logo-for-printing

07. september 2023

Af hverju taka ekki allir þátt? - Greining á þátttöku í viðbótarlífeyrissparnaði

Rannsókn okkar á þátttöku í viðbótarlífeyrissparnaði1 sýndi að kyn, tekjur, menntun og ríkisfang hafa áhrif á það hversu líklegt er að fólk taki þátt í kerfinu. Miðað við hve miklir hvatar voru og eru til staðar til að fá fólk til að taka þátt kom það á óvart að árið 2017 hafi aðeins 77% Íslendinga í fullu starfi tekið þátt í viðbótarlífeyrissparnaði. Hlutfallið er lægra fyrir fólk í hlutastarfi og meðal fólks af erlendum uppruna. Mest kom þó á óvart hversu margt fólk hættir þátttöku í viðbótarlífeyrissparnaði þegar það kemst á sjötugsaldurinn, jafnvel þó flest þeirra haldi áfram að vinna fullt starf og eigi því enn kost á þátttöku. Fólk missir þar með af tveggja prósenta viðbót við launin sín – viðbót sem væri hægt að fá með því að leggja inn tvö prósent af launum einn mánuðinn og taka fjögur prósent út þann næsta sem verður að teljast dágóð ávöxtun.

 

Töluverðir hvatar til að auka sparnað

Árið 1997 voru samþykkt á Alþingi lög sem heimiluðu viðbótarlífeyrissparnað.2 Markmiðin voru að auka sparnað og valfrelsi varðandi þátttöku í lífeyrissparnaði. Þannig var þátttaka í viðbótarlífeyrissparnaði frjáls og sparnaður þeirra sem tóku þátt var lagður inn á séreignarreikning. Þau sem tóku þátt gátu valið hvernig sparnaðurinn væri ávaxtaður og hvaða stofnun sæi um ávöxtunina. Lögin heimiluðu fleiri fjármálastofnunum en lífeyrissjóðum, t.d. bönkum, að taka við og ávaxta séreignarlífeyrissparnað3. Samtímis var samþykkt að hækka það hlutfall af launum sem launafólk gat greitt skattfrjálst í lífeyrissparnað.

Allt frá byrjun árið 1999 þegar lögin tóku gildi voru hvatar til að fá fólk til að taka þátt. Eins og í tilfelli skyldusparnaðar í lífeyrissjóði var viðbótarlífeyrissparnaður undanþeginn fjármagnstekjuskatti. Einnig var frá byrjun mótframlag frá launagreiðanda. Þrátt fyrir þetta var þátttakan lítil til að byrja með. Við því var brugðist með því að hækka mótframlagið og á árinu 2002 gat það numið 2% af launum.4 Árið 2014 var enn bætt við hvötum en þá var ákveðið að þeir sem greiða í viðbótarlífeyrissparnað gætu látið 2% mótframlag launagreiðanda og allt að 4% af eigin framlagi ganga sem greiðslu inn á húsnæðislán, skattfrjálst. Þetta þýddi að auk mótframlagsins, sem nam (1-0,4624)*2% = 1,075% af launum hjá þeim sem greiddu í hæsta skattþrepi5  fengju þeir sem veldu þennan kost skattaeftirgjöf sem næmi 0,4624*6% = 2,774% af launum fyrir skatt. Samtals gat ábatinn af þátttöku í viðbótarlífeyrissparnaði og því að greiða skattfrjálst inn á húsnæðislán orðið 1,075%+2,774% = 3,85% af greiddum launum. Þeir sem eru í hæsta skattþrepinu þurfa að fá greiðslu sem nemur 3,85%/(1-0,4624) = 7,16% af launum fyrir skatt til að halda eftir 3,85% eftir skatt.6

Hámörk hafa verið á greiðslum inn á húsnæðislán, 500 þús. kr. á 12 mánaða tímabili fyrir einstakling og 750 þús. kr. fyrir þá sem telja fram saman. Þessi hámörk hafa áhrif á ábatann. Ábatinn sem hlutfall af launum verður háður tekjum og þar sem hámörkin hafa haldist óbreytt í krónum frá 2014 hefur hlutfallslegur ábati af þátttöku í viðbótarlífeyrissparnaði og greiðslu inn á húsnæðislán minnkað.

