logo-for-printing

19. desember 2022

Af hverju hafa sveiflur í verðbólgu aukist á ný?

Eins og rakið er í rammagrein 2 í Peningamálum 2022/4 hefur verðbólga aukist hratt undanfarið ár, verðbólguvæntingar hækkað og kjölfesta þeirra í verðbólgumarkmiði Seðlabankans veikst. Sveiflur í verðbólgu hafa einnig aukist sem má aðallega rekja til aukinnar fylgni milli verðhækkana einstaka undirliða vísitölu neysluverðs.

Verðbólga hefur aukist hratt undanfarið og mældist 9,3% í nóvember sl. en í tæplega áratug og fram undir mitt ár 2020 var hún við 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans (mynd 1).

 

 

Eins og sést á mynd 1 hafa sveiflur í verðbólgu einnig farið vaxandi á ný en verulega dró úr þeim í takt við hjöðnun verðbólgunnar eftir fjármálakreppuna fyrir ríflega áratug síðan. Svipaða þróun má sjá erlendis þar sem verðbólga mælist sú mesta í marga áratugi. Sveiflur í henni hafa einnig aukist og eins og fjallað er um í nýjustu ársskýrslu Alþjóðagreiðslubankans virðist fyrst og fremst mega rekja það til aukinnar fylgni milli verðhækkana á einstaka vörum fremur en að breytileiki undirliða verðvísitölunnar sem notuð er við að mæla verðbólgu hafi aukist.1

Til að skilja þetta betur er til einföldunar hægt að hugsa sér að vísitala neysluverðs samanstandi af tveimur vörum og sé því gefin sem veldisvegið meðaltal þeirra:

(1) Pt = P1tw1P2tw2

þar sem Pt er vísitala neysluverðs á tíma t, P1t er verðvísitala vöru 1 og P2t er verðvísitala vöru 2. Vörurnar hafa útgjaldavogirnar w1 og w2 þar sem w1 + w2 = 1. Út frá jöfnu (1) er einfalt að sjá að verðbólga er gefin sem (til að einfalda framsetninguna er gert ráð fyrir að vogirnar breytist ekki yfir tíma):

(2) πt = w1π1t + w2π2t

þar sem almenn verðbólga er gefin sem π= 100(logPt - logPt-12) og verðbreytingar varanna tveggja sem πjt = 100(logPjt - logPjt-12) (fyrir j = 1,2).
Breytileiki verðbólgunnar (e. variance) fæst þá sem:

(3) σπ= w12σ1+ w22σ2+ 2w1w2σ12

þar sem σπ2 táknar heildarbreytileika verðbólgunnar, σj2 breytileika verðbreytinga á vöru j (fyrir j = 1,2) og σ12 samdreifni (e. covariance) milli breytileika verðbreytinga vöru 1 og 2.

Breytileiki verðbólgunnar getur því aukist af tveimur ástæðum. Fyrri möguleikinn er aukinn breytileiki verðbreytinga undirliða vísitölunnar, hvort sem það væri vegna aukins breytileika þeirra allra eða ef sveiflur aukast í ákveðnum hluta þeirra sem vegur nógu mikið til að auka breytileika vísitölunnar í heild. Seinni möguleikinn er hins vegar aukin samdreifni verðbreytinga undirliða vísitölunnar, þ.e. að verð þeirra fari í vaxandi mæli að hreyfast í takt, t.d. vegna þess að verðbreytingar í einni atvinnugrein taka að smitast yfir til annarra atvinnugreina.

Hvor ástæðan vegur þyngra í að skýra nýlega aukningu í breytileika verðbólgunnar hér á landi? Til að kanna það var notast við gögn um þróun 159 undirliða verðvísitölunnar frá því í apríl 2001.2  Mynd 2 sýnir niðurstöðuna. Eins og myndin sýnir var breytileiki verðbólgunnar mikill í kringum og kjölfar fjármálakreppunnar og má að stærstum hluta rekja hann til mikillar fylgni milli verðbreytinga í einstaka undirliðum vísitölunnar, þótt breytileiki í undirliðunum sjálfum hafi vissulega verið nokkur. Minnkandi sveiflur í verðbólgu um miðjan síðasta áratug má síðan að mestu rekja til minnkandi fylgni milli verðbreytinga í einstaka undirliðum vísitölunnar fremur en að sveiflur í undirliðunum sjálfum hafi minnkað.

 

Myndin sýnir einnig að þegar verðbólga var lítil og stöðug á seinni hluta áratugarins og fram á síðasta ár var fylgnin milli verðbreytinga á einstaka undirliðum vísitölunnar mjög lítil og jafnvel neikvæð. Þegar verðbólga byrjaði að aukast á ný í fyrra, og sérstaklega þegar kom fram á þetta ár, fóru sveiflur í verðbólgu hins vegar að aukast á ný og þá aðallega vegna aukinnar fylgni milli verðbreytinga í einstaka liðum vísitölunnar frekar en vegna aukinna sveiflna í undirliðunum sjálfum.

 

Þetta sést ágætlega á mynd 3 sem sýnir fylgni milli ársbreytinga tólf yfirflokka undirvísitalna vísitölu neysluverðs á þremur ólíkum tímabilum.3  Á fyrsta tímabilinu (2008-2012) er verðbólga mikil og sveiflukennd og fylgni verðbreytinga mikil: miðgildi hennar er 0,49 og í átta tilvikum er hún yfir 0,9 (t.d. milli verðhækkana á innlendri mat- og drykkjarvöru og á almennri þjónustu).

Fylgni verðbreytinga er hins vegar mun minni á árunum 2014-2019 þegar verðbólga er tiltölulega lítil og stöðug: miðgildi hennar er einungis 0,13 og í engu tilviki mælist hún meiri en 0,9. Á undanförnum tveimur árum hefur fylgni verðbreytinga hins vegar aukist á ný og er miðgildi hennar 0,38 og í fimm tilvikum mælist hún yfir 0,9. Má þar t.d. nefna háa fylgni milli verðhækkana á húsnæði og þjónustu.

 

Myndir 2 og 3 sýna því hvernig verðhækkanir smitast í auknum mæli milli einstakra geira og hvernig fylgni milli verðhækkana einstakra undirliða vísitölunnar eykst þegar verðbólga eykst og verður sveiflukenndari. Þegar verðbólga grefur um sig verður hún því í æ meira mæli keyrð áfram af sameiginlegri undirliggjandi þróun fremur en hækkunum á hlutfallslegu verði. Þegar verðbólga minnkar á ný og verður stöðugri er það hins vegar fyrst og fremst vegna þess að þessir sameiginlegu drifkraftar gefa eftir fremur en að það dragi úr sveiflum í hlutfallslegu verði.

 

Höfundur: Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands

Neðanmálsgreinar:

[1] Sjá Alþjóðagreiðslubankinn (2022), „Inflation: A look under the hood“, Bank of International Settlements, BIS Annual Economic Report, júní 2022.

[2] Mælingar á 5-ára breytileika ársverðbólgu ná því frá mars 2007. Erfitt er að fara lengra aftur þar sem miklar breytingar urðu á undirflokkum vísitölunnar fyrir þann tíma þar sem margir undirliðir duttu út og aðrir komu í staðinn.

[3] Gögn yfir þessa yfirflokka ná lengra aftur en gögnin yfir alla undirvísitölurnar eða aftur til mars 1997.

Til baka