logo-for-printing

13. júní 2023

Hlutverk og starfsemi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er sameiginlegur vettvangur samstarfs 190 þjóðríkja á sviði efnahags- og peningamála. Helsta markmið sjóðsins samkvæmt stofnsamþykktum hans er að efla alþjóðlega samvinnu í gjaldeyrismálum, stuðla að stöðugu gengi gjaldmiðla og greiða fyrir frjálsum viðskiptum. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn var stofnaður árið 1945 í kjölfar fundar fulltrúa fjölda landa í Bretton Woods í Bandaríkjunum þar sem fjallað var um framtíðarfyrirkomulag viðskipta- og gjaldeyrismála eftir lok síðari heimsstyrjaldar. Ísland var eitt af 29 stofnríkjum sjóðsins, starfar með Norður- og Eystrasaltslöndunum á vettvangi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og myndar með þeim eitt af 24 kjördæmum sjóðsins.

 

Meginhlutverk Alþjóðagjaldeyrissjóðsins

Starfsemi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er gjarnan skipt í þrjá meginþætti. Í fyrsta lagi eftirlit með efnahagsmálum aðildarlanda sjóðsins og alþjóðahagkerfinu í heild, í öðru lagi lánveitingar til aðildarríkja í greiðsluerfiðleikum og í þriðja lagi tæknilega aðstoð við aðildarríkin. Þá hefur sjóðurinn lagt sífellt meiri áherslu á að veita tekjulægstu aðildarríkjunum bæði fjárhagslega og tæknilega aðstoð. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur komið aðildarlöndum til aðstoðar með margvíslegum hætti á undanförnum árum, m.a. í kjölfar COVID-kreppunnar, með neyðarfjármögnun og sögulegri úthlutun sérstakra dráttarréttinda (SDR).

 

Eftirlit og ráðgjöf

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn fylgist með framvindu efnahagsmála í aðildarríkjunum með tvennum hætti. Annars vegar fer fram tvíhliða eftirlit (e. bilateral surveillance) með einstökum aðildarlöndum og hins vegar marghliða eftirlit (e. multilateral surveillance) með alþjóðahagkerfinu í heild. Heimild sjóðsins til eftirlits með efnahagslífi landa er nánar tilgreind í IV. grein samþykkta sjóðsins (e. Article IV Consultation). Sendinefndir sérfræðinga sjóðsins heimsækja aðildarríkin yfirleitt á hverju ári, gera úttekt á stöðu og horfum í efnahagslífi þeirra og veita ráðgjöf um stefnumótun. Eftirlitið felst m.a. í því að sjóðurinn metur hvernig efnahagsþróun og stefna ríkjanna samrýmist sjálfbærum hagvexti og stöðugleika. Sérstök athygli er veitt gengismálum, ríkisfjármálum, greiðslujöfnuði og fjármálastöðugleika. Í kjölfar úttektar semur sendinefndin sem annaðist hana ítarlega skýrslu sem rædd er í framkvæmdastjórn sjóðsins. Flest lönd birta skýrslurnar opinberlega og eru þær aðgengilegar á heimasíðu sjóðsins. Síðustu reglulegu viðræður við íslensk stjórnvöld um íslensk efnahagsmál fóru fram síðla vetrar og verður sú skýrsla birt eins og venja er á heimasíðu Seðlabankans í júní. Sjóðurinn gerir einnig heildstæða úttekt á stöðu og horfum í heimsbúskapnum og alþjóðafjármálakerfinu og birtir um það ítarlegar skýrslur fyrir vor- og ársfundi sjóðsins.1

