logo-for-printing

29. nóvember 2022

Áhætta fylgir viðskiptum með sýndareignir

Ásókn almennings í viðskipti með sýndareignir á borð við Bitcoin hefur verið talsverð. Nýleg könnun Seðlabanka Íslands leiddi í ljós að 8,7% svarenda höfðu fjárfest í sýndareignum og 13,4% svarenda töldu líklegt að þeir muni kaupa Bitcoin eða aðra tegund sýndareigna í framtíðinni. [1]

Með vaxandi áhuga á sýndareignum er mikilvægt að almenningur sé vel upplýstur um áhættu sem felst í viðskiptum með þær og taki upplýstar ákvarðanir um slík viðskipti.

Evrópsku eftirlitsstofnanirnar á fjármálamarkaði og fjármálaeftirlit á Evrópska efnahagssvæðinu (EES) hafa ítrekað séð ástæðu til að vara við áhættu sem fylgir viðskiptum með sýndareignir. Þá er regluverk sem ætlað er að vernda neytendur í slíkum viðskiptum í smíðum.

 

Hvað eru sýndareignir?

Sýndareignir eru skilgreindar sem verðmæti á stafrænu formi sem hægt er að nota sem greiðslu eða fjárfestingu og hægt er að miðla. Sýndareignir eru ekki gefnar út af seðlabönkum, líkt og á við um seðla og mynt, og engin opinber ábyrgð er tekin á verðgildi þeirra.

Hugmyndin um sýndareignir kom fyrst fram árið 2008 í grein um Bitcoin, rafrænan greiðslumáta sem byggðist á dulkóðun og gerði aðilum kleift að skiptast beint á greiðslum. Bent var á að þannig þyrfti ekki að reiða sig á aðkomu milliliðs, s.s. fjármálafyrirtækis, til þess að miðla greiðslum á milli aðila. [2] Sýndareignir hafa hins vegar ekki náð mikilli útbreiðslu sem greiðslumáti. Ástæðan er sú að fá fyrirtæki viðurkenna sýndareignir sem greiðslu fyrir vöru eða þjónustu, enda hefur flökt á verðgildi þeirra verið umtalsvert. Sýndareignir hafa því frekar verið í boði sem fjárfestingarmöguleiki.

Ævintýraleg verðþróun Bitcoin og fleiri tegunda sýndareigna laðaði á tímabili að fjárfesta sem vonuðust eftir hárri ávöxtun. Sýndareignir hafa þróast mikið frá árinu 2008 og er nú til fjöldi mismunandi tegunda sýndareigna, s.s. Bitcoin, Etherium, Dogecoin, og Tether. Sýndareignir eru yfirleitt ekki tryggðar með undirliggjandi eignum og í þeim tilfellum þar sem því er haldið fram að sýndareignir séu tryggðar er hvorki eftirlit með því að svo sé né tryggingar fyrir því. Nýlegt dæmi er Terra myntin sem varð verðlaus á skömmum tíma.

 

Aðilar sem veita þjónustu með sýndareignir

Þjónustuveitendur sýndareigna eru þeir sem bjóða upp á þjónustu tengda viðskiptum með sýndareignir, s.s. skiptimarkaðir.

Þeir sem bjóða upp á slíka þjónustu hér á landi þurfa að sækja um og fá skráningu hjá Seðlabanka Íslands til þess að geta hafið starfsemi. Skráðum aðilum er skylt að fylgja löggjöf um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og takmarkast eftirlit Seðlabankans við það. Ekki eru gerðar sérstakar fjárhagskröfur til þessara aðila eða kröfur sem tryggja neytendavernd.

Þar sem viðskipti með sýndareignir fara fram á netinu er auðvelt fyrir neytendur að hagnýta sér þjónustu erlendra aðila. Neytendur verða þó sjálfir að meta áreiðanleika og öryggi slíkrar þjónustu þar sem þjónustuveitendur eru ekki alltaf skráningar- eða leyfisskyldir í öllum ríkjum. Eftirlit með þeim er því takmarkað eða jafnvel ekkert.

 

Takmarkað eftirlit og hætta á peningaþvætti

Seðlabanki Íslands fer, eins og fram hefur komið, hvorki með fjárhagslegt eftirlit með þjónustuveitendum sýndareigna né neytendaeftirlit með viðskiptum með sýndareignir. Seðlabankinn fer heldur ekki með eftirlit með námugreftri eftir sýndareignum. Til viðbótar áhættu sem fylgir viðskiptum með sýndareignir kemur sú hætta að slík viðskipti séu nýtt til þess að þvætta peninga og fjármagna hryðjuverk. Alþjóðlegi fjármálaaðgerðahópurinn Financial Action Task Force (FATF) hefur bent á ýmsa þætti í tengslum við sýndareignir sem leiða til aukinnar hættu á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Viðskipti með sýndareignir fara fram utan hins hefðbundna fjármálakerfis. Þau hafa frá upphafi verið aðlaðandi kostur til að þvætta peninga og fjármagna hryðjuverk þar sem erfitt er að rekja eignarhald á bálkakeðjum þar sem stafræn veski og viðskipti eru ekki tengd við nafn. Auk þess býður tæknin upp á hraða tilfærslu sýndareigna um allan heim. [3] FATF hefur af þessum sökum mælst til þess að sömu reglur um upplýsingaskipti milli þjónustuveitenda gildi um viðskipti með sýndareignir og gilda almennt um millifærslur. [4]

FATF hefur einnig bent á jákvæðar hliðar þeirrar tækni sem fram hefur komið undanfarinn áratug í tengslum við sýndareignir. Hún geti til dæmis stutt við nýsköpun, aukið skilvirkni og aukið aðgengi að fjármálaþjónustu. [5] Neikvæðar hliðar eru hins vegar margar. Á undanförnum árum hafa komið fram tegundir sýndareigna þar sem lögð er sérstök áhersla á nafnleynd. Auk þess hefur verið þróuð tækni sem býður upp á að fela slóð viðskipta á dreifðum skiptimörkuðum. [6] Sem dæmi má nefna að í ágúst 2021 játaði Bandaríkjamaður aðild sína að rekstri Helix, tækniþjónustu sem aðstoðaði viðskiptavini við að fela raunverulega eigendur Bitcoin gegn gjaldi. Með athæfi sínu aðstoðaði forsvarsmaður síðunnar viðskiptavini sína við að þvætta Bitcoin að virði 300 milljóna Bandaríkjadala, sem tengdust að stórum hluta viðskiptum á svokölluðu „dark net". [7] Einnig hefur borið á því að glæpamenn nýti spilliforrit til þess að komast yfir sýndareignir fólks. [8]

 

Áhætta af viðskiptum með sýndareignir

Evrópsku eftirlitsstofnanirnar á fjármálamarkaði hafa lýst yfir áhyggjum af mikilli aukningu viðskipta með sýndareignir og því að neytendur átti sig ekki fyllilega á áhættunni sem felst í slíkum viðskiptum, þar sem sýndareignir falla ekki undir eftirlit fjármálaeftirlits og um þau gilda ekki neytenda- og fjárfestaverndarreglur. Viðskipti með sýndareignir geta verið mjög áhættusöm enda fylgja þau lögmálum spákaupmennsku. Sýndareignir njóta almennt ekki verndar hjá stjórnvöldum líkt og lögeyrir eða aðrir gjaldmiðlar. Þá eru sýndareignir að jafnaði heldur ekki tryggðar með neinum undirliggjandi eignum. Seðlabanki Íslands hefur þrisvar sinnum vakið athygli á aðvörunum evrópsku eftirlitsstofnananna á fjármálamarkaði um áhættu tengda viðskiptum með sýndareignir. [9]

 

Miklar verðsveiflur

Verð flestra sýndareigna sveiflast mjög og stýrist það af væntingum um framtíðareftirspurn, ásamt því að aðilar á markaðnum framkalla miklar verðsveiflur í því skyni að hagnast á þeim. Fjárfestar þurfa því að gera sér grein fyrir að um áhættusama vöru er að ræða og að þeir kunni að tapa stórum hluta eða jafnvel allri fjárfestingu sinni. Óstöðugleiki sýndareigna, óvissa um framtíð þeirra og skortur á áreiðanleika þjónustuveitenda leiða til þess að sýndareignir henta fæstum neytendum sem fjárfesting og síst þeim sem vilja fjárfesta til langs tíma, t.d. til að spara fyrir efri árin. [10]

Sem dæmi um miklar sveiflur á gengi Bitcoin á árinu 2021 má nefna þegar frumkvöðullinn Elon Musk tjáði sig um sýndareignina á Twitter og fyrirtæki hans, Tesla, tilkynnti að það myndi taka við greiðslum í Bitcoin. Síðar kom í ljós að af því yrði ekki. [11] Í júní 2022 urðu einnig miklar sviptingar á mörkuðum með sýndareignir sem margar hverjar lækkuðu talsvert í verði, þ.m.t. Bitcoin sem lækkaði um meira en 30%.

 

Skortur á neytendavernd

Engar samræmdar reglur um neytendavernd gilda um sýndareignir og þjónustuveitendur þeirra innan EES. Neytendur sem hyggjast fjárfesta í sýndareignum verða því að gera sér grein fyrir því að kröfur sem gerðar eru til eftirlitsskyldrar fjármálaþjónustu gilda ekki um viðskipti með sýndareignir. Þetta þýðir t.d. að ef þjónustuveitandi sýndareigna verður fyrir tjóni, s.s. vegna tölvuárása eða hann lendir í rekstrarörðugleikum eru ekki sérstök lagaákvæði sem bæta það tjón eða tryggja aðgang neytenda að sýndareignum sínum. [12]

 

Til samanburðar má nefna að samkvæmt lögum sem gilda um viðskipti með fjármálagerninga [13] verða verðbréfafyrirtæki að halda fjármunum og fjármálagerningum viðskiptavina tryggilega aðgreindum frá eignum fyrirtækisins. Sambærilegar reglur gilda ekki um viðskipti með sýndareignir. Verðbréfafyrirtæki þurfa að lúta ströngum reglum um mat á hæfi og tilhlýðileika við veitingu á tiltekinni þjónustu. Þannig ber þeim að afla nægilegra upplýsinga um þekkingu, reynslu, fjárfestingarmarkmið og fjárhagsstöðu viðskiptavina áður en t.d. fjárfestingarráðgjöf er veitt um vörur eða þjónustu. Engar slíkar reglur gilda um þjónustuveitendur sýndareigna.

Í september 2020 lagði framkvæmdastjórn Evrópusambandsins fram drög að reglugerð um markaði með sýndareignir (Markets in Crypto-assets, oft skammstafað sem MiCA). Umsagnarferli um drögin er lokið en þau hafa ekki verið samþykkt og njóta neytendur því ekki enn þeirrar verndar sem reglugerðin á að fela í sér. [14] Markmið reglugerðarinnar er að samræma kröfur innan EES til starfsemi og þjónustu með sýndareignir, styðja við nýsköpun, bæta fjárfesta- og neytendavernd auk þess að tryggja fjármálastöðugleika. [15] Jafnframt hefur Evrópusambandið lagt fram tillögu að reglugerð um upplýsingar sem fylgja skulu millifærslu fjármuna og tiltekinna sýndareigna. [16]

 

