logo-for-printing

20. október 2022

Stýring loftslagsáhættu fjármálafyrirtækja

Þrátt fyrir að stutt sé síðan sum fjármálafyrirtæki fóru að stýra þeirri fjárhagslegu áhættu sem þau standa frammi fyrir vegna loftslagsbreytinga (loftslagsáhætta) hefur nokkur þróun átt sér stað á því sviði. Í þessari grein er fjallað um hana. 

Markmiðum áhættustýringar, þar með stýringum loftslagsáhættu, má skipta í fernt:

  1. Greining (e. identification): Að þekkja mikilvæga (e. material) áhættuþætti og orsakasamhengi fjárhagslegs tjóns. M.ö.o. að þekkja þær breytingar tengdar loftslagsbreytingum sem geta valdið fjárhagslegu tjóni og hvernig þær eiga sér stað.
  2. Útsetning (e. exposure): Mat á áhættufjárhæð (e. exposure at default, EAD), þ.e.a.s. heildarfjárhæð þeirra eigna (áhættuskuldbindinga) sem viðkvæmar eru fyrir framangreindum áhættuþáttum.
  3. Áhættumat: Mat líkindadreifingar fjárhagslegs taps. Þ.e.a.s. hverjar eru líkurnar á því að fjárhagslegt tap verði ekkert, undir milljón, undir milljarði, eða hvaða fjárhæð sem er.
  4. Mildun: Aðgerðir til að milda áhættu með því að minnka áhættufjárhæð, vanefndalíkur (e. probability of default, PD) og tap af gefnum vanefndum (e. loss given default, LGD).

Þeim aðferðum sem notaðar hafa verið við áhættustýringu hefur verið skipt í fjóra meginflokka:

  • Kortlagning áhættuskuldbindinga (e. exposure mapping and measurement)
  • Aðlögun eignasafns (e. portfolio alignment method)
  • Áhættuskuldbinding (e. exposure method)
  • Mæling áhættu (e. risk quantification)

Fjallað er um hvern flokk fyrir sig í eftirfarandi köflum.

 

Kortlagning áhættuskuldbindinga og áhættumat

Aðferðir í þessum flokki byggjast á því að kortleggja þær áhættuskuldbindingar sem eru viðkvæmar fyrir fyrirfram skilgreindum áhættuþáttum og mæla þannig áhættufjárhæð.

Loftslagsáhætta er yfirleitt flokkuð í raunlæga áhættu (e. physical risk) og umbreytingarhættu (e. transition risk) og geta aðilar verið bæði viðkvæmir beint og óbeint fyrir loftslagsbreytingum.

Kortlagning beinnar raunlægrar áhættu byggist á því að greina þá raunlæga áhættuþætti (e. physical risk drivers) sem valdið geta fjárhagslegu tjóni og áhrifasvæði þeirra. Dæmi um slíka áhættuþætti eru flóð, hitabylgjur, þurrkar o.s.frv., og er niðurstaða greiningarinnar kort sem sýnir áhrifasvæði greindra áhættuþátta. Næsta skref er að bera kennsl á þá mótaðila og þær tryggingar sem eru útsett fyrir framangreindum áhættuþáttum, þ.e.a.s. sem eru á áhrifasvæði áhættuþáttanna og viðkvæm fyrir þeim. Áhættan ræðst oft af þeim geira sem þeir eru í og er landbúnaður sérstaklega viðkvæmur.

Þau efnahagslegu áhrif sem framangreindir áhættuþættir hafa á hagkerfið mynda svo óbeina raunlæga áhættu fyrir alla mótaðila, m.a. á aðfangakeðju fyrirtækja.

Kortlagning umbreytingaráhættu byggist á því að greina áhættuþætti sem fylgja breytingum í átt að sjálfbæru samfélagi. Þar er aukinn kostnaður við losun gróðurhúsalofttegunda án efa mikilvægasti áhættuþátturinn. Næsta skref við mat umbreytingaráhættu er að bera kennsl á þá mótaðila sem eru útsettir fyrir áhættuþáttum umbreytingaráhættu. Vegna eðlis umbreytingaráhættu eru þessir mótaðilar oft innan ákveðinna geira og lögsagnarumdæma. Ástæðan er sú að nokkur munur getur verið á losun gróðurhúsalofttegunda milli geira og kostnaði við losun milli lögsagnarumdæma.

Yfirleitt búa fjármálafyrirtæki ekki yfir þekkingu á greiningu þessara áhættuþátta. Þau notast því við greiningar sem ytri aðilar hafa gert. Mat á áhættufjárhæð byggist að jafnaði á upplýsingum frá viðeigandi mótaðilum eða þá að hún er áætluð út frá eiginleikum þeirra, t.d. innan hvaða geira þeir starfa.

Hversu oft kortlagning áhættu og áhættumat fer fram ræðst af því hversu stöðugir áhættuþættir, eignasafn fjármálafyrirtækis og eiginleikar áhættuskuldbindinga þess og mótaðila eru. Séu þessir þættir óstöðugir kallar það á að þeir séu oftar kortlagðir.

Út frá kortlagningu áhættu er hægt að byggja upp áhættuvísa sem nýtast við reglulegt eftirlit með áhættu. Dæmi um áhættuvísi er t.d. hlutfall áhættuskuldbindinga í geirum sem eru sérstaklega viðkvæmir gagnvart loftslagsbreytingum. Niðurstöðu kortlagningar áhættu er einnig hægt að nýta við mildun áhættu, annað hvort með samstarfi við mótaðila um að draga úr líkum á tjóni og þar með vanefndum eða með viðbótar tryggingum frá mótaðila. Niðurstöðurnar nýtast svo við stefnumótun, t.d. við ákvörðun vöruframboðs og val á mörkuðum og geirum sem heppilegt væri að viðkomandi fjármálafyrirtæki einbeitti sér að.

Margir sérhæfðir aðilar bjóða upp á þjónustu við kortlagningu loftslagsáhættu. Sumir hafa kortlagt landsvæði sem viðkvæm eru gagnvart tilteknum raunlægum áhættuþáttum, t.d. flóðasvæði, og geta jafnframt staðsett stærri mótaðila innan eða utan slíkra svæða. Út frá þeim upplýsingum, og öðrum eiginleikum einstakra mótaðila, t.d. hvaða geira þeir starfa innan, geta þeir kortlagt viðkvæmar áhættuskuldbindingar. Aðrir aðilar sem bjóða upp á kortlagningu loftslagsáhættu hafa safnað miklu magni upplýsinga um losun og aðra eiginleika einstakra fyrirtækja og byggt líkan út frá þeim upplýsingum sem gerir þeim t.d. kleift að meta losun aðila út frá því hvaða geira þeir starfa innan og tekjum þeirra.

 

Aðlögun eignasafns

Við aðlögun eignasafns er lagt mat á umbreytingaráhættu og hversu vel eignasafn fjármálafyrirtækis er í takt við loftslagsmarkmið. Eignasafn er borið saman við viðmiðunarsafn sem þróast í takt við loftslagsmarkmið og er áhættan í takti við frávik frá því viðmiðunarsafni.

Áhættuþáttur þessarar aðferðar við áhættustýringu er því þegar skilgreindur sem breytingar á kostnaði við losun gróðurhúsalofttegunda. Flestir mótaðilar fjármálafyrirtækja eru útsettir fyrir áhættuþættinum, í mismiklum mæli þó. Mælikvarðinn sem oftast er notaður er við mat á útsetningu er fjármögnuð losun (e. funded emission) og er áhættan því meiri sem losun umfram viðmiðunarsafn er meiri.

Hversu útsett fyrirtæki er ræðst að mestu af því hversu vel því hefur tekist að takmarka eigin losun og losun í eigin virðiskeðju samanborið við samkeppnisaðila. Hjá bílaframleiðanda væri það t.d. hversu vel hefur tekist til við að draga úr losun við framleiðslu bifreiðanna og hversu sparneytnar bifreiðarnar eru á jarðefnaeldsneyti. Útsetning einstaklings ræðst að miklu leyti af orkunýtni íbúðarhúsnæðis.

Hversu oft þarf að meta aðlögun eignasafna og notagildi matsins mótast af sömu þáttum og við kortlagningu áhættuskuldbindinga. Til að milda áhrif er dregið úr losun og skoðað hvernig fjármálafyrirtækið getur hvatt mótaðila sína til aðlögunar að loftslagsmarkmiðum, m.a. með verðlagningu.

Kolefnis-beta (e. carbon-beta) er annar mælikvarði á aðlögun eignasafns. Það er svipaðs eðlis og hefðbundinn beta mælikvarði (sem mælir næmni gagnvart markaðinum í heild). Carbon-beta mælir næmni eignasafns gagnvart umbreytingu yfir í sjálfbært hagkerfi. Eignasafn með jákvætt kolefnis-beta mun líklegast lækka meira í verði við umbreytingu í átt að sjálfbæru hagkerfi á meðan eignasafn með neikvætt kolefnis-beta hækkar. Eignasafn með kolefnis-beta upp á núll þróast eins og markaðurinn m.t.t. umbreytingar í átt að sjálfbærni.

 

Áhættuskuldbinding

Aðferðir hvað varðar mat á áhættuskuldbindingu beinast að því að meta loftslagsáhættu stakrar áhættuskuldbindingar eða mótaðila. Yfirleitt er um að ræða ýtarlegt mat framkvæmt af sérhæfðum aðila og er það svipað í eðli sínu og hefðbundið lánshæfismat. Það er þó að mestu leyti eigindlegt og gefur sjaldnast tölulegar niðurstöður. Matið byggist yfirleitt á eiginleikum viðkomandi mótaðila en getur, ef upplýsingar um mótaðila liggja ekki fyrir, byggt á eiginleikum sambærilegra aðila, þá að jafnaði í sama geira.