Eftirlitsstarfsemi sjóðsins hefur þróast í áranna rás en á fyrstu starfsárum hans var hlutverk hans einkum að standa vörð um fastgengisfyrirkomulag alþjóðlega peningakerfisins sem kennt er við Bretton Woods, þar sem gengi flestra gjaldmiðla var tengt við gengi Bandaríkjadals sem var á gullfæti. Eftirlit sjóðsins sneri því aðallega að peningamálum, ríkisfjármálum og viðskiptajöfnuði aðildarríkjanna. Samhliða endalokum fastgengisfyrirkomulagsins snemma á 8. áratug síðustu aldar, frjálsari fjármagnsflutningum og aukinni samþættingu hagkerfa, hefur eftirlit sjóðsins í vaxandi mæli beinst að þáttum líkt og fjármálastöðugleika, fjármagnsflutningum og leiðum til að draga úr líkum á fjármálaáföllum. Í tengslum við það gerir sjóðurinn reglulegar úttektir á fjármálakerfum aðildarríkjanna (e. Financial Sector Assessment Program, FSAP). Þessum úttektum var komið á í kjölfar fjármálakreppunnar í Asíu í lok síðustu aldar. Stærri ríki með kerfislega mikilvæga fjármálageira þurfa að taka þátt í slíkri úttekt á fimm ára fresti; önnur ríki sjaldnar. Tilgangur úttektarinnar er að meta styrk og viðnámsþrótt fjármálakerfa og draga úr tíðni og alvarleika fjármálakreppa og áfalla. Nýlega undirgekkst Ísland slíka úttekt og verða niðurstöður hennar ræddar með reglulegri úttektarskýrslu í stjórn sjóðsins í júní og birtar í kjölfarið.

 

Fjárhagsleg aðstoð

Aðildarríkjum sjóðsins sem eiga í greiðsluerfiðleikum stendur til boða fjárhagsleg aðstoð í formi lána. Þessi lán eru yfirleitt á hagstæðari kjörum en bjóðast á almennum markaði og eru þau oftast skilyrt því að tilgreindar efnahagsumbætur eigi sér stað í lántökuríkinu sem hafa að markmiði að leiða það út úr greiðsluerfiðleikunum. Ísland gerði sem kunnugt er samning um aðstoð sjóðsins síðla árs 2008. Efnahagsáætluninni sem Ísland og sjóðurinn sömdu um í tengslum við lánveitinguna lauk formlega árið 2011 og lánin voru að fullu endurgreidd árið 2015. Auk þess að veita hefðbundin lán, lánalínur sem hægt er að draga á ef að kreppir og neyðarlán, hefur sjóðurinn unnið með skuldsettum þróunarríkjum í þeim tilgangi að létta skuldabyrði þeirra, gjarnan í samvinnu við þróuð ríki sem veitt hafa lán til viðkomandi landa.

 

Tæknileg aðstoð

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn styður aðildarríkin með tæknilegri aðstoð á sérsviðum sínum og getur sá stuðningur tekið á sig ýmsar myndir. Sjóðurinn veitir ýmsa aðstoð í gegnum eftirlits- og útlánahlutverk sitt, en einnig eru sérfræðingar hans sendir í lengri heimsóknir til aðildarríkja til ráðgjafarstarfa auk þess sem boðið er upp á námskeið og veitt þjálfun hjá svæðisstofnunum sjóðsins víða um heim. Tæknileg aðstoð er m.a. veitt á sviði peninga- og gengismála, skattastefnu, stjórnarhátta og söfnunar hagtalna og er hún án endurgjalds til tekjulægri aðildarríkja, sem njóta um þriggja fjórðu hluta aðstoðarinnar, en önnur ríki greiða fyrir aðstoðina.

 

Stjórnskipulag sjóðsins

Höfuðstöðvar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eru í Washington D.C. sem endurspeglar stöðu Bandaríkjanna sem stærsta aðildarríkis sjóðsins, þ.e. þess ríkis sem ræður yfir stærstum kvóta í sjóðnum (sjá nánar síðar). Sjóðsráð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (e. Board of Governors) fer með æðsta vald í málefnum sjóðsins en ráðið er skipað einum fulltrúa frá hverju aðildarríki, venjulega seðlabankastjóra eða fjármálaráðherra. Sjóðsráð kemur saman einu sinni á ári, á ársfundi sjóðsins að hausti. Næst sjóðsráði stendur fjárhagsnefndin (e. International Monetary and Financial Committee, IMFC) sem hefur ekki formlegt ákvörðunarvald en er ráðgefandi fyrir sjóðsráðið og mótar áherslur í starfi framkvæmdarstjórnar sjóðsins (e. Executive Board). Fjárhagsnefndin fundar tvisvar á ári, á vor- og ársfundi sjóðsins. Í fjárhagsnefndinni og framkvæmdastjórninni sitja 24 fulltrúar aðildarlandanna.

