Umbrot á fjármálamarkaði kalla á nýjar áherslur við eftirlit
Fjármálamarkaðurinn einkennist nú af meiri og hraðari breytingum en oft áður. Ýmsir kraftar valda því samtímis að íslenski fjármálamarkaðurinn hefur breyst á undanförnum árum og er nú allt í senn alþjóðlegri, fjölbreyttari, flóknari og tæknivæddari en áður. Þessum breytingum fylgja margvíslegar áskoranir og tækifæri, bæði fyrir neytendur og fyrirtæki. En þær hafa einnig þýðingu fyrir eftirlitsaðila og kalla á nýjar áherslur við eftirlit á fjármálamarkaði. Athygli fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands beinist að því að þau umbrot sem nú eiga sér stað á fjármálamarkaði stofni ekki í hættu þeim mikla árangri sem náðst hefur við að byggja upp traust fjármálakerfi sem staðið getur af sér áföll.
Helsti aflvaki þessara umbrota á fjármálamarkaði eru tæknibreytingar en einnig þættir eins og breytingar á hegðun neytenda, þær auknu kröfur sem gerður eru til virkni og öryggi fjármálamarkaðarins og vaxandi þátttaka erlendra aðila á innlendum fjármálamarkaði. Seðlabanki Íslands fylgist grannt með þessari þróun og telur nauðsynlegt að laga eftirlitsstarfsemina að þessum breytingum.
Í þessari viku birti Seðlabanki Íslands Stefnumarkandi áherslur við eftirlit á fjármálamarkaði 2022-2024 þar sem langtímaáherslur eftirlitsins til næstu þriggja ára eru kynntar. Þessar áherslur taka m.a. mið af þessum umbrotum og er ætlað að vera leiðarljós í umbótastarfi og forgangsröðun fjármálaeftirlitsins næstu þrjú árin. Megináherslur til 2024 sem eiga við allan fjármálamarkaðinn eru:
1. Net- og upplýsingatækniöryggi
Áhersla á net- og upplýsingatækniöryggi eftirlitsskyldra aðila helgast m.a. af örum tæknibreytingum undanfarin ár, stækkandi hlutdeild tækni í fjármálaþjónustu og vaxandi áhættu á fjármálamarkaði vegna netárása og annarra netöryggisógna. Í þessu samhengi þarf m.a. að hafa í huga að íslensk fyrirtæki eru nú útsett fyrir annars konar netárásum en áður. Áður var hvati flestra netárása fjárhagslegur ávinningur árásaraðilanna en þær eru nú í vaxandi mæli notaðar sem vopn í átökum og deilum milli ríkja. NATO-aðild Íslands og afstaða Íslands til árásar Rússlands á Úkraínu hefur því gert íslensk fyrirtæki að hugsanlegum skotmörkum netárása af hendi annarra ríkja. Afar brýnt er að eftirlitsskyldir aðilar styrki varnir sínar á þessu sviði og að stjórnir eftirlitsskyldra aðila ábyrgist netvarnir þeirra.
2. Aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka
Áframhaldandi áhersla á öflugar og virkar aðgerðir eftirlitsskyldra aðila gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka er til merkis um vaxandi alþjóðavæðingu íslenska fjármálakerfisins og mikilvægi þess að standa vörð um heilindi fjármálamarkaðsins. Á næstu árum verður áfram lögð rík áhersla á að tilkynningarskyldir aðilar styrki varnir sínar á þessu sviði með öflugum áhættumiðuðum aðgerðum.
3. Áhersla á viðskiptavininn
Með þessari áherslu er ljósi varpað á mikilvægi eftirlits með viðskiptaháttum á fjármálamarkaði enda er slíkt eftirlit nauðsynlegt til að byggja upp traust og efla trúverðugleika markaðarins með aukinni neytenda- og fjárfestavernd og vaxandi áherslu á eftirlit með söluvenjum og markaðsefni eftirlitsskyldra aðila. Nýlegar lagabreytingar, vaxandi hlutdeild rafrænnar þjónustu og afgreiðslu, ásamt framgangi nýrra og áhættusamra vara og fjármálagerninga sem almennir fjárfestar hafa nú auðvelt aðgengi að kallar á áherslubreytingar í viðskiptaháttaeftirliti.
