Könnun á væntingum markaðsaðila
Seðlabanki Íslands kannaði væntingar markaðsaðila dagana 4. til 6. þessa mánaðar. Leitað var til 39 markaðsaðila á skuldabréfamarkaði, þ.e. banka, lífeyrissjóða, verðbréfa- og fjárfestingarsjóða, verðbréfamiðlana, fyrirtækja með starfsleyfi til eignastýringar og tryggingafélaga. Svör fengust frá 31 aðila og var svarhlutfallið því 79%.
Helstu niðurstöður
Niðurstöður könnunarinnar gefa til kynna að markaðsaðilar vænti minni verðbólgu en í síðustu könnun í ágúst. Þeir vænta þess að verðbólga verði 3,5% eftir eitt ár og 3,4% að tveimur árum liðnum, samanborið við 4,3% og 4% í síðustu könnun. Þá búast þeir við því að verðbólga verði 3,3% að meðaltali næstu fimm ár og 3% að meðaltali næstu tíu ár sem er um ½ prósentu lægra en í ágúst. Könnunin gefur til kynna að markaðsaðilar búist við því að gengi krónunnar lækki lítillega á næstu misserum og að gengi evru gagnvart krónu verði 150 krónur eftir eitt ár.
Miðað við miðgildi svara í könnuninni búast markaðsaðilar við því að meginvextir Seðlabankans lækki áfram og verði 8,5% í lok núverandi ársfjórðungs, 6,75% eftir eitt ár og 5,75% eftir tvö ár. Þetta eru lægri vextir en markaðsaðilar væntu í síðustu könnun en nokkuð nálægt þeim vöxtum sem þeir væntu í aprílkönnuninni.
Töluverð breyting varð á afstöðu svarenda til taumhalds peningastefnunnar milli kannana. Um 87% svarenda töldu taumhaldið of þétt og jókst hlutfallið úr 52% í ágústkönnuninni. Um 13% töldu taumhaldið vera hæfilegt samanborið við 40% í ágúst en enginn svaraði því að taumhaldið væri of laust.
Dreifing svara markaðsaðila um væntingar til vaxta minnkaði töluvert á nær alla mælikvarða frá síðustu könnun. Dreifing svara um væntingar til verðbólgu var minni en í ágústkönnuninni þegar horft er til eins árs eða lengra.
Markaðsaðilar voru einnig spurðir að því að ef þeir vænta þess að verðbólga verði meiri en 2,5% að meðaltali á næstu tíu árum, þ.e. yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans, hver væri meginástæðan fyrir því. Ýmsar ástæður voru nefndar en í um helmingi svara voru launahækkanir eða þróun á vinnumarkaði nefnd, tæplega 40% svarenda nefndi þróun ríkisfjármála og fimmtungur hækkun íbúðaverðs m.a. vegna fólksfjölgunar. Einnig nefndu nokkrir markaðsaðilar að raungengi krónunnar væri hátt sem gæti leitt til þess að nafngengið gefi eftir.
Sjá niðurstöður væntingakönnunarinnar hér: Könnun á væntingum markaðsaðila, 4. ársfjórðungur 2024.
Frekari upplýsingar um könnun á væntingum markaðsaðila má finna hér: Væntingakönnun markaðsaðila