logo-for-printing

28. júní 2024

Samkomulag Seðlabanka Íslands við Arion banka hf. um að ljúka með sátt máli vegna brota Arion banka gegn lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka

Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur haft til meðferðar mál er varðar meint brot Arion banka hf. gegn tilteknum ákvæðum laga nr. 140/2018 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Frummat fjármálaeftirlitsins var sent til Arion banka 20. júní 2023. Með bréfi dags. 31. ágúst 2023 lýsti Arion banki yfir vilja til að ljúka málinu með sátt við fjármálaeftirlitið. Á fundi fjármálaeftirlitsnefndar 2. maí síðastliðinn var málið talið að fullu upplýst og forsendur til að ljúka því með sátt við málsaðila. Í samræmi við það og á grundvelli fyrirliggjandi gagna tók fjármálaeftirlitsnefnd ákvörðun um að ljúka málinu með samkomulagi um sátt og greiðslu sektar að fjárhæð 585.000.000 kr. til ríkissjóðs ásamt skuldbindingu um úrbætur vegna brota gegn lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, sem send var bankanum 31. maí síðastliðinn.

Brot málsaðila varða áhættumat bankans á starfsemi vegna peningaþvættis og fjármögnunar hryðjuverka, áhættumat á samningssamböndum og einstökum viðskiptum, nafnlaus viðskipti, framkvæmd áreiðanleikakannana á erlendum fjármálafyrirtækjum, framkvæmd aukinna áreiðanleikakannana, aðgerðir málsaðila í tengslum við viðskipti við áhættusamt ríki og reglubundið eftirlit með viðskiptum og viðskiptamönnum, þ.m.t. skráningu og rekjanleika reiðufjárviðskipta. Brotin eru mörg og varða marga grundvallarþætti í aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Þá teljast brotin alvarleg og nokkur brot eru ítrekuð frá fyrri athugun fjármálaeftirlitsins á fylgni bankans við lögin sem fór fram árið 2020. Loks varða mörg brot viðskiptamenn og vörur sem teljast til mikillar áhættu með tilliti til peningaþvættis, s.s. reiðufjárviðskipti.

Í sáttinni, sem birt er í heild sinni, er málsatvikum og niðurstöðum fjármálaeftirlitsins á brotum Arion banka lýst í samræmi við 9. gr. a laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Með undirritun sáttarinnar hefur bankinn gengist við því að hafa gerst brotlegur við nánar tiltekin ákvæði laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Arion banka ber að skila úttekt á úrbótum bankans innan 14 vikna frá undirritun sáttar.

Sjá: Samkomulag Seðlabanka Íslands við Arion banka hf. um að ljúka með sátt máli vegna brota Arion banka gegn lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka 

Til baka