logo-for-printing

25. október 2024

Útlánakönnun Seðlabanka Íslands

Seðlabankinn framkvæmir ársfjórðungslega útlánakönnun á meðal viðskiptabankanna fjögurra. Spurt er um mat þeirra á þróun framboðs og eftirspurnar eftir lánsfé og auk þess hvaða þætti þeir telji að hafi haft ráðandi áhrif á framboð á síðustu þremur mánuðum. Einnig er spurt um væntingar viðskiptabankanna um horfur næstu sex mánuði. Könnunin var síðast framkvæmd 1. til 15. október sl. og eru niðurstöðurnar hér byggðar á meðaltali svara viðskiptabankanna.

Helstu niðurstöður

Niðurstöður könnunarinnar gefa til kynna að framboð bankanna á húsnæðislánum til heimila hafi dregist lítillega saman á síðustu þremur mánuðum en væntingar eru um óbreytt framboð á næstu sex mánuðum.1 Viðskiptabankarnir greindu talsverðan samdrátt í eftirspurn heimila eftir bílalánum á síðustu þremur mánuðum og lítilsháttar samdrátt í eftirspurn eftir öðrum lánum, sem ekki eru með veð í íbúðarhúsnæði. Bankarnir gera ráð fyrir svipaðri þróun í eftirspurn heimila eftir öðrum lánum á næstu sex mánuðum en búist er við lítilsháttar aukningu í eftirspurn eftir íbúðalánum. Samkvæmt svörum viðskiptabankanna hafa útlánareglur húsnæðislána verið þrengdar lítillega á síðustu þremur mánuðum og er gert ráð fyrir svipaðri þróun á næstu sex mánuðum. Kostnaður vegna eiginfjárstöðu, aðgengi að markaðsfjármögnun og lausafjárstaða eru þeir áhrifaþættir sem nefndir eru sem ástæða þrengingar útlánareglna. Bankarnir telja að samkeppni um útlán til heimila muni aukast á næstu sex mánuðum, bæði við aðra banka og við aðra aðila á lánamarkaði. Bankarnir greina frá því að vextir á verðtryggðum útlánum til heimila hafi hækkað á síðustu þremur mánuðum, einkum vegna hærri fjármögnunarkostnaðar þeirra, en regluverk og aukin samkeppni eru einnig nefnd sem áhrifaþættir til hækkunar verðtryggðra vaxta. Gert er ráð fyrir svipaðri þróun á næstu sex mánuðum en þróun meginvaxta er þá einnig talin muni hafa áhrif til hækkunar verðtryggðra vaxta, til viðbótar við hækkandi fjármögnunarkostnað og þyngra regluverk. Vextir á óverðtryggðum útlánum til heimila hafi hins vegar lækkað lítillega á síðustu þremur mánuðum og gera bankarnir ráð fyrir enn frekari lækkun á næstu sex mánuðum vegna væntinga þeirra um lækkun meginvaxta Seðlabankans.

Samkvæmt svörum bankanna hefur framboð lánsfjár til fyrirtækja verið óbreytt á síðustu þremur mánuðum en þeir gera ráð fyrir lítilsháttar aukningu framboðs útlána á næstu sex mánuðum. Bankarnir greindu nær óbreytta eftirspurn fyrirtækja eftir lánum á síðustu þremur mánuðum en búast við aukinni eftirspurn lána á næstu sex mánuðum, þá frekar á meðal stórra fyrirtækja. Reglur bankanna um lánveitingar til fyrirtækja voru óbreyttar á síðustu þremur mánuðum samkvæmt könnuninni og er ekki gert ráð fyrir breytingum á næstu sex mánuðum. Þá vænta þeir þess að samkeppni um fyrirtækjaútlán aukist lítillega á næstu sex mánuðum. Vextir útlána til stærri fyrirtækja lækkuðu á heildina litið lítillega á síðustu þremur mánuðum vegna lægri meginvaxta Seðlabankans samkvæmt svörum bankanna. Vextir á útlánum til minni fyrirtækja hafi aftur á móti lítið breyst þar sem hærri fjármögnunarkostnaður hafi vegið á móti áhrifum vegna lækkunar meginvaxta Seðlabankans. Á næstu sex mánuðum búast bankarnir við því að útlánavextir fyrirtækjalána lækki, bæði hjá minni og stærri fyrirtækjum. Helstu áhrifaþættir eru væntingar um þróun meginvaxta Seðlabankans og fjármögnunarkostnaðar bankanna. Athugasemdir bárust frá bönkunum varðandi spurningu 8 í könnuninni þar sem spurt er um þróun vaxta fyrirtækjalána. Ekki er gerður greinarmunur á þróun vaxta á lánum til fyrirtækja eftir lánstegund, en vextir verðtryggðra lána, óverðtryggðra lána og lána í erlendum gjaldmiðlum hafa þróast með ólíkum hætti síðustu mánuði. Niðurstöður könnunarinnar þarf því að skoða með þeim fyrirvara að vaxtaþróun ólíkra lánategunda geti vegið hvor á móti annarri.

Sjá nánari upplýsingar um niðurstöður könnunar og fleira hér: Útlánakönnun

1. Í könnuninni er lánum til heimila skipt upp í húsnæðislán, bílalán og önnur lán. Lánum til fyrirtækja er skipt upp í langtíma- og skammtímalán. Jafnframt er spurt sérstaklega um lán í erlendum gjaldmiðlum bæði fyrir heimili og fyrirtæki.

Til baka