logo-for-printing

06. desember 2021

2020: Hverju var bankinn að spá?

Í þessari grein er farið stuttlega yfir efnahagsspár bankans fyrir árið 2020 en fjallað er ítarlega um efnið í rammagrein sem birtist í nýjasta hefti Peningamála sem kom út 17. nóvember (rammagrein 3 í Peningamálum 2021/4).

„Þrátt fyrir vaxandi áhyggjur af áhrifum útbreiðslu nýrrar veirusýkingar í Kína hefur óvissa um alþjóðlegar efnahagshorfur minnkað frá því í nóvember…“. Þannig hljómaði fyrsta umfjöllun Seðlabankans um COVID-19-farsóttina sem birt var í febrúarhefti Peningamála í byrjun árs 2020. Fáa óraði þá fyrir hvaða afleiðingar farsóttin myndi hafa og að hún myndi lita alla efnahagsumfjöllun til dagsins í dag.
 

Þegar þetta var ritað í febrúar 2020 var gert var ráð fyrir að hagvöxtur árið 2020 yrði 0,8%. Nokkru minni en metinn jafnvægishagvöxtur enda gætti enn áhrifa af falli flugfélagsins WOW Air í mars 2019 auk loðnubrests og framleiðsluhnökra í áliðnaði. Í lok febrúar barst farsóttin hingað til lands og hafði um leið gríðarleg áhrif á þjóðarbúskapinn. Stjórnvöld réðust í víðtækar aðgerðir til þess að stemma stigu við útbreiðslu farsóttarinnar og á sama tíma settu hagfræðingar Seðlabankans saman nýja þjóðhagsspá þar sem veruleikinn sem blasti við þeim var allt annar er sá sem lýst hafði verið í nýútgefnum Peningamálum. Mikilvægt var að fá sem best mat á efnahagshorfur svo að peningastefnunefnd Seðlabankans gæti gripið til aðgerða til að styðja við eftirspurn í þjóðarbúskapnum. Með engar nýjar hagtölur né fyrri reynslu af áhrifum farsótta á þjóðarbúskapinn lögðu hagfræðingarnir mat á möguleg efnahagsleg áhrif farsóttarinnar og birtu sem sviðsmynd í lok mars 2020. Þá var talið að landsframleiðsla myndi dragast saman um 4,8% á árinu (mynd 1) en alþjóðleg áhrif voru talin tiltölulega hófleg. Stuttu eftir birtingu sviðsmyndarinnar var hins vegar nánast lokað fyrir ferðalög milli landa og því ljóst að sviðsmyndin var of bjartsýn og að áhrifin á útflutning yrðu meiri en fyrst var talið. Í byrjun apríl var því önnur sviðsmynd birt þar sem gert var ráð fyrir að útflutningur myndi dragast saman um þriðjung frá fyrra ári og að samdráttur árið 2020 yrði 6,9%. Þótt greiningin hafi verið gagnrýnd og þótt of bjartsýn reyndist hún á endanum fara mjög nærri nýjustu tölum Hagstofunnar en samkvæmt þeim var samdráttur ársins 6,5%.
 

Seinni sviðsmyndin gekk því nokkuð vel eftir en þegar leið á árið, farsóttin ágerðist og ný gögn bárust urðu spár bankans of svartsýnar. Í maíspá bankans var búist við 8% samdrætti en eftir að slakað var á umfangi sóttvarnaraðgerða um sumarið var spáð 7,1% samdrætti í Peningamálum í ágúst. Faraldurinn versnaði hins vegar á ný þegar leið á haustið og hagvaxtarhorfur sömuleiðis. Auk þess birti Hagstofan fyrstu tölur um samdrátt á fyrri helmingi ársins 2020 sem sýndu meiri samdrátt en hafa nú verið endurskoðaðar. Í nóvemberspá bankans var því gert ráð fyrir 8,5% samdrætti og í febrúarspánni 2021 var gert ráð fyrir 7,7% samdrætti.
 

Samhliða því að spáð var of miklum efnahagssamdrætti var verðbólgu vanspáð árið 2020 því búist var við miklum slaka í þjóðarbúinu og litlum innlendum verðbólguþrýstingi (mynd 3). Í sviðsmyndunum (mynd 1) var gert ráð fyrir að verðbólga yrði 1,4% á árinu en spáin var hækkuð í 2,3% í maíhefti Peningamála þegar útlit var fyrir að innflutt verðbólga yrði meiri en áður var talið vegna gengislækkunar krónunnar. Þá bentu alþjóðlegar spár einnig til þess að olíu- og hrávöruverð myndi lækka mikið á árinu sem yrði til þess að draga úr verðbólguþrýstingi (mynd 4). Þegar leið á árið varð hins vegar ljóst að slakinn í þjóðarbúinu væri minni en hafði verið gert ráð fyrir og innlendur verðbólguþrýstingur meiri, sérstaklega þegar slakað var á sóttvarnaraðgerðum. Þar að auki gerðu ófyrirséðar truflanir á alþjóðlegum virðiskeðjum og vöruflutningum milli landa það að verkum að framboð á varanlegum neysluvörum var takmarkað á sama tíma og eftirspurn eftir þeim jókst. Þá tók olíu- og hrávöruverð að hækka er leið á árið, þvert á væntingar, og var hrávöruverð orðið hærra í lok árs 2020 en það var í upphafi þess. Verðbólguspár voru því færðar upp er leið á árið og reyndist verðbólga vera 2,8% á árinu.

Heilt yfir má því segja að bankanum hafi tekist nokkuð vel til við að spá fyrir um efnahagsþróun við þessar fordæmalausu aðstæður. Samdrátturinn sem spáð var í upphafi árs reyndist nærri mati Hagstofunnar og gerði peningastefnunefnd kleift að bregðast tímanlega við versnandi efnahagshorfum með viðeigandi hætti. Og þar sem verðbólguvæntingar hækkuðu ekki þrátt fyrir að verðbólga reyndist meiri og þrálátari en spáð var skapaðist svigrúm fyrir peningastefnunefnd til þess að taka stór skref og lækka vexti umtalsvert í þeim tilgangi að milda samdráttaráhrif farsóttarinnar.

Höfundur: Lilja Sólveig Kro, hagfræðingur á sviði hagfræði og peningastefnu
Til baka