Frá fundi stjórnar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins

Stærstu löndin eiga einn fulltrúa hvert, en minni lönd mynda saman kjördæmi, og kjósa sameiginlega fulltrúa í fjárhagsnefndina og framkvæmdastjórnina. Framkvæmdastjórn sjóðsins hefur aðsetur í Washington D.C. og hefur yfirumsjón með daglegri starfsemi sjóðsins. Framkvæmdastjórnin fundar nokkrum sinnum í viku og tekur til umfjöllunar allar skýrslur um efnahagsástand og horfur í aðildarlöndunum, marghliða eftirlit, lánveitingar til aðildarríkja og eftirfylgni með þeim ásamt því að ræða stefnumótun sjóðsins og innri mál eins og fjármál, rekstur, áhættustýringu og mannauðsmál.

Kvóti og önnur fjármögnun

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er fjármagnaður með kvótaframlögum aðildarríkjanna sem þau reiða af hendi við inngöngu í sjóðinn. Kvótar mynda grunninn að útlánagetu sjóðsins og hversu há lán aðildarlönd geta fengið auk þess að ráða atkvæðavægi landa. Úthlutun sérstakra dráttarréttinda (e. Special Drawing Rights, SDR) ræðst einnig af hlutfallslegri stærð kvóta. Sérstök dráttarréttindi eru reiknieining og nokkurs konar gjaldmiðill sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn notar í starfi sínu og viðskiptum. Gildi þeirra er reiknað út frá körfu tiltekinna höfuðgjaldmiðla, þ.e. Bandaríkjadals, sterlingspunds, evru, japansks jens og kínversks renminbis. Kvótarnir endurspegla hlutfallslega stærð ríkjanna í heimsbúskapnum og aðra þætti sem gefa til kynna hlutfallslegt umfang þeirra í alþjóðlega peninga- og fjármálakerfinu. Við útreikning kvóta er m.a. tekið tillit til vergrar landsframleiðslu og umfangs alþjóðaviðskipta. Stærð heildarkvóta og skipting kvóta milli landa er endurskoðuð á fimm ára fresti. Þess má geta að kvóti Íslands nemur 0,07% af heildarkvótum sjóðsins. Þar sem fjármögnun með kvótum aðildarlanda hefur ekki verið talin nægjanleg til að standa undir aðstoð sjóðsins ef alvarlegir erfiðleikar steðjuðu að aðildarlöndum hans hefur verið gert samkomulag við ákveðin aðildarlönd um lánalínur sem sjóðurinn getur dregið á með skömmum fyrirvara og þannig drýgt ráðstöfunarfé sitt.

 

Kjördæmi Norður- og Eystrasaltslanda

Ísland er í kjördæmi Norður- og Eystrasaltslanda hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og kjósa löndin sameiginlega einn fastafulltrúa í framkvæmdastjórn sjóðsins. Þá eiga löndin einn fulltrúa í fjárhagsnefndinni. Í kjördæminu starfar embættismannanefnd (e. Nordic-Baltic Monetary and Financial Committee) og skipar hvert land tvo fulltrúa í nefndina, einn frá fjármálaráðuneyti og annan frá seðlabanka. Nefndin fjallar um helstu málefni á vettvangi sjóðsins á hverjum tíma og mótar afstöðu kjördæmisins til þeirra. Löndin eiga náið samstarf um reglulega samræmingu á afstöðu sinni til fjölmargra málefna sem koma til kasta framkvæmdastjórnar. Þátttaka í starfi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins felur í sér ýmsar skuldbindingar samkvæmt stofnsáttmálanum en veitir aðildarþjóðunum einnig aðgang að margháttaðri aðstoð, bæði tæknilegri og fjárhagslegri. Þá er sjóðurinn mikilvægur vettvangur samstarfs þjóða um stefnumótun á sviði efnahags- og fjármála.

Höfundar
Kristín Arna Björgvinsdóttir, sérfræðingur á skrifstofu bankastjóra
Ragnheiður Jónsdóttir, sérfræðingur á skrifstofu bankastjóra
Guðrún Sóley Gunnarsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri skrifstofu bankastjóra

Neðanmáls:

1. World Economic Outlook, WEO, Global Financial Stability Report, GFSR, Fiscal Monitor, FM

Til baka