logo-for-printing

28. september 2021

Kalkofninum fylgt úr hlaði

Í dag ræsum við Kalkofninn, nýjan vettvang fyrir stuttar og aðgengilegar greinar um verkefni og verksvið Seðlabanka Íslands. Það er ástæða til að fagna þessu skrefi enda miðlun upplýsinga mikilvægur og órjúfanlegur þáttur í starfsemi seðlabanka. Hér mun sérfræðingum og stjórnendum bankans gefast tækifæri til að fjalla um það sem efst er á baugi í starfsemi bankans og vekja athygli á, draga saman og skýra greiningar bankans, breytingar á löggjöf og kröfur til eftirlitsskyldra aðila.

Gagnsæi er ekki bara æskilegt heldur nauðsynlegt í starfi Seðlabankans. Bankinn nær betur markmiðum sínum eftir því sem skilningur á hlutverki hans og starfi eykst. Mikilvægt er að Seðlabankinn leggi sig fram um að skýra fyrir almenningi hlutverk sitt, markmið og ákvarðanir. Útgáfustarfsemi bankans er jafnframt umfangsmikil er varðar reglulegar þjóðhagsspár, álagspróf og greiningar á íslenskum þjóðarbúskap og fjármálastöðugleika. Auk ýmissa rita, skýrslna og erinda, eins og sjá má á heimasíðu bankans.

Kalkofninn, sem við undirrituð höfum tekið að okkur að ritstýra, er eðlileg viðbót við útgáfuflóru Seðlabankans en greinunum sem hér birtast er ætlað að höfða til almennings, atvinnulífs, fjölmiðla og fræðasamfélags. Það er einnig von okkar að þetta muni hvetja starfsfólk Seðlabankans til að fjalla um áhugaverð efni sem tengist sérsviði þess og auðga þannig umræðu um efnahagsmál og fjármálamarkaðinn.

Það er hlutverk Seðlabankans að treysta velferð þjóðarinnar með því að stuðla að stöðugu verðlagi, fjármálastöðugleika og traustri og öruggri fjármálastarfsemi. Alþingi hefur tryggt að bankinn hafi sjálfstæði til að beita sér og taka ákvarðanir með þetta hlutverk að leiðarljósi. Sjálfstæði bankans byggir á þeirri reynslu þjóða að stjórn peningamála sé best fyrir komið hjá sjálfstæðri stofnun með afmarkað umboð sem getur tryggt að skammtímasjónarmið verði ekki ofan á við ákvörðunartöku. Sama á við varðandi það að standa vörð um fjármálastöðugleika og hafa eftirlit með fjármálastarfsemi. Með þessu fyrirkomulagi eru meiri líkur á að ákvarðanir séu teknar með langtímahagsmuni samfélagsins að leiðarljósi.

Sjálfstæði bankans fylgir lýðræðisleg skylda til að standa reikningsskil gerða sinna. Má sjá þetta meðal annars á auknum kröfum til seðlabanka almennt um að útskýra betur hvaða stefna er tekin, hvernig og hvers vegna. Seðlabanki Íslands er þar engin undantekning. Kalkofninn er eitt lóð á þá vogarskál.

Í nýjum Seðlabanka horfum við til framtíðar. Það er stefna okkar að halda áfram að efla og treysta upplýsingamiðlun bankans enda nauðsynlegt fyrir bankann að vera í fremstu röð þegar kemur að greiningu og miðlun upplýsinga um efnahagsmál og málefni fjármálamarkaða. Gangsetning Kalkofnsins er mikilvægt skref á þeirri braut.

Höfundar: Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu, Unnur Gunnarsdóttir varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits
Til baka