30. desember 2024
Ný rannsóknarritgerð í leikjafræði og tilraunahagfræði um framleiðni mismunandi samfélagshópa
Seðlabanki Íslands hefur gefið út rannsóknarritgerðina „Productivity or privilege: Game-theoretic and experimental models of social class“ eftir Önnu Gunnþórsdóttur hjá University of Arizona og Háskóla Íslands og Pálmar Þorsteinsson á hagfræðisviði Seðlabankans.Félagsleg lagskipting, aðskilnaður samfélagshópa og ójöfnuður geta leitt til þess að tilteknir hópar telji sig hlunnfarna og þannig ógnað samfélagslegri sátt. Niðurstöður rannsóknar okkar eru að framleiðni, hagkvæmni og velferð geti einnig verið minni við slíkar aðstæður. Við skilgreinum líkan þar sem tveir ólíkir flokkar einstaklinga velja hvort og hve mikið þeir leggja fram til framleiðslu almannagæða. Skipting í flokka fer eftir magni þeirra gæða sem einstaklingar hafa yfir að ráða, þeim hvötum sem þeir hafa til að leggja framlag til framleiðslu almannagæða og félagslegum hreyfanleika þeirra. Annar flokkurinn (L) hefur minni gæði til umráða meðan hinn flokkurinn (H) hefur meiri gæði til umráða. Niðurstöður leikjafræðilegrar greiningar á líkaninu, ásamt niðurstöðum hagfræðilegrar tilraunar, eru að L-leikmenn leggja hlutfallslega hátt framlag til almannagæða meðan H-leikmenn eru tiltölulega óframleiðnir. Á meðan H-leikmenn leggja eingöngu til það framlag sem nauðsynlegt er til að skipa sér í stétt fyrir ofan L-leikmenn eru L-leikmenn félagslega hreyfanlegir og keppa innbyrðis um stöðu innan samfélagsins í ætt við það sem kallað hefur verið hugarfar millistéttarinnar og styðja þannig við tiltölulega skilvirkt jafnvægi meðal beggja flokka leikmanna. Niðurstöður tilraunarinnar staðfesta enn fremur að menn bregðast hratt við hvötum sem tengjast efnahagslegri stöðu þeirra og tækifærum og benda til þess að auka megi samfélagslega velferð með réttum efnahagsstefnum. Við bendum á raunverulegar aðstæður sem eru hliðstæðar þeim sem líkanið hermir og ræðum hvernig auka má skilvirkni og velferð með því að auka jöfnuð, félagslegan hreyfanleika eða samkeppni. Við bendum einnig á hvernig hægt er að aðlaga líkanið svo prófa megi áhrif mismunandi hópaskipanar, samspil lýðfræðilegra einkenna og hópa og skilvirkni hvata sem ætlað er að hafa áhrif á hegðun leikmanna.
Sjá ritið hér:
Productivity or privilege: Game-theoretic and experimental models of social class.