Almennir fjárfestar leita í áhættusamari eignir
Mikil breyting hefur orðið á þátttöku almennings á hlutabréfamarkaði undanfarin ár. Hlutabréfaeign landsmanna hefur liðlega tvöfaldast milli áranna 2017 og 2020 og meðalfjöldi daglegra viðskipta á innlendum hlutabréfamarkaði hefur aukist verulega að undanförnu. [1] Þá hefur metþátttaka verið í almennum útboðum hlutabréfa síðastliðin tvö ár. Lágt vaxtastig virðist hafa haft áhrif á eignadreifingu almennra fjárfesta. Hægt hefur á vexti heildareignar almennra fjárfesta í verðbréfasjóðum en töluverður vöxtur hefur orðið á heildareignum í sérhæfðum sjóðum fyrir almenna fjárfesta, sem almennt eru áhættusamari en verðbréfasjóðir.
Athuganir Fjármálaeftirlitsins
Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands kannar reglulega fjárfestingar almennra fjárfesta, [2] umfang þeirra og eignadreifingu. Tilgangur þess er m.a. að fylgjast með þróun fjárfestinga almennra fjárfesta í fjármálagerningum til að koma auga á hvert skuli beina athyglinni í eftirliti með verðbréfamarkaðnum. Í þessari grein er fjallað um helstu niðurstöður athugunar sem gerð var nú í ár þar sem könnuð var heildareignastaða eftir tegundum fjármálagerninga, annars vegar í árslok 2019 og hins vegar í árslok 2020. Niðurstöðurnar voru bornar saman við niðurstöður sambærilegrar athugunar sem gerð var 2017.
Áhættuflokkun sjóða
Áhættuflokkun verðbréfasjóða og sérhæfðra sjóða fyrir almenna fjárfesta fer eftir hversu miklar sveiflur eru í ávöxtun. Eftir því sem sveiflan er meiri því meiri er áhættan metin. Fjárfestar velja aukna áhættu í von um hærri ávöxtun. Rekstrarfélögum verðbréfasjóða og rekstraraðilum sérhæfðra sjóða er skylt að áhættuflokka sjóði sem þeir bjóða til sölu. Tilgangur áhættuflokkunar er að auðvelda fjárfestum val á sjóðum eftir því hversu mikla áhættu viðkomandi er tilbúinn að taka. Áhættuflokkarnir eru númeraðir frá 1-7. Flokkur 1 endurspeglar litlar sveiflur í ávöxtun og er þar af leiðandi áhættulítill en flokkur 7 endurspeglar miklar sveiflur í ávöxtun og er því áhættusamur. Tekið er mið af sveiflum í vikulegri ávöxtun síðustu fimm ára af líftíma sjóðsins. Út frá þeim upplýsingum er reiknað staðalfrávik á ársgrundvelli sem gefur vísbendingu um áhættuflokkun sjóðsins. Ef sjóður hefur verið starfræktur skemur en í fimm ár er miðað við ávöxtun viðmiðunarsjóðs með álíka eignasamsetningu. Þess ber að geta að ákveðin einföldun felst í áhættuflokkun og ekki ber að líta á kvarðann sem mat á áhættuþáttum, heldur tölfræðilega lýsingu á sveiflum í ávöxtun.
Hvað stýrir vali á fjárfestingum á grundvelli áhættuflokka?
Margir þættir geta stýrt vali fólks á áhættu, s.s. fjárfestingartími, lífaldur, tilgangur fjárfestingar, fjárhagsaðstæður, markaðsaðstæður, áhætta, áhættuvilji og áhættuþol. Með lengri fjárfestingartíma gefst svigrúm til að sitja af sér niðursveiflu í ávöxtun.
