logo-for-printing

03. apríl 2023

Af hverju eru vextir hærri hér á landi en í flestum öðrum þróuðum ríkjum?

Peningastefnunefnd Seðlabankans hækkaði vexti enn frekar um miðjan mars sl. Meginvextir bankans fóru við það í 7,5% en voru tæplega 3% fyrir einu ári síðan.

Í stuttu máli sagt er verið að hækka vexti til að kæla hagkerfið og ná niður verðbólgu sem er allt of mikil um þessar mundir. Neyslukarfa Íslendinga hefur hækkað í verði um 9,8% undanfarið ár. Fólk fær því minna fyrir launin sín sem því nemur. [1]

Þótt rekja megi aukna verðbólgu að hluta til alþjóðlegrar þróunar er stór hluti hennar af innlendum toga. Eftirspurn okkar eftir vöru og þjónustu hefur aukist gríðarlega og íslenska hagkerfið „hitnað“ mikið. Það veldur þrýstingi til hækkunar verðlags. Ef hagkerfið væri bíll mætti segja að verið sé keyra það vel umfram skynsamlegan hámarkshraða. Nauðsynlegt er að hægja á svo við missum ekki stjórn á bílnum.

Verðbólga hefur líka aukist mikið í öðrum þróuðum ríkjum og hefur víða ekki mælst meiri í fjóra áratugi. Almenn verðbólga var t.d. svipuð hér á landi og meðalverðbólga í helstu viðskiptalöndum okkar í október sl.

Þrátt fyrir það hafa vextir hvorki verið hækkaðir jafn mikið í nágrannalöndum okkar né í flestum öðrum Evrópuríkjum (mynd 1). Fólk spyr sig því eðlilega: af hverju eru vextir hærri hér á landi? [2]

 

Ákvörðun um vaxtastig ræðst af fjölmörgum þáttum sem geta verið mismunandi milli landa. Það er því ekki til einfalt og stutt svar við þessari spurningu. Hins vegar má benda á mikilvæga þætti sem eru frábrugðnir hér á landi og skipta miklu við ákvörðun á vaxtastigi:

  • Innlend eftirspurn og efnahagsumsvif hafa verið kröftugri hér á landi: Talið er að hagvöxtur á Íslandi hafi verið 6,4% í fyrra samanborið við um 3,3% að meðaltali í okkar helstu viðskiptalöndum (mynd 2). Þá jókst einkaneysla um 8,6% hér á landi í fyrra eftir 7% vöxt árið 2021. Það er mjög mikill vöxtur og töluvert meiri en í viðskiptalöndunum. Kraftmeiri efnahagsumsvif endurspeglast m.a. í því að laun hafa hækkað mun meira hér á landi en t.d. á Norðurlöndum eða í öðrum viðskiptalöndum Íslands, og ekki bara nýlega heldur yfir langt tímabil.
  •  
  • Efnahagshorfur á næstu misserum eru einnig betri hér á landi: Áfram er búist við ágætis hagvexti á Íslandi í ár eða um 2,6%. Hins vegar er spáð litlum hagvexti í viðskiptalöndunum og jafnvel efnahagssamdrætti í einhverjum þeirra (mynd 3). Dekkri horfur erlendis skýrast að miklu leyti af áhrifum orkukreppunnar en hún hefur haft minni áhrif hér.
  •  
  • Almenn verðbólga er þegar tekin að hjaðna í flestum öðrum þróuðum ríkjum. Hér á landi hefur hún hins vegar aukist enn frekar að undanförnu og er nú töluvert meiri en meðalverðbólga í helstu viðskiptalöndum okkar (mynd 4). Það er mikið áhyggjuefni.
  •  
  • Samsetning verðbólgunnar er ólík hér á landi: Mikil hækkun orkuverðs vegur þyngra í öðrum ríkjum. Þegar horft er fram hjá orku- og matvælaverði (svokölluð kjarnaverðbólga) er verðbólga meiri hér á landi (mynd 5). Hún fór einnig almennt fyrr af stað á Íslandi og hefur aukist enn frekar hér. Meira afl (hærri vexti) þarf til að ná verðbólgu niður eftir því sem þessi undirliggjandi verðbólguþrýstingur er meiri.
  •  
  • Verðbólga gæti orðið þrálátari hér á landi á næstu árum en víða erlendis í ljósi þróttmeiri efnahagsumsvifa og mismunandi samsetningar verðbólgunnar, þrátt fyrir að búist sé við að það hægi áfram á húsnæðismarkaði en hækkun húsnæðisverðs hefur vegið þungt í þróun verðbólgunnar hér.
  •  
  • Verðbólguvæntingar hafa hækkað meira hér á landi, sérstaklega væntingar um verðbólgu þegar horft er lengra fram á veginn. Ef fólk og fyrirtæki búast við meiri verðbólgu í framtíðinni er líklegra að sú verði raunin.

Allt ofangreint veldur því að meiri hætta er á að mikil verðbólga festist í sessi hér á landi en í helstu samanburðarríkjum. Seðlabankinn þarf því að bregðast ákveðið við til að svo verði ekki.

Peningastefnunefnd mun grípa til nauðsynlegra aðgerða til að ná verðbólgu niður

Peningastefnunefnd Seðlabankans hefur ítrekað lýst því yfir að hún muni halda áfram að grípa til þeirra aðgerða sem þarf til þess að verðbólga hjaðni í 2½% verðbólgumarkmið bankans innan ásættanlegs tíma. Það er gríðarlegt hagsmunamál fyrir alla landsmenn.

Þótt hækkun vaxta auki kostnað margra heimila og fyrirtækja til skamms tíma litið þá yrði kostnaðurinn miklu meiri til lengri tíma ef ekki er brugðist við og verðbólgunni leyft að festa rætur. Verðbólgan er hinn raunverulegi skaðvaldur lífskjara, einkum fyrir lágtekjuhópa.

Mikilvægt er að allir aðilar sem hafa mikil áhrif á umsvif í þjóðarbúinu leggist á eitt og beiti sér þannig að verðbólga hjaðni sem fyrst niður í verðbólgumarkmið Seðlabankans. Á það bæði við um ríki og sveitarfélög ásamt atvinnurekendum og launafólki. Stöðug og lítil verðbólga stuðlar að almennri efnahagslegri velferð og skilar sér í bættum lífskjörum fyrir alla.

Höfundur: Kristófer Gunnlaugsson, hagfræðingur á sviði hagfræði og peningastefnu

Neðanmálsgreinar: 

1. Nánari umfjöllun um þróun verðbólgunnar undanfarið, ástæður fyrir aukningu hennar og hvernig hærri seðlabankavextir leiða til minni verðbólgu má finna hér: Af hverju hefur Seðlabankinn verið að hækka vexti?
2. Þess má geta að seðlabankar helstu iðnríkja hafa einnig beitt svokallaðri magnbundinni herðingu (e. quantitative tightening) sem hefur samsvarandi áhrif á vaxtastig og tiltekin hækkun seðlabankavaxta. Vextir í þessum ríkjum hafa því í reynd verið hækkað meira en mynd 1 sýnir.

Til baka