Verðmyndun og seljanleikaáhætta

Gagnsæi verðmyndunar hefur verið ábótavant á mörkuðum með sýndareignir og því er hætta á því að neytendur fái ekki sanngjarnt eða rétt verð við kaup eða sölu sýndareigna. [17] Verðmyndun sýndareigna ræðst aðallega af væntingum þeirra sem eiga viðskipti með þær ásamt framboði og eftirspurn, en ekki undirliggjandi eignum. Evrópsk fjármálaeftirlit hafa fengið fjölmargar tilkynningar um mögulega markaðsmisnotkun í tengslum við sýndareignir, sér í lagi það sem kallast umfangsmikil kaup og snögg sala (e. pump-and-dump). Þá tekur hópur einstaklinga sig saman um að kaupa töluvert magn af sýndareignum til að hefja verðhækkun og í kjölfarið eru bornar út órökstuddar fréttir sem geta leitt til hækkunar á sýndareigninni, t.d. að einhver stórfyrirtæki muni byrja að nota myntina. Þegar verðið hefur hækkað selur hópurinn sem dreifði fréttunum og verðið á sýndareigninni hrynur. Slík hegðun er refsiverð þegar um er að ræða viðskipti með fjármálagerninga en engar sambærilegar reglur gilda um slíkt á markaði með sýndareignir. [18]

Þeir sem fjárfesta í sýndareignum standa einnig frammi fyrir þeirri hættu að geta ekki tafarlaust selt eða skipt sýndareignunum fyrir hefðbundna gjaldmiðla á þeim tíma sem þeim hentar þar sem mögulegir kaupendur eru ekki til staðar. Þeir kunna því að verða fyrir tapi vegna þessa. [19]

 

Rekstraráhætta

Hætta er á að markaðir með sýndareignir lendi í rekstrarvanda. Það hefur til dæmis leitt til stöðvunar viðskipta með tilheyrandi tjóni fyrir neytendur sem geta þá ekki selt og tapa þannig á verðsveiflum eða geta ekki innleyst sýndareignir sínar yfir höfuð. [20] Sem dæmi má nefna tap viðskiptavina QuadrigaCX, sem rak markað fyrir sýndareignir. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins lést óvænt síðla árs 2018 og viðskiptavinir félagsins gátu ekki endurheimt sýndareignir sínar í kjölfarið. Hann hafði einn haft aðgang að stafrænum veskjum félagsins og án lykilorðanna var ómögulegt að nálgast innstæður viðskiptavinanna. Síðar kom í ljós að framkvæmdastjórinn hafði misnotað stöðu sína og svikið viðskiptavini, m.a. með því að nota innstæður þeirra til þess að greiða fyrir tap vegna eigin viðskipta á öðrum skiptimörkuðum og til þess að fjármagna lífstíl sinn. Eignir félagsins og innstæður viðskiptavina voru ekki aðskildar í rekstri félagsins. Tap viðskiptavina nam að minnsta kosti 169 milljónum Bandaríkjadala. [21]

 

Misvísandi upplýsingar og möguleg svik

Gögn og upplýsingar um viðskipti með sýndareignir sem beint er til neytenda geta verið ófullnægjandi og óskiljanlegar, enda gilda engar reglur eða lög um starfsemina. [22] Til samanburðar má nefna að samkvæmt lögum um markaði fyrir fjármálagerninga þurfa þeir sem veita fjárfestingaþjónustu eða stunda fjárfestingarstarfsemi hér á landi að uppfylla kröfur um viðskiptahætti og gagnsæi. Samkvæmt lögunum ber verðbréfafyrirtækjum að tryggja að öll upplýsingagjöf til viðskiptavina sé sanngjörn, skýr og ekki villandi og markaðsefni skal vera auðgreinanlegt sem slíkt. Verðbréfafyrirtæki ber að veita viðskiptavinum viðeigandi upplýsingar með góðum fyrirvara, þ.m.t. um allan kostnað og tengd gjöld. Upplýsingar um fjármálagerninga verða að innihalda viðeigandi leiðbeiningar og viðvaranir um áhættu sem felst í fjárfestingum í viðkomandi fjármálagerningum. Þar að auki getur Seðlabanki Íslands gripið til aðgerða vegna markaðssetningar fjármálagerninga að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Fjöldi óprúttinna aðila notfærir sér samfélagsmiðla og netið til að svindla á fólki. Erfitt getur reynst að gera greinarmun á svikurum og þjónustuaðilum sem starfa af heilindum í viðskiptum með sýndareignir. Oft á tíðum virðast þessir aðilar trúverðugir, með faglegar vefsíður og hafa þá ásýnd að þeir stundi heiðvirð viðskipti. Það er því góð regla að kanna hvort viðkomandi aðili sé skráður hjá fjármálaeftirliti viðkomandi ríkis áður en til viðskipta er stofnað. Á árinu 2021 voru 32 stór svikamál tengd sýndareignum tilkynnt til yfirvalda í Evrópu, þar sem áætluð svik námu nærri 2,7 milljörðum evra. [23]

