logo-for-printing

28. mars 2023

Stefna í peningamálum birt í fyrsta sinn - formfesting og aukið gagnsæi peningastefnunnar

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands samþykkti á fundi nefndarinnar í nóvember 2022 Stefnu í peningamálum. Stefnan var nýverið birt á vef Seðlabankans. Stefna af þessu tagi er á ensku jafnan kölluð Monetary Policy Strategy. Í seðlabönkum sem fylgja verðbólgumarkmiði er algengt að peningastefnunefndir eða stjórnir móti sameiginlega og birti langtímastefnu eða strategíu í peningamálum sem er útfærsla á almennu umboði sem kveðið er á um í lögum og yfirlýsingum sem unnið er eftir. Stefna í peningamálum er með sama hætti lýsing peningastefnunefndar Seðlabankans á því hvernig hún túlkar það umboð sem skilgreint er í Seðlabankalögunum og í yfirlýsingu Seðlabankans og ráðherra.

Stefnunni er ætlað skýra hvernig nefndin bregst við ólíkum efnahagslegum aðstæðum en nánar en gert er í lögum, reglum eða yfirlýsingunni. Skýr og gagnsæ stefna í peningamálum auðveldar nefndinni að miðla upplýsingum um stefnu sína til almennings og markaðsaðila og stuðlar þannig að betri kjölfestu verðbólguvæntinga við verðbólgumarkmiðið.

Tekið skal fram að samþykkt og birting Stefnunnar felur ekki í sér stefnubreytingu af hálfu nefndarinnar. Með birtingunni er verið að formfesta og auka gagnsæi um stefnu peningastefnunefndar Seðlabankans í peningamálum. Fjármálaeftirlitsnefnd hefur þegar birt samsvarandi Stefnu í fjármálaeftirliti og Fjármálastöðugleikaráð hefur samþykkt Opinbera stefnu um fjármálastöðugleika.

Verðbólgumarkmið-plús

Peningastefnan á Íslandi hvílir á þremur meginstoðum sem veita leiðsögn um markmið peningastefnunnar og til hvaða þátta skuli horft við ákvarðanir í peningamálum. Fyrsta stoðin er löggjöf sem gildir um Seðlabanka Íslands og peningastefnunefnd, einkum lög nr. 92/2019, um Seðlabanka Íslands. Önnur stoðin er Yfirlýsing um verðbólgumarkmið og breytta gengisstefnu sem Seðlabankinn og forsætisráðherra undirrituðu árið 2001. Hin þriðja er nýbirt Stefna í peningamálum sem peningastefnunefnd sjálf setur, og er útfærsla á ákvæðum fyrrgreindra laga og yfirlýsingunni frá 2001.

Yfirlýsingin frá 2001 markaði þáttaskil við stjórn peningamála hér á landi. Með henni var Seðlabankanum sett verðbólgumarkmið í fyrsta sinn. Skömmu síðar var lögum um Seðlabanka Íslands breytt, stöðugt verðlag gert að meginmarkmiði Seðlabankans og sjálfstæði bankans til að taka ákvarðanir í peningamálum aukið. Þannig var lagalegur grundvöllur verðbólgumarkmiðsins styrktur. Þótt yfirlýsingin frá 2001 sé enn í fullu gildi hafa engu að síður verið gerðar ýmsar breytingar á lagalegri umgjörð peningastefnunnar frá 2001, m.a. með stofnun peningastefnunefndar árið 2009.

Töluverðar áherslubreytingar urðu á framkvæmd peningastefnunnar í kjölfar fjármálakreppunnar. Þær hafa stundum verið nefndar „verðbólgumarkmið-plús“ (sbr. Sérrit nr. 4: Peningastefnan eftir höft). Samkvæmt stefnunni skal stuðla að verðbólgumarkmiði bankans með því að samþætta notkun hefðbundinna stýritækja, þ.e.a.s. meginvaxta Seðlabankans, við virkari inngrip á gjaldeyrismarkaði og beitingu þjóðhagsvarúðartækja, þ.m.t. fjárstreymistækja ef aðstæður krefjast þess. Stefna í peningamálum (gr. 8) skýrir og formfestir með gagnsærri hætti en áður mikilvægan hornstein þessarar stefnu, þ.e.a.s. afstöðu peningastefnunefndar til inngripa á gjaldeyrismarkaði í því skyni að styðja við markmið peningastefnunnar og efnahagslegan stöðugleika.

Höfundur: Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu

Til baka