 

Af hverju taka ekki allir þátt?

Fjölda þeirra sem taka þátt í viðbótarlífeyrissparnaði sem hlutfall af öllum í viðkomandi hóp má sjá á mynd 1. Í öllum tilfellum er þátttakan lítil fyrstu árin eftir að lögin tóku gildi en fer vaxandi. Þátttaka Íslendinga virðist ná eins konar jafnvægi í kringum árið 2005 þegar þátttaka fullvinnandi er nálægt 75% og þátttaka þeirra sem eru í hlutastarfi rétt undir 40%. Í kjölfar fjármálakreppunnar minnkar þátttakan og helst á þessu lægra stigi þangað til árið 2014, sama ár og leyft var að nýta viðbótarlífeyrissparnað til að greiða skattfrjálst inn á húsnæðislán. Síðustu árin virðist þátttaka Íslendinga aukast lítillega. Þátttaka erlendra ríkisborgara er allan tímann mun minni en þátttaka Íslendinga og þátttaka erlendra ríkisborgara í hlutastarfi er innan við 10%.7

 

Þegar haft er í huga hversu mikill ábati er af þátttöku í viðbótarlífeyrissparnaði er eðlilegt að spurt sé af hverju þátttakan sé ekki mun meiri en raun ber vitni. Tvær ástæður eru oft tilgreindar í hagfræði fyrir því að fólk nýtir ekki hagkvæma sparnaðarmöguleika. Ein ástæða er óþolinmæði, þ.e. að fólk telur viðbótarneyslu í framtíðinni lítils virði miðað við sömu neyslu í dag. Þetta á sérstaklega við þegar framtíðin kemur ekki fyrr en eftir mörg ár eins og gildir um ungt fólk sem sparar í viðbótarlífeyrissparnaði og getur ekki tekið sparnaðinn út fyrr en það er orðið 60 ára. Í þessu samhengi tala hagfræðingar um að afvöxtunarstuðullinn sem fólk noti til að bera saman nyt í dag og nyt í framtíðinni sé mjög hár. Ef hann er hærri en ávöxtunin sem býðst sparar fólk ekki. Önnur ástæða er lausafjárskortur (enska: liquidity constraint), þ.e. fólk hefur ekki nægilegt laust fé til að nýta hagkvæma sparnaðarleið.

Vegna mótframlagsins verður meðalávöxtun viðbótarlífeyrissparnaðar minnst þegar fólk er ungt en hækkar svo þegar fólk eldist. Þegar fólk er orðið sextugt og getur tekið út eigið framlag og mótframlag launagreiðandans nær samstundis verður ávöxtunin mjög há. Hún verður það há að erfitt er að skilja að einhver á þeim aldri hætti við þátttöku af því að afvöxtunarstuðullinn sem það notar til að bera saman nyt í framtíðinni og nyt í dag geti verið hærri en ávöxtunin þar sem hægt er að taka út framlagið nær samstundis. Lausafjárvandi er líka ósennileg skýring.

