Hvað gera heimilin við hinn mikla sparnað sem hefur byggst upp í farsóttinni?
Í þessari grein er fjallað stuttlega um fráviksspá sem birtist í nýjasta hefti Peningamála sem kom út 17. nóvember sl. þar sem lýst er mögulegum áhrifum þess að heimilin gangi hraðar á þann sparnað sem byggðist upp í farsóttinni en nú er gert ráð fyrir (sjá rammagrein 1 í Peningamálum 2021/4).
Sparnaður heimila jókst verulega í kjölfar þess að farsóttin barst til landsins snemma á síðasta ári. Óvissa um atvinnu- og efnahagshorfur jókst mikið og víðtækar sóttvarnaraðgerðir gerðu það að verkum að heimilin höfðu ekki aðgang að ýmiss konar þjónustu sem þau hefðu ella keypt. Þessu til viðbótar leiddi lokun landamæra til þess að verulega dró úr ferðalögum milli landa. Neysluútgjöld drógust því töluvert saman og mun meira en tekjur heimila þrátt fyrir versnandi atvinnuástand sem m.a. endurspeglar stuðningsaðgerðir stjórnvalda til að verja störf og tekjur almennings í farsóttinni. Hlutfall sparnaðar af ráðstöfunartekjum hækkaði því verulega á öðrum ársfjórðungi í fyrra og var orðið ríflega tvöfalt hærra en að meðaltali árin fimm þar á undan (mynd 1).
Eins og fjallað hefur verið um í fyrri heftum Peningamála hefur óvissa um hversu mikið og hve hratt heimilin ákveða að ganga á þennan viðbótarsparnað aukið óvissu um efnahagshorfur í kjölfar farsóttarinnar. Ýmis álitaefni um þróun sparnaðar eru rakin í rammagrein 1 í Peningamálum 2020/4. Í grunnspánni sem þar var birt var gert ráð fyrir að sparnaðarhlutfallið myndi lækka í það sem það var fyrir farsóttina á seinni hluta þessa árs. Eins og mynd 1 sýnir hefur það ekki gengið eftir. Í Peningamálum 2020/4 var einnig sýnt fráviksdæmi þar sem sparnaðarhlutfallið lækkar hægar og nær því sem núverandi grunnspá gerir ráð fyrir (mynd 2). Ekki er hins vegar útilokað að sparnaðarhlutfallið muni lækka enn frekar nú þegar mögulega sér fyrir endann á farsóttinni og fari í það sem það var fyrir farsóttina eins og gert var ráð fyrir í grunnspá Peningamála 2020/4 þótt það gerist seinna en þar var áætlað.
Mynd 3 sýnir möguleg áhrif þess á efnahagshorfur lækki sparnaðarhlutfallið hraðar en í grunnspánni. Samkvæmt fráviksdæminu er sparnaðarhlutfallið orðið um 2 prósentum lægra en í grunnspánni á næsta ári og um 3 prósentum lægra í lok spátímans. Eftirspurn heimila vex því töluvert hraðar en í grunnspánni: vöxtur einkaneyslu er um 3 prósentum meiri á næsta ári og 1½ prósentu meiri árið 2023. Aukin útgjöld heimila ryðja hins vegar í burtu fjárfestingu í atvinnulífinu þar sem meiri áraun verður á innlenda framleiðsluþætti sem leiðir til hærri vaxta innanlands (sjá hér á eftir). Atvinnuvegafjárfesting vex því ½ prósentu minna á ári á spátímanum en samkvæmt grunnspánni. Á heildina litið vex innlend eftirspurn þó hraðar en í grunnspánni og minnkandi þjóðhagslegur sparnaður veldur því að viðskiptajöfnuðurinn versnar um 1¼ prósentu af landsframleiðslu í lok spátímans. Þótt aukin eftirspurn eftir innfluttri vöru og þjónustu vegi á móti verður hagvöxtur um 1 prósentu meiri á næsta ári og ¼ prósentu meiri árið 2023. Hagvöxtur yrði því liðlega 6% á næsta ári í stað 5% samkvæmt grunnspánni og landsframleiðslan væri orðin hátt í 1% meiri í lok spátímans. Aukin efnahagsumsvif innanlands gera það að verkum að spenna myndast fyrr í þjóðarbúskapnum og þótt gengi krónunnar sé orðið ríflega 1% hærra en í grunnspánni á næsta ári verður ársverðbólga um 0,2-0,3 prósentum meiri á spátímanum. Til að tryggja að hún leiti að lokum í verðbólgumarkmið Seðlabankans eru vextir bankans um 0,8 prósentum hærri á næstu tveimur árum.
Höfundur: Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands