfellingum. Eymundur og Halldóra bjuggu við þröngan kost alla ævi, fluttu til Kanada í leit að betra lífsviðurværi, en komu heim aftur að fimm árum liðnum. Þessu verkefni er ætlað að bæta við fyrri rannsóknir á sögu fólks í Austur-Skaftafellssýslu og um leið sögu venjulegs sveitafólks á Íslandi á 19. og 20. öld.

Geirþrúður Anna Guðmundsdóttir sellóleikari hlýtur einnar milljónar króna styrk til verkefnisins Geisladiskur - norræn verk fyrir selló og píanó. Styrkinn hlýtur Geirþrúður til að sinna upptöku og útgáfu á plötu af norrænum tónverkum fyrir selló og píanó. Um er að ræða sellósónötu eftir Norðmanninn Edvard Grieg, Malinconia eftir Finnann Jean Sibelius, og tvö verk eftir núlifandi íslensk tónskáld: Myndir á þili eftir Jón Nordal, og nýtt verk eftir Guðmund Hafsteinsson sem er einmitt faðir Geirþrúðar. Platan ber titilinn Music in a Cold Climate (Tónlist af köldum slóðum) og hefur það að markmiði að varpa ljósi á norræna tónsmíðahefð fyrir selló og píanó frá 19. öld til okkar samtíma.

Katrín og Lovísa Fjeldsted hljóta einnar milljónar króna styrk til verkefnisins Arfleifð Jórunnar Viðar: Tölvusetning nótna. Katrín og Lovísa eru dætur Jórunnar Viðar sem var frumkvöðull og brautryðjandi í íslenskri tónlist á 20. öld. Hún var fyrsta íslenska konan sem sinnti klassískum tónsmíðum. Þá var hún einnig afburða píanóleikari, hélt fjölda tónleika við góðan orðstír, lék einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands og hljóðritaði mörg verk fyrir Ríkisútvarpið. Verkefnið miðar að því að gera sögu hennar og tónlist aðgengilega nýjum kynslóðum, á Íslandi og erlendis. Skömmu eftir andlát Jórunnar fundust á heimili hennar nokkur verk sem legið höfðu í gleymsku svo áratugum skipti. Veigamest þeirra eru Fjórtán tilbrigði um íslenskt þjóðlag fyrir píanó (samin 1942), og óperan Snær konungur, sem hún samdi við texta systur sinnar, Drífu Viðar á árunum 1943–1945. Bæði verkin þarf að tölvusetja svo unnt verði að flytja þau. Þórður Magnússon tónskáld hefur tekið að sér það verkefni.

Að lokum hlýtur Þorsteinn Dagur Rafnsson hálfrar milljónar króna styrk til verkefnisins Þústlar. Þústlar er heiti á samfélagsmiðlarás sem tekur fyrir þætti úr íslenskri sögu og menningu. Markmið rásarinnar er meðal annars að vekja athygli á íslenskri sögu og menningu hjá íslenskum áhorfendahópi og hjálpa fólki tengjast söguarfinum á íslensku. Þorsteinn Dagur byrjaði með Þústla árið 2023 og hefur gefið út hátt í 30 myndbönd á Tik Tok og öðrum samfélagsmiðlum. Styrkurinn sem Þorsteinn hlýtur er til framleiðslu á þremur myndböndum. Það fyrsta er um Kalkofnsveg og þar verður meðal annars fjallað um hvaðan nafnið kemur og menningararfinn sem hann hefur að geyma. Annað myndbandið er um Leyndarráðstjórn sem er ritgerð eftir Jóhannes Nordal. Ritgerðin birtist árið 1957 og markmiðið er að kynna fólki málsnilld Jóhannesar og hans frjóa hug. Þriðja myndbandið mun fjalla um Vesturfara sem fluttu til Vesturheims á tímabilinu 1846-1914.

Til baka