Mótframlag launagreiðanda og skattaeftirgjafir vegna greiðslna inn á húsnæðislán sem hófust 2014 valda því að ávöxtun af lífeyrissparnaði hækkar með aldri. Það væri því eðlilegt að búast við því að þátttakan aukist með aldri. Á árunum fyrir fjármálakreppuna var það ekki svo, nema hvað fólk undir þrítugu tók minna þátt í viðbótarlífeyrissparnaði en þeir sem eldri voru. Frá þrítugu til sextugs var þátttakan nokkuð jöfn en eftir sextugt minnkaði þátttakan þrátt fyrir að þá hafi ávöxtunin verið mest! Í fjármálakreppunni hætti ungt fólk að taka þátt í viðbótarlífeyrissparnaði í meira mæli en þeir sem eldri voru. Það er hugsanlegt að hár afvöxtunarstuðull og lausafjárskortur hafi valdið þessu við þær sérstöku aðstæður sem uppi voru fyrst eftir fjármálakreppuna. Frá 2009 og fram til ársins 2013 óx þátttakan með aldri frá þrítugu til sextugs en hélt áfram að minnka eftir sextugt. Á árinu 2014 eykst hins vegar þátttaka ungs fólks meira en þátttaka þeirra sem eldri eru og aftur verður þátttakan nokkuð jöfn eftir aldri fyrir fólk frá þrítugu til sextugs en lækkar svo eftir það. Fjallað verður um lækkun þátttöku í viðbótarlífeyrissparnaði eftir sextugt síðar í greininni.

Rannsóknir erlendra hagfræðinga benda til þess að verulegur hluti fólks velji ekki ábatasaman möguleika jafnvel þótt fyrirhöfnin sem leiðir af því að velja kostinn sé mjög lítil. Madrian og Shea (2001) rannsökuðu stórt fyrirtæki í Bandaríkjunum sem hafði áhyggjur af lítilli þátttöku í lífeyrissparnaði sem starfsmönnum stóð til boða. Þetta var hagkvæmur kostur því fyrirtækið greiddi mótframlag sem nam 50% af því sem starfsmaðurinn greiddi upp að 6% af launum. Til að auka þátttökuna ákvað fyrirtækið að í stað þess að láta starfsmenn vita af þessum möguleika og láta þá sem vildu taka þátt skrá sig voru allir sjálfkrafa skráðir en bent á að ef þeir vildu hætta þá gætu þeir það með einfaldri tilkynningu. Madrian og Shea fundu að þessi einfalda breyting hækkaði hlutfall starfsmanna sem tóku þátt úr 57% í 86%. Sérstaklega hækkaði þátttaka minnihlutahópa mikið. Það væri fróðlegt að prófa hvort samsvarandi breyting hefði jafn mikil áhrif hér á landi. Chetty o.fl. (2014) rannsökuðu aðstæður í Danmörku og fengu samsvarandi niðurstöður. Fólk sleppti að velja hagkvæma kosti en ef ákveðið var að bjóða öllum tiltekinn kost (sjálfgefið val) valdi fólk ekki að hætta þátttöku þótt það gæti það.

Þátttaka eykst yfirleitt með meiri menntun og tekjum

Þátttökuhlutföll eftir menntun og tekjum má sjá á mynd 2. Menntunarflokkarnir eru þrír, grunnmenntun, framhaldsmenntun og háskólamenntun og tekjuflokkarnir eru fimm og jafn stórir þannig að 20% eru í hverjum þeirra.

 

Mynd 2 sýnir hvernig þátttakan eykst yfirleitt með meiri menntun og einnig með meiri tekjum. Í lægsta tekjuhópnum snýst reyndar röðin við hvað varðar menntunarflokka en þátttakan er þar mest hjá þeim sem eru einvörðungu með grunnskólamenntun en minnst hjá þeim sem eru með háskólamenntun.8

Myndin sýnir að þátttaka þeirra sem eru með hæstu tekjurnar og mestu menntunina er nálægt 85% þegar fólk er á aldrinum frá 25 ára til sextugs. Þáttaka þeirra sem eru í lægsta tekjuhópnum er hins vegar undir 60%. Í öllum tilfellum lækka þátttökuhlutföllin nokkuð skarpt eftir sextugt en eru nokkuð stöðug fram að því.

Í kaflanum um aðfallsgreiningu hér á eftir verður fjallað nánar um samband menntunar og tekna við þátttöku í viðbótarlífeyrissparnaði og einnig um minnkun þátttöku þeirra sem eru komnir yfir sextugt.

