Tilkynning um fyrirhugaðan flutning vátryggingastofns Vátryggingafélags Íslands hf. til VÍS trygginga hf.
Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands hefur borist umsókn frá Vátryggingafélagi Íslands hf., kt. 690689-2009, þar sem óskað er eftir að félaginu verði veitt heimild til að flytja vátryggingastofn sinn til VÍS trygginga hf., kt. 670112-0470. Við flutning stofnsins munu VÍS tryggingar hf. yfirtaka öll réttindi og skyldur sem stofninum fylgja.
Samkvæmt 3. mgr. 34. gr. laga nr. 100/2016 um vátryggingastarfsemi ber fjármálaeftirlitinu að birta opinberlega tilkynningu vegna yfirfærslubeiðninnar og óska eftir skriflegum athugasemdum vátryggingataka, vátryggðra og annarra sem hafa sérstaka hagsmuni að gæta innan tiltekins frests sem eigi skal vera skemmri en einn mánuður.
Vátryggingafélag Íslands hf. hefur í hyggju að hætta vátryggingastarfsemi og flytja vátryggingastofn sinn yfir til VÍS trygginga hf. og er fyrirhugaður flutningur liður í endurskipulagningu á samstæðu Vátryggingafélags Íslands hf. VÍS tryggingar hf. er dótturfélag Vátryggingafélags Íslands hf.
Með tilkynningu þessari er óskað eftir því að vátryggingatakar, vátryggðir og aðrir sem sérstaka hagsmuni hafa að gæta við yfirfærslu vátryggingastofns Vátryggingafélags Íslands hf. til VÍS trygginga hf., komi skriflegum athugasemdum sínum á framfæri við fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands eigi síðar er 27. desember nk.
Samkvæmt 5. mgr. 34. gr. áðurgreindra laga munu réttindi og skyldur vátryggingataka, vátryggðra og annarra samkvæmt vátryggingarsamningum halda sjálfkrafa gildi sínu við flutninginn. Vátryggingatökum er eftir sem áður heimilt að segja upp vátryggingarsamningum sem eru hluti af yfirfærðum stofni frá þeim degi þegar flutningur stofnsins á sér stað enda tilkynni þeir vátryggingafélagi um uppsögn sína skriflega innan mánaðar frá flutningsdegi.