Áhættuþol og áhættuvilji er mjög einstaklingsbundinn og liggja ýmsar ástæður þar að baki. Tilgangur fjárfestingar skiptir þar miklu máli. Tökum sem dæmi ungan einstakling sem er að safna fyrir útborgun í íbúðarhúsnæði. Líklegt er að viðkomandi hafi takmarkaðan áhættuvilja, þrátt fyrir mikið áhættuþol og kjósi að verja höfuðstól sinn í stað þess að sækjast eftir hárri ávöxtun með tilheyrandi áhættu á því að höfuðstóllinn rýrni. Sama gæti gilt um eldra fólk sem treystir á sparnað sem hluta af lífeyri. Hjá því er markmiðið frekar að verja höfuðstólinn en að taka áhættu á því að hluti sparnaðarins gæti tapast, þar sem tími til að sitja af sér verðsveiflur og vinna upp hugsanlegt tap af fjárfestingu er ekki eins langur og hjá yngra fólki. Áhættuvilji og áhættuþol hjá þessu eldra fólki er því lítið. Á hinn bóginn getur einstaklingur hafa eignast fjármuni sem hann hefur ekki þörf fyrir til framfærslu. Markmið þess einstaklings gæti verið að fá eins mikla ávöxtun og mögulegt er á þessa fjármuni, enda hafi það ekki áhrif á framfærslu hans þótt hluti höfuðstóls tapist. Áhættuþol og áhættuvilji slíks einstaklings getur því verið mikill.
Markaðsaðstæður hafa áhrif á fjárfestingarval
Þegar heimsfaraldur skall á í byrjun árs 2020 dróst eftirspurn hratt saman, Seðlabanki Íslands brást við með vaxtalækkun. Vaxtalækkun við slíkar aðstæður er gerð til að örva framleiðslu og eftirspurn. Almenningur hefur búið við samkomu- og ferðatakmarkanir sem leitt hafa til aukins sparnaðar heimilanna. Sparifjáreigendur leitast við að hámarka ávöxtun sína miðað við áhættu, sparifé hefur safnast upp og hluti þess hefur leitað af hefðbundnum innlánsreikningum þar sem vextir þeirra hafa verið neikvæðir. Vaxtastig er því einn þeirra þátta sem hefur áhrif á val fólks á fjárfestingarleiðum. Þegar vaxtastig er hátt er líklegra að fólk sætti sig við ávöxtun traustra skuldabréfa, t.d. ríkisskuldabréfa og áhættulítilla sjóða sem fjárfesta í innlánum, peningamarkaðsskjölum og ríkisskuldabréfum. Við lágt vaxtastig leita fjármunir hins vegar frekar í áhættusamari eignir, t.d. hlutabréf og áhættusamari sjóði. Niðurstöður athugunar Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands benda til að fjármunir einstaklinga hafi leitað í áhættusamari sjóði og metþátttaka hefur verið í hlutafjárútboðum á undanförnum misserum. Vísbendingar eru því um að áhættuvilji almennra fjárfesta hafi aukist og að almennir fjárfestar hafi verið tilbúnir að taka meiri áhættu til að ávaxta sparnað sinn. Ekki er ólíklegt þegar meira jafnvægi kemst á eftir heimsfaraldur að sparnaður og áhættuvilji minnki. Seðlabanki Íslands hefur nú þegar hækkað vexti til að stemma stigu við hækkandi verðbólgu, en slíkt gæti leitt til verðlækkana á hlutabréfamarkaði og breytingar á eignadreifingu fjármálagerninga.
Dreifing heildareigna eftir tegundum fjármálagerninga
Á mynd 1 má sjá hvernig heildareignir almennra fjárfesta dreifast á tegundir fjármálagerninga miðað við stöðu í lok áranna 2017, 2019 og 2020.
Heildareign í sérhæfðum sjóðum fyrir almenna fjárfesta (áður nefndir fjárfestingarsjóðir) jókst úr 164 ma.kr. í lok árs 2017 í 279 ma.kr. í lok árs 2020. Sérhæfðir sjóðir eru almennt taldir áhættusamari en verðbréfasjóðir, en það er þó ekki algilt. Á sama tíma hefur hægt á vexti heildareignar í verðbréfasjóðum sem var 110 ma.kr. í lok árs 2017 en nam 167 ma.kr. í lok árs 2020. Heildareign í skráðum hlutabréfum jókst úr 56 ma.kr. í lok árs 2017 í 119 ma.kr. í lok árs 2020.
