logo-for-printing

01. desember 2022

Hver yrðu möguleg áhrif þess ef orkukreppan í Evrópu dýpkar enn meira en nýjasta grunnspá Seðlabankans gerir ráð fyrir?

Í þessari grein er fjallað stuttlega um fráviksspá sem birtist í nýjasta hefti Peningamála sem kom út 23. nóvember sl. þar sem lýst er mögulegum áhrifum þess að orkukreppan í Evrópu dýpkar enn meira en nú er gert ráð fyrir (sjá rammagrein 1 í Peningamálum 2022/4).

Innflutningur á jarðgasi frá Rússlandi til Evrópu er nú einungis um fimmtungur af því sem hann var fyrir innrás Rússa í Úkraínu og áætlað er að hann haldi áfram að minnka er líður á spátímann. Þrátt fyrir það er ekki gert ráð fyrir að grípa þurfi til víðtækrar skömmtunar á orku í Evrópu í vetur þar sem innflutningur á jarðgasi frá öðrum löndum hefur aukist og birgðastaða er hagstæð. Einnig hefur notkun á öðrum orkugjöfum aukist og búist er við að íbúar Evrópu leiti leiða til að draga úr notkun.

Áhyggjur af komandi mánuðum og mögulegum orkuskorti hafa þó aukist. Ekki er útilokað að innflutningur á jarðgasi frá Rússlandi stöðvist algerlega fyrir lok þessa árs og að erfiðara reynist að mæta því með öðrum orkuuppsprettum. Þá gæti kaldur vetur valdið því að orkunotkun verði meiri en í venjulegu árferði. Samkvæmt sviðsmyndagreiningu frá Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD) gæti gengið mjög hratt á núverandi birgðastöðu gangi það eftir og hún fari niður fyrir þau mörk sem gætu kallað á víðtæka skömmtun jarðgass strax í byrjun næsta árs. Slíkt gæti leitt til alvarlegra framboðshnökra, sérstaklega í löndum sem hafa fáar aðrar orkuauðlindir eins og í Þýskalandi og ýmsum mið-Evrópuríkjum. Mögulega þyrfti að stöðva framleiðslu tímabundið í orkufrekum framleiðslugreinum eins og t.d. þunga- og lyfjaiðnaði. Verð á jarðgasi og rafmagni myndi einnig hækka meira og orkukreppan dýpka enn frekar. Efnahagshorfur yrðu óvissari og þrýstingur á framleiðsluþætti og verðlag meiri en ella. Meiri verðbólga myndi að sama skapi kalla á frekari hækkun vaxta sem myndi dýpka efnahagskreppuna enn meira.

Mynd 1 sýnir mat OECD á áhrifum þessara áfalla á alþjóðlegar efnahagshorfur. Víðtæk skömmtun á jarðgasi myndi að öðru óbreyttu leiða til enn frekari hækkunar á hrávöru- og orkuverði, draga úr framleiðslugetu í Evrópu og auka óvissu um efnahagshorfur um allan heim. Hagvöxtur í heiminum gæfi því eftir og verðbólga yrði meiri en ella.

 
Til að leggja mat á áhrif þessa efnahagsáfalls á innlendar efnahagshorfur er notast við QMM-líkan Seðlabankans. Áætlað er að hagvöxtur í helstu viðskiptalöndum Íslands verði að meðaltali um 1 prósentu minni en í grunnspánni á næsta ári og ½ prósentu minni árið 2024. Talið er að innflutningur frá þessum löndum minnki með svipuðum hætti. Að sama skapi er gert ráð fyrir að verðbólga í helstu viðskiptalöndum verði 1¼ prósentu meiri á næsta ári og ½ prósentu meiri árið 2024. Þá er gert ráð fyrir auknum truflunum á alþjóðlegum framleiðslukeðjum og að hrávöruverð í heild verði 11½% hærra á næsta ári en í grunnspánni. Áhrifin fjara síðan smám saman út og hrávöruverð verður orðið það sama og í grunnspánni í lok spátímans. Útflutningsverð helstu viðskiptalanda hækkar því 1½ prósentu meira en í grunnspánni á næsta ári og tæplega 1 prósentu meira árið 2024.

Þessu til viðbótar er talið að álverð hækki svipað og annað hrávöruverð en að verð á sjávarafurðum lækki í samræmi við lakari efnahagshorfur í helstu viðskiptalöndum. Meiri samdráttur á kaupmætti evrópskra heimila og aukinn varúðarsparnaður þeirra gerir það auk þess að verkum að færri ferðamenn koma hingað til lands og eftirspurn eftir ál- og sjávarafurðum gefur eftir. Þá hækkar áhættuálag á innlendar fjáreignir eins og erlendis.

Eins og sést á mynd 2a hefði þetta í för með sér að innflutningsverð myndi hækka um 3 prósentum meira í ár en samkvæmt grunnspánni og 1½ prósentu meira árið 2024. Þar fer saman meiri hækkun útflutningsverðs helstu viðskiptalanda og lægra gengi krónunnar sem er orðið ríflega 3% lægra en í grunnspá í lok spátímans.

Hægari efnahagsumsvif í helstu viðskiptalöndum og efnahagssamdráttur í Evrópu gera það að verkum að útflutningur frá Íslandi vex um 3½ prósentu minna á næsta ári en í grunnspánni en árin tvö á eftir snýst það að hluta við (mynd 2b).

Aukin óvissa um efnahagshorfur og kaupmáttarrýrnun vegna hækkunar á verði innfluttrar vöru og þjónustu gera það að verkum að innlend heimili hægja á einkaneysluútgjöldum. Við bætast áhrif hærra vaxtastigs innanlands (sjá hér á eftir). Einkaneysla vex því um ½ prósentu minna á ári á næsta ári og er hún orðin um 1% minni en í grunnspá í lok spátímans (mynd 2c). Við bætast áhrif hægari vaxtar fjármunamyndunar og hagvöxtur verður því um 1 prósentu minni á næsta ári (mynd 2d). Það snýst að hluta við árið 2024 þar sem lægra gengi krónunnar gerir það að verkum að útflutningur nær sér á strik og hluti innlendrar eftirspurnar leitar aftur inn í þjóðarbúið. Í lok spátímans er landsframleiðslan því komin á svipað stig og í grunnspánni þótt innlend eftirspurn sé áfram veikari.

 

Þrátt fyrir hægari efnahagsumsvif versna innlendar verðbólguhorfur í samanburði við grunnspána. Verðbólga á næsta ári yrði ½ prósentu meiri en í grunnspánni og um ⅓ úr prósentu meiri árið 2024 (mynd 2e). Samkvæmt peningastefnureglu líkansins þyrftu meginvextir Seðlabankans því að vera lítillega hærri á næsta ári en þegar líður á spátímann gerir meiri slaki í þjóðarbúinu það að verkum að verðbólga er orðin minni og vextir lægri en í grunnspánni (mynd 2f).

Höfundur: Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands


Til baka