Höfundar: Guðrún Inga Guðmundsdóttir, lögfræðingur á sviði lagalegs eftirlits og vettvangsathugana og Arnfríður Arnardóttir, sérfræðingur á sviði markaða og viðskiptahátta.

Heimildir:

1. Fjármálastöðugleiki 2022/2, bls. 48-50.

2. Bitcoin: A Peer-to-Peer Electronic Cash System.

3. FATF Updated Guidance for a Risk-Based Approach for Virtual Assets and Virtual Asset Service Providers, liður 34-36, 179, 184

4. FATF Recommendation 15, Interpretive Note to Recommendation 15, FATF Updated Guidance: A Risk-Based Approach for Virtual Assets and Virtual Asset Service Providers, liður 4, 19, 42.

5. FATF Second 12-Month Review of the Revised FATF Standards on Virtual Assets and Virtual Asset Service Providers.

6. FATF Updated Guidance for a Risk-Based Approach for Virtual Assets and Virtual Asset Service Providers, liður 4, 20.

7. Ohio Resident Pleads Guilty to Operating Darknet-Based Bitcoin “Mixer”That Laundered Over $300 million.

8. FATF Second 12-Month Review of the Revised FATF Standards on Virtual Assets and Virtual Asset Service Providers,

9. https://www.fme.is/media/frettir/EBA-BS-2018-019rev1--Final-Joint-ESAs-Warning-on-Virtual-Currencies-.pdf
https://www.fme.is/utgefid-efni/frettir-og-tilkynningar/frettir/nr/2041
https://www.fme.is/utgefid-efni/frettir-og-tilkynningar/frettir/advorun-til-almennings-um-syndarfe-e-virtual-currencies 
ESAs warn consumers of risks in buying virtual currencies (europa.eu)
ESMA sees high risk for investors in non-regulated crypto assets (europa.eu)
Evrópskar eftirlitsstofnanir á fjármálamarkaði vara neytendur við áhættu af sýndareignum (e. crypto-assets) (sedlabanki.is)

10. ESMA, EBA and EIOPA warn consumers on the risk of Virtual Currencies.

11. https://www.vb.is/frettir/bitcoin-haekkar-17-eftir-studning-musk/166570/?q=musk 
https://www.vb.is/frettir/tesla-kaupir-og-hyggst-taka-vid-bitcoin/166733/
https://www.vb.is/frettir/bitcoin-laekkar-eftir-annad-tist-fra-musk/166983/

12. Evrópskar eftirlitsstofnanir á fjármálamarkaði vara neytendur við áhættu af sýndareignum (e. crypto-assets) (sedlabanki.is).

13. Lög nr. 115/2021 um markaði með fjármálagerninga

14. https://ec.europa.eu/info/publications/200924-digital-finance-proposals_en

15. Proposal for a Regulation of the European Parliament and of the Council on Markets in Crypto-Assets (MiCA).

16. Proposal for a Regulation of the European Parliament and of the Council on Information Accompanying Transfer of Funds and Certain Crypto-Assets.

17. ESMA, EBA and EIOPA warn consumers on the risk of Virtual Currencies.

18. EU financial regulators warn consumers on the risks of crypto-assets

19. ESMA, EBA and EIOPA warn consumers on the risk of Virtual Currencies.

20. ESMA, EBA and EIOPA warn consumers on the risk of Virtual Currencies.

21. QuadrigaCX: A Review by Staff of the Ontario Securities Commission.

22. EU financial regulators warn consumers on the risks of crypto-assets

23. ESMA Report on Trends, Risks and Vulnerabilities, esma50-165-2058_trv_1-22_risk_monitor.pdf (europa.eu) bls. 30

Til baka