logo-for-printing

25. febrúar 2022

Greiðsluráð – vettvangur fyrir greiðslumiðlun og fjármálainnviði

Undanfarin ár hafa Seðlabanki Íslands, kerfislega mikilvægir bankar og Reiknistofa bankanna unnið að endurskipulagningu fjármálainnviða, m.a. á grundvelli tillagna sem settar voru fram í Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið frá 2018. Markmið endurskipulagningarinnar er að ná fram auknu öryggi, skilvirkni og hagkvæmni í rekstri og þróun sameiginlegra kerfa í fjármálakerfinu.

Í tengslum við þessa endurskipulagningu hefur Seðlabankinn sett á fót þrjá vettvanga: framtíðarvettvang, vettvang fyrir reglubækur (reglubókaráð) og greiðsluráð sem hér er fjallað um.

 

Hlutverk greiðsluráðs

Greiðsluráð er umræðu- og upplýsingavettvangur stjórnvalda, markaðsaðila og annarra hagsmunaaðila um málefni greiðslumiðlunar og fjármálainnviða. Því er ætlað að styðja við stefnumótun í málaflokknum hér á landi, draga sjónarmið haghafa fram og veita stuðning við framþróun og nýsköpun á sviði greiðslumiðlunar.

Greiðsluráð var fyrst stofnað árið 2019 og vann vinnuhópur á vegum þess að samantekt um hvort unnt væri að stuðla að aukinni hagræðingu í greiðslumiðlun hér á landi. Vegna ýmissa ástæðna svo sem skipulagsbreytinga hjá Seðlabankanum, Covid-19 og vinnu við endurskipulagningu fjármálainnviða fundaði þetta fyrra greiðsluráð aðeins einu sinni. Sem hluta af vinnu við endurskipulagningu fjármálainnviða ákvað seðlabankastjóri haustið 2021 að endurvekja greiðsluráð og kom nýtt ráð saman í byrjun febrúar 2022.

 

Breytingar kalla á umræður um framtíðarþróun

Smágreiðslumiðlun er í örri þróun og er helsti aflvaki hennar tækni- og lagabreytingar. Þessar breytingar kalla fram þörf á að fá innsýn og sjónarmið mismunandi aðila um æskilega framtíðarþróun og að skapaður sé vettvangur fyrir skoðanaskipti og samtal enda hefur greiðslumiðlun áhrif á fjölmarga aðila. Í greiðsluráði fá þátttakendur tækifæri til að ræða greiðslumiðlun og greiðsluþjónustu á breiðum grunni og koma áherslum sínum og sjónarmiðum á framfæri.

Greiðsluráð sækir fyrirmynd sína til norrænna greiðsluráða en danski og sænski seðlabankinn hafa haft frumkvæði að stofnun greiðsluráða á undanförnum árum. Samsetning ráðsins hér á landi og verkefni þess verða áþekk því sem er í þessum löndum. Þar eiga sæti samtök fjármálafyrirtækja og fjártæknifyrirtækja, aðilar sem koma að tæknilausnum á sviði greiðslumiðlunar, samtök atvinnurekenda, neytendasamtök, ráðuneyti og stofnanir. Á vegum greiðsluráðs danska seðlabankans hafa verið starfandi verkefnahópar sem hafa skilað skýrslum, um t.d. nýjar tegundir greiðslulausna (2014), hlutverk reiðufjár (2016) og kostnað í greiðslumiðlun (2018). Sænska greiðsluráðið hefur einnig skipað verkefnahópa sem hafa starfað í lengri eða skemmri tíma og hafa þeir m.a. beint sjónum sínum að veikleikum og meðhöndlun erfiðleika í greiðslumiðlun, aðgengi að greiðslulausnum og aðgerðum gegn svikum, peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

 

Hverjir munu eiga sæti í greiðsluráði?

Eftirfarandi aðilum hefur verið boðin þátttaka í greiðsluráði og er þátttaka er valkvæð: fjármála- og efnahagsráðuneyti, menningar- og viðskiptaráðuneyti, Neytendasamtökunum, Reiknistofu bankanna, Samtökum fjármálafyrirtækja, Samtökum iðnaðarins, Samtökum verslunar og þjónustu, Samtökum fjártæknifyrirtækja og Viðskiptaráði Íslands. Seðlabankastjóri fer með formennsku í ráðinu og annast Greiðsluveitan umsjón þess fyrir hönd Seðlabankans.

Gert er ráð fyrir að greiðsluráð fundi að jafnaði tvisvar á ári. Starfsemi ráðsins er gagnsæ og verður efni frá því birt á heimasíðu Seðlabankans. Greiðsluráð getur stofnað vinnuhópa um tiltekin viðfangsefni sem samræmast markmiðum þess. Jafnframt verður hægt að beina erindum og ábendingum til ráðsins.

Vonir eru bundnar við að störf greiðsluráðs komi til með að stuðla að auknu samráði og skýrari framtíðarsýn fyrir greiðslumiðlun, neytendum, atvinnulífi og samfélaginu til hagsbóta.

Höfundar: Vigdís Ósk Helgadóttir, framkvæmdastjóri Greiðsluveitunnar og Selma Hafliðadóttir lögfræðingur.

Til baka