4. Sjálfbær fjármál
Að lokum verða sjálfbær fjármál í brennidepli en í því endurspeglast sú staðreynd að loftslagsvá og aðgerðir til að bregðast við henni eru nú þegar uppspretta áhættu í fjármálakerfinu. Nauðsynlegt er að bregðast við og aðlaga sig að þeim breytingum sem fyrirsjáanlegar eru á regluverki fjármálamarkaðarins við það að dregið verður úr útblæstri loftslagstegunda og gerð verður ríkari krafa um að fjármálamarkaðir leggi sitt af mörkum.
Mikið breytt regluverk fjölgar verkefnum stjórnvalda
Undanfarin ár hafa ekki aðeins einkennst af örum breytingum hjá fyrirtækjum á fjármálamarkaði sem hagnýta nýja tækni og aðlaga sig að breyttum þörfum og kröfum neytenda. Löggjöf á fjármálamarkaði hefur einnig tekið stakkaskiptum. Nær öll svið fjármálamarkaðarins hafa verið tekin til gagngerrar endurskoðunar með það að markmiði að styrkja viðnámsþrótt fyrirtækja og vernda hagsmuni almennings, efla faglega áhættustýringu, bæta stjórnarhætti og auka aðhald og eftirlit.
Hin nýja löggjöf hefur að sama skapi fjölgað hlutverkum og eftirlitsverkefnum stjórnvalda á fjármálamarkaði. Og í mörgum tilfellum hefur fjármálaeftirlitinu verið falið aukið vald til íhlutunar og beitingar viðurlaga.
Fjárfestum í fólki og þekkingu
Viðbrögð fjármálaeftirlitsins við þessum auknu verkefnum hafa ekki falist í því að fjölga fólki heldur að fjárfesta í fólki; þjálfa það og efla þekkingu þess. Fjöldi starfsmanna sem sinna eftirliti með fjármálamarkaðnum er nú áþekkur og var fyrir áratug síðan, þrátt fyrir stóraukin verkefni og verulega breytta löggjöf sem gerir sífellt meiri kröfur til starfseminnar. Þetta er þvert á það sem oft er haldið fram að starfsmönnum sem sinna eftirliti á fjármálamarkaði hafi fjölgað á undanförnum árum. Þvert á móti hefur sveigjanleiki, fjárfesting í fólki og markviss starfsþróun og þekkingaröflun skilað miklum árangri. Á því byggjum við til framtíðar.
Sýnilegt og aðgengilegt fjármálaeftirlit
Fjármálaeftirlit Seðlabankans hefur eftirlit með öllum fjármálamarkaðnum á Íslandi. Undir eftirliti eru m.a. bankar, sparisjóðir, lífeyrissjóðir, vátryggingafélög, vátryggingamiðlarar, kauphallir, greiðslustofnanir, rafeyrisfyrirtæki, verðbréfamiðstöðvar, verðbréfafyrirtæki, innheimtuaðilar, sjóðir af ýmsu tagi og fleiri aðilar. Þá eru viðskipti á verðbréfamarkaði einnig undir eftirliti.
Traust og öruggt fjármálakerfi þarf að byggja á sterkum grunni áreiðanlegs regluverks og virku eftirliti með öllum markaðsaðilum. Frammi fyrir spennandi breytingum á fjármálamarkaðnum er nauðsynlegt fyrir stjórnvöld að aðlaga sig að breyttum tímum. Mikilvægt er að fjármálaeftirlitið sé sýnilegt og aðgengilegt þeim sem bjóða eða hyggjast bjóða fjármálaþjónustu. Þá er nauðsynlegt að stuðla að gagnsæi markaðarins og miðla greinargóðum upplýsingum til aðila á markaði og til neytenda. Fjármálaeftirlitið þarf jafnframt að vera aðgengilegt neytendum sem vilja koma ábendingum til þess, t.d. vegna viðskiptahátta eftirlitsskyldra aðila. Á þessum sviðum hyggst fjármálaeftirlitið styrkja sig og standa vörð um árangur undanfarinna ára. Þannig höldum við áfram að byggja upp traustan fjármálamarkað.
Höfundur: Unnur Gunnarsdóttir, varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits