Möguleg stytting á stöðluðum uppgjörstíma verðbréfaviðskipta innan ESB
Evrópska verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunin (ESMA) hefur ásamt DG FISMA framkvæmdastjórnar ESB (stjórnarsvið um fjármálastöðugleika, fjármálaþjónustu og fjármagnsmarkaðssambandið) og DG MIP Seðlabanka Evrópu (stjórnarsvið um markaðsinnviði og greiðslur) gefið út yfirlýsingu um mögulega breytingu á uppgjörstíma verðbréfaviðskipta innan ESB úr T+2 í T+11. Þessi breyting er í samræmi við nýlegar breytingar í Norður Ameríku, en miðað er að því að auka skilvirkni markaða og draga úr uppgjörsáhættu.
ESMA hefur verið falið að meta möguleikann á styttingu uppgjörstíma verðbréfaviðskipta innan ESB, í nánu samstarfi við seðlabankakerfi Evrópu (ESCB). Í skýrslu, sem lögð verður fram fyrir Evrópuþingið og ráðið á næstu mánuðum, verður lagt mat á áhrif umræddrar breytingar, þ. á m. kostnað, ávinning og alþjóðlega þróun. Bráðabirgðaniðurstöður ESMA eru að stytting uppgjörstímans í T+1 geti aukið skilvirkni, minnkað uppgjörsáhættu og lækkað þann kostnað sem leiðir af ósamræmi milli alþjóðlegra markaðssvæða.
Þrátt fyrir að verðbréfamiðstöðvar innan ESB séu nú þegar tæknilega og lagalega búnar undir T+1 uppgjör, hafa markaðsaðilar kallað eftir breytingu á reglugerð (ESB) nr. 909/2014 (CSDR) til að tryggja samræmda og hnökralausa innleiðingu á slíku uppgjöri.
ESMA hefur því, í samstarfi við lögbær landsyfirvöld (NCAs), DG FISMA og ECB-DG MIP, ákveðið að setja á laggirnar eftirlits- og stjórnunarkerfi milli fyrrnefndra eftirlitsaðila og markaðsaðila innan ESB til að stuðla að samræmdum, tæknilegum undirbúningi vegna þeirra áskorana sem af T+1 uppgjöri mun leiða. Nánari upplýsingar um fyrirkomulag verkefnisins munu berast fljótlega.
Seðlabankinn mun fylgjast með þróun mála og upplýsa íslenska markaðsaðila eftir því sem tilefni er til.
Yfirlýsingu ESMA má finna hér: ESMA74-2119945925-2085 Shortening the standard s-ecurities settlement cycle in the European Union: next steps
1T+1 þýðir að uppgjör verðbréfaviðskipta er einum virkum degi eftir að viðskiptin eiga sér stað, en í tilfelli T+2 eru það tveir virkir dagar.