logo-for-printing

14. júní 2024

Lífeyrissparnaður við árslok 2023

Bygging Seðlabanka Íslands

Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur birt samantekt, sem byggist á innsendum gögnum, úr ársreikningum lífeyrissjóða og sambærilegum gögnum frá vörsluaðilum séreignarsparnaðar. Á síðasta ári voru starfandi 21 lífeyrissjóður í 25 samtryggingardeildum. Þar af buðu 13 lífeyrissjóðir upp á séreignarsparnað í 44 deildum. Fimm innlendir vörsluaðilar séreignarsparnaðar veittu sparnað í 31 séreignarleið. Þá buðu tvö erlend tryggingafélög upp á séreignarsparnað í formi lífeyrisafurða.

Lífeyrissparnaður landsmanna í formi samtryggingar og séreignar lífeyrissjóða og annarra vörsluaðila jókst um 699 ma.kr, frá fyrra ári og nam 7.767 ma.kr í árslok 2023, sem er um 184% í hlutfalli af vergri landsframleiðslu. Þar af voru eignir í samtryggingu 6.493 ma.kr og 1.274 ma.kr í séreign.

Tryggingafræðileg staða lífeyrissjóða með ábyrgð ríkis og sveitarfélaga var neikvæð um 1.052 ma.kr. í árslok eða sem nemur 74,1% af heildareign í tryggingafræðilegu uppgjöri. Staða lífeyrissjóða án ábyrgðar var neikvæð um 408 ma.kr. eða sem nemur 3,9% af eignum.

Sjá nánar á sérstakri síðu fyrir talnaefni um lífeyrissjóði. Lífeyrissparnaður við árslok sést þar í skjalinu „Samantekt úr ársreikningum lífeyrissjóða 2023 - talnaefni.“


Til baka