Árið 2017 var heldur tíðindalítið á hlutabréfamarkaði, þá var hvorki haldið almennt hlutafjárútboð sem beint var til almennings né nýtt félag skráð á aðalmarkað Nasdaq Iceland. Eitt félag var skráð á First North markað Nasdaq Iceland. Á árinu 2019 var hins vegar mikið líf á hlutabréfamarkaði og voru tvö ný félög skráð á skipulegan markað auk þriggja almennra útboða vegna hlutafjáraukningar. Í fyrra fóru svo fram tvö almenn hlutafjárútboð sem beint var til almennings og tóku um 17 þúsund einstaklingar þátt í hlutafjárútboði Icelandair, svo dæmi sé tekið. Fjöldi einstaklinga [3] sem áttu hlutabréf árið 2017 var 6.926, árið 2019 voru það 8.327 einstaklingar, árið 2020 16.913 og í ágúst 2021 áttu 30.569 einstaklingar hlutabréf. [4] Úrvalsvísitala hlutabréfa í Kauphöll Íslands hækkaði um 55,8% milli áranna 2017 og 2020 miðað við dagslokagengi síðasta viðskiptadag ársins. Verðhækkun á hlutabréfamarkaði skýrir því einungis takmarkaðan hluta eignamyndunar í hlutabréfum. Þátttaka almennings í hlutafjárútboðum, aukin áhættusækni, verðþróun á hlutabréfamarkaði og lágt vaxtastig eru meðal þátta sem skýra aukningu heildareignar í skráðum hlutabréfum.
Skipting heildareignar eftir áhættuflokkum sjóða
Myndir 3, 4 og 5 sýna hvernig skipting heildareignar í verðbréfasjóðum og sérhæfðum sjóðum fyrir almenna fjárfesta eftir áhættuflokkun hefur þróast á árunum 2017, 2019 og 2020.
Litlar breytingar hafa átt sér stað í dreifingu heildareignar eftir áhættuflokkum í verðbréfasjóðum milli áranna 2019 og 2020, en töluverð aukning er á heildareign í sjóðunum milli áranna 2017 og 2019. Heildareign í verðbréfasjóðum jókst úr 110 ma.kr. í árslok 2017 í 167 ma.kr. í árslok 2020. Langstærsti hluti eigna er sem áður í áhættuflokki 3 (myndir 3 og 4). Athygli vekur hversu mikið hefur hægt á vexti eigna í sjóðum sem flokkaðir eru í áhættuflokki 3 og er líkleg skýring að fjármunir hafi frekar leitað á hlutabréfamarkaðinn eða í sérhæfða sjóði fyrir almenna fjárfesta. Einnig er athyglisvert að sjá aukinn fjölda og heildareign í áhættuflokki 6, sú þróun bendir til aukinnar áhættusækni. Aukning í áhættuflokkum 1 og 2 milli áranna 2017 og 2019, skýrist líklega af því að sparnaður hafi leitað af innláns- og sparireikningum í hærri ávöxtun í verðbréfasjóðum.
Heildareign í sérhæfðum sjóðum fyrir almenna fjárfesta jókst úr 164 ma.kr. í lok árs 2017 í 279 ma.kr. í lok árs 2020. Fjöldi þeirra sem fjárfestu í slíkum sjóðum var 29.814 árið 2017, 44.236 árið 2019 og 48.674 árið 2020. Mikil fjölgun milli áranna 2017 og 2019 skýrist að öllum líkindum af því að fjármunir hafa leitað í fjárfestingakosti sem gefa hærri ávöxtun en innlánsreikningar og áhættuminni verðbréfasjóðir. Dreifing eigna í sérhæfðum sjóðum fyrir almenna fjárfesta hefur breyst lítillega. Heildareign í áhættuflokki 3 er enn langstærsti hlutinn. Merkja má aukna áhættusækni í dreifingu heildareigna í sérhæfðum sjóðum fyrir almenna fjárfesta þar sem heildareign í áhættuflokki 1 hefur dregist saman en aukning hefur orðið í áhættuflokkum 2, 3, 4 og 6. Skýra má þær breytingar að hluta til með lækkun vaxtastigs en sjóðir sem flokkaðir eru í áhættuflokki 1 fjárfesta að stærstum hluta í innlánum eða peningamarkaðsskjölum. Áhugi hefur aukist á sjóðum sem fjárfesta í áhættumeiri eignum, s.s. hlutabréfum og endurspeglast það í hækkun eigna í áhættuflokkum 4 og 6. Hækkun á markaðsvirði undirliggjandi eigna sjóðanna skýrir að hluta til hækkun heildareignar í sérhæfðum sjóðum fyrir almenna fjárfesta, en innflæði og fjölgun sjóðfélaga er helsta skýring aukningarinnar.