Konur taka almennt frekar þátt en karlar

Þátttökuhlutföll eftir kyni má sjá í mynd 3. Þar sést að fyrstu árin var þátttökuhlutfall karla hærra en kvenna en það breyttist á árunum 2003-2005. Mestur var munurinn þegar þátttökuhlutfall kvenna var 2 prósentum hærra en þátttökuhlutfall karla. Ef horft er á þátttökuhlutföll karla og kvenna í fullri vinnu er munurinn mikið meiri.

 

Myndin sýnir að breytingar í þátttökuhlutföllum kynjanna er mjög svipaðar. Það tekur ámóta langan tíma fyrir karla og konur að ná þeirri stöðu þar sem þátttökuhlutföllin eru í sæmilegu jafnvægi, lækkunin árið 2009 er svipuð og aukningin árið 2014 einnig.

Mynd 4 sýnir þátttökuhlutföll eftir aldri og kyni. Myndin til vinstri sýnir að á árunum 2005-2017 var þátttaka kvenna að meðaltali meiri en þátttaka karla í öllum aldursflokkum nema þeim yngstu og elstu. Myndin til hægri sýnir fjölda ára sem þátttökuhlutfall kvenna var hærra en karla. Rauðu strikin sýna marktæknismörk. Ef fjöldinn fer yfir efri mörkin er þátttaka kvenna marktækt meiri en þátttaka karla en ef fjöldinn fer undir neðri mörkin er þátttaka karla marktækt meiri.

 

Ef við skoðum þátttöku eftir kynjum hjá þeim sem eru giftir eða búa saman og telja fram saman sést þar líka að konur taka meira þátt í víðbótarlífeyrissparnaði en karlar. Það sama gildir um hóp einstæðra, þar sem þátttaka kvenna er líka meiri og munurinn meiri en hjá þeim sem telja fram með maka.

Það er ekki auðvelt að benda á sannfærandi skýringar á þessum mun í þátttökunni. Konur hafa að jafnaði lægri tekjur en karlar og af því leiðir að réttindi þeirra í lífeyrissjóðum eru minni en karla. Þá má benda á að konur eru lengur á eftirlaunum en karlar, bæði vegna þess að þær lifa að jafnaði lengur og vegna þess að þær hætta fyrr að vinna. Í kaflanum um aðfallsgreiningu er bent á að hjón og aðrir sem telja fram með maka eru líkleg til að velja það sama varðandi viðbótarlífeyrissparnað. Ef makinn velur að taka þátt aukast líkur á að viðkomandi taki þátt en ef makinn velur að taka ekki þátt þá verða líkurnar á þátttöku minni en hjá þeim sem telja fram sem einstaklingar.

Skattfrelsi nýtt í meira mæli af tekjuhærri

Þátttakan í viðbótarlífeyrissparnaði jókst mikið á árinu 2014 (mynd 1) og varð jafnvel ívið meiri en hún var fyrir lækkunina sem fylgdi í kjölfar fjármálakreppunnar. Hluti af skýringunni á þessari aukningu eru nýju hvatarnir í formi skattfrjálsra greiðslna inn á húsnæðislán sem komu til framkvæmda 1. júlí 2014. Upphaflega átti þetta fyrirkomulag að vera til skamms tíma og ljúka 30. júní 2017 en hefur síðan ítrekað verið framlengt, síðast til 31. desember 2024.9