Metið er hversu útsettur mótaðili er fyrir skilgreindum áhættuþáttum og hverjar líkur á tjóni séu, þ.e.a.s. gert er áhættumat. Á grundvelli matsins er hægt að meta þörf á aðgerðum til mildunar.

Matið fer að jafnaði sjaldan fram og nýtist því illa við reglubundið eftirlit. Besti tíminn til að beita aðferðinni er þegar ný lán eru veitt og hægt er að krefjast nauðsynlegra upplýsinga frá mótaðila. Vaxandi fjöldi fjármálafyrirtækja og sérhæfðra aðila er farinn að bjóða upp á slíkt mat en vegna umfangs og kostnaðar hentar aðferðin helst fyrir stórar áhættuskuldbindingar en síður við reglulegt eftirlit með áhættuskuldbindingum.

Vísbendingar eru um að gæði mats af þessu tagi séu oft takmörkuð. Ólíkt hefðbundnu lánshæfismati, þar sem oftast er lítill munur milli matsaðila, er gjarnan mikill munur á mati einstaka matsaðila á mótaðilum.

 

Mæling áhættu

Aðferðir við mælingu áhættu beinast að því að greina flókið orsakasamhengi loftslagsbreytinga hvað varðar líkindadreifingu fjárhagslegs tap fjármálafyrirtækis, yfirleitt með sviðsmyndagreiningu eða næmnigreiningu. Algengast er að áætla hvert fjárhagslegt tap yrði í kjölfar fyrir fram skilgreindra loftslagsbreytinga og aðgerða sem áformað er að ráðast í til að bregðast við þeim breytingum. Aðferðir við mælingu eru yfirleitt í tveimur skrefum. Í fyrra skrefinu eru áætluð áhrif framangreindrar breytinga á efnahag einstaka aðila og hagkerfa. Við það mat treysta fjármálafyrirtæki að jafnaði á ytri aðila, og fyrir fram skilgreindar sviðsmyndir. Í seinna skrefinu eru þessar niðurstöður notaðar til að áætla tap fjármálafyrirtækja, oftast með hefðbundnum útlánaáhættulíkönum.

Við sviðsmyndagreiningu eru fundnir þeir mótaðilar og geirar sem eru útsettir fyrir loftslagsbreytingum og áhrifin á þá metin. Aðilar sem losa mikið eru sérstaklega viðkvæmir fyrir umbreytingaráhættu og er þá hærri kostnaður við losun á efnahag þeirra metinn. Í kjölfarið eru hefðbundin útlánaáhættulíkön notuð til að áætla áhrif þeirra breytinga á útlánatap banka. Við mat raunlægrar áhættu eru aðilar á áhrifasvæðum raunlægra áhættuþátta auðkenndir og áhrif fyrir fram skilgreindra áhættuþátta (t.d. flóða) á efnahag þeirra metin, þ.m.t. framleiðni og verðmæti fasteigna. Í seinna skrefinu eru útlánaáættulíkön notuð til að áætla útlánatap vegna þeirra efnahagslegu breytinga. Óbein áhrif á efnahag annarra aðila eru jafnframt metin og afleidd útlánatöp í kjölfarið.

Sviðsmyndagreining er yfirleitt til lengri tíma, ára eða áratuga, og gagnast við að greina hverjir eru útsettir eru fyrir áhættuþáttum, meta mögulegar mótvægisaðgerðir (t.d. í samvinnu við mótaðila) og meta eiginfjárþörf. Sviðsmyndagreining nýtist við stefnumótun. Greining af þessu tagi nýtist hins vegar síður við reglulegt eftirlit þar sem hún er sjaldan framkvæmd vegna umfangs og kostnaðar.

Network for Greening the Financial System (NGFS) eru samtök seðlabanka um þróun aðferða við stýringu loftslagsáhættu. Eitt mikilvægasta framlag NGFS eru sviðsmyndir sem samtökin hafa látið gera þar sem áætluð eru áhrif mismunandi þróunar loftslagsbreytinga á þróun efnahagsmála um allan heim. Þessar sviðsmyndir eru almennt viðurkenndar sem besti kosturinn í sviðsmyndagreiningu vegna loftslagsbreytinga.

 

Niðurlag

Við stýringu á loftslagsáhættu er lítið hægt að byggja á sögulegri reynslu. Orsakasamhengi á bak við fjárhagslegt tap vegna loftslagsáhættu er flókið og almennur skilningur á því er takmarkaður. Loftslagsáhætta er að miklu leyti háð mannlegum þáttum, þ.e.a.s. hvernig við munum bregðast við loftslagsbreytingum og ríkir mikil óvissa um hver þau viðbrögð verða. Algeng skoðun meðal sérfræðinga er að framan af verði of lítið gert til að bregðast við sem auki líkur á alvarlegum afleiðingum. Mikil loftslagsáhætta felist í nauðsynlegum og örum breytingum samfélagsins í átt að sjálfbærni sem vænta megi í kjölfarið.

Höfundur: Guðmundur Örn Jónsson, sérfræðingur í áhættugreiningu hjá Seðlabanka Íslands / Sjálfbærnideild Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar

Til baka