Heildareign almennra fjárfesta í sérhæfðum sjóðum (áður fagfjárfestasjóðir) hækkaði töluvert á milli áranna 2017 og 2019. Heildareign jókst þá úr 804 m.kr. í 5,5 ma.kr. en lækkaði síðan árið 2020 í 4,5 ma.kr. Fjöldi almennra fjárfesta sem fjárfestu í sérhæfðum sjóðum jókst úr 14 í 93 milli áranna 2017 og 2020.
Á mynd 7 má sjá þróun heildareignar eftir aldri. Heildareign almennra fjárfesta á aldrinum 19 - 35 ára hefur tæplega tvöfaldast milli áranna 2017 og 2020, mesta hlutfallslega aukningin er í þessum aldurshópi. Minnsta hlutfallslega aukningin er hjá yngsta hópnum en heildareignir 18 ára og yngri jukust um 28%. Heildareignir aldurshópanna 36 – 60 ára og 60 ára og eldri jukust um 65% á árunum 2017 til 2020.
Fjöldi almennra fjárfesta sem fjárfestir í hverjum fjármálagerningi fyrir sig var skoðaður. Samanlagður fjöldi almennra fjárfesta í öllum fjármálagerningum jókst úr 80.076 í 141.572 frá árinu 2017 til 2020. Gögnin eru ekki persónugreinanleg og því er ekki hægt að álykta að einungis sé um að ræða fjölgun einstaklinga sem fjárfesta í fjármálagerningum, heldur getur skýringin á auknum fjölda einnig legið í því að hver og einn einstaklingur er að fjárfesta í fleiri tegundum fjármálagerninga, t.d. fleiri sjóðum og einstökum hlutabréfum eða skuldabréfum. Hlutfallslega er aukningin mest í aldurshópnum 19 – 35 ára en fjöldi almennra fjárfesta á því aldursbili fór úr 10.153 í árslok 2017 í 20.983 í árslok 2020. Næst mesta hlutfallslega aukningin var í aldurshópnum 36 – 60 ára en í þeim hópi fjölgaði um 22.200, úr 27.753 í árslok 2017 í 49.953 í árslok 2020. Almennir fjárfestar 18 ára og yngri voru 3.575 á árinu 2017 en 4.918 í lok árs 2020. Fjölmennasti hópurinn er sem fyrr fólk eldra en 60 ára og taldi hann 38.595 almenna fjárfesta í árslok 2017 en 65.718 í lok árs 2020.
Samantekt
Athugun Fjármálaeftirlitsins leiddi í ljós að áhættusækni jókst frá árinu 2017 til loka árs 2020. Fjármunir almennra fjárfesta hafa verið settir í áhættusamari eignir og þátttaka almennings á hlutabréfamarkaði hefur aukist verulega. Aukna sókn í áhættusamari fjármálagerninga má líklega skýra að einhverju leyti með lágu vaxtastigi, þar sem fjárfestar sjá sér ekki hag í að hafa fjármuni sína á bankareikningum með sögulega lága ávöxtun en einnig með fjölbreyttari fjárfestingarkostum í formi hlutabréfa fyrirtækja sem eru í viðskiptum í kauphöll.
Höfundur: Arnfríður K. Arnardóttir, sérfræðingur í markaðsgreiningu á sviði markaða og viðskiptahátta hjá Seðlabanka Íslands. Alma Jónsdóttir lögfræðingur og Jökull Hauksson sérfræðingur á sviði markaða og viðskiptahátta hjá bankanum aðstoðuðu við gerð greinarinnar.
Heimildir:
- Meðalfjöldi daglegra viðskipta á hlutabréfamarkaði Nasdaq Iceland hf. var 125 viðskipti á dag árið 2017, 144 viðskipti árið 2019 og 226 viðskipti árið 2020. Á tímabilinu janúar til ágúst 2021 var meðalfjöldi daglegra viðskipta 385. Heimild: Nasdaq Iceland hf.
- Athugunin snýr að einstaklingum sem flokkaðir eru sem almennir fjárfestar, lögaðilar sem flokkaðir eru sem almennir fjárfestar falla því utan hennar.
- Óháð flokkun sem almennur fjárfestir
- Heimild, Nasdaq Iceland hf.
- Með gildistöku á lögum nr. 45/2020 um rekstraraðila sérhæfðra sjóða var notkun á heitinu fagfjárfestasjóður hætt. Nú er heitið sérhæfður sjóður notað um sjóði sem fjárfesta í flóknum fjármálagerningum.