Ef skoðað er þátttaka í viðbótarlífeyrissparnaði eftir því hvort viðkomandi skuldar húsnæðislán eða ekki sést að þátttaka þeirra sem skulda húsnæðislán eykst mun meira en hinna. Strax 2014 eykst þátttaka þeirra sem skulda húsnæðislán úr 66,4% í 74,6%, eða um 8,1 prósentustig. Á sama tíma eykst þátttaka þeirra sem ekki skulda húsnæðislán úr 51,4% í 56,1% eða um 4,7 prósentustig. Árið 2017 hafði þátttaka þeirra sem skulduðu húsnæðislán aukist um 13,1 prósentustig frá árinu 2013, en þátttaka þeirra sem ekki skulduðu húsnæðislán hafði aukist um 7,4 prósentustig á sama tíma. Þetta bendir til þess að fleira hafi haft áhrif á aukningu í þátttökunni en möguleikinn á að greiða skattfrjálst inn á húsnæðislán. Hugsanlega er hluti af skýringunni að kerfið er að leita aftur í einhvers konar jafnvægisstöðu eftir mikinn skell sem fylgdi fjármálakreppunni. Mikil aukning varð í þátttöku yngra fólks (aldurssamsetning þátttakenda varð í kjölfarið aftur eins og hún hafði verið fyrir fjármálakreppuna) sem gæti bent til einhvers konar leiðréttingar á þátttökunni við aðstæður þar sem hagkerfið væri búið að jafna sig á skellinum. Einnig er líklegt að heimild þeirra sem ekki áttu húsnæði til að leggja viðbótarlífeyrissparnað skattfrjálst inn á svokallaða húsnæðissparnaðarreikninga hafi haft einhver áhrif á þátttökuna. Þátttakan í þessu úrræði var þó mun minni en þátttakan í greiðslum inn á húsnæðislán. Það er líka sennilegt að sú mikla athygli sem viðbótarlífeyrissparnaður fékk á árinu 2014 vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar hafi haft einhver áhrif.

Þrátt fyrir að einhverjir hafi byrjað að taka þátt í viðbótarlífeyrissparnaði vegna möguleikans á að greiða skattfrjálst inn á húsnæðislán varð þátttakan í þessu nýja úrræði í lægri kantinum miðað við áætlanir en þær hljóðuðu upp á þátttöku á bilinu 35-50% af þeim sem skulduðu húsnæðislán. Árið 2014 nam þátttakan 27,8% en árið 2017 hafði hún hækkað í 38,2%, aðeins umfram lægri mörkin í áætlunum stjórnvalda.

Mikill munur var á þátttöku eftir tekjum og menntun. Árið 2017 voru 58,2% af þeim með hæstu tekjurnar og skulduðu húsnæðislán að greiða skattfrjálst inn á lán. Í lægsta tekjuhópnum var hlutfallið 7,7%. Á sama ári, 2017, var hlutfall háskólamenntaðra sem nýtti sér að greiða skattfrjálst inn á lán 45,3% en hlutfall þeirra sem voru með grunnskólamenntun var 21,2%.

Hlutfall erlendra ríkisborgara sem greiddi skattfrjálst inn á húsnæðislán var 8% af öllum erlendum ríkisborgurum sem skulduðu húsnæðislán árið 2014. Þessi tala var komin í 15,9% árið 2017. Samsvarandi tölur fyrir íslenska ríkisborgara voru 28,6% og 39,2%.

 

Óskynsamleg hegðun?

Minnkuð þátttaka í viðbótarlífeyrissparnaði eftir sextugt kemur fram bæði þegar horft er á þátttöku eftir tekjum, menntun og kyni. Það er erfitt að útskýra af hverju þessi minnkun stafar. Hagfræðilegar skýringar eins og lítil ávöxtun eða lausafjárskortur eiga augljóslega ekki við. Það er vissulega hægt að benda á ástæður þess að í þverskurðargögnum (þ.e. gögnum þar sem horft er á ólíka einstaklinga á sama tímapunkti) lækki þátttökuhlutföll fyrir viðbótarlífeyrissparnað eftir að fólk verður sextugt. T.d. hætta konur fyrr að vinna en karlar en þátttökuhlutfall þeirra er hærra en karla sem ætti að valda einhverri lækkun þátttökuhlutfallsins fyrir konur og karla. Þar sem að meiri menntun eykur líkur á þátttöku í viðbótarlífeyrissparnaði og eldri kynslóðir eru almennt með minni menntun miðað við yngri kynslóðir getur þetta valdið lækkun í þátttökuhlutföllum eftir sextugt. Önnur atriði virka í hina áttina. T.d. eru þátttökuhlutföll hærri hjá þeim sem eru með meiri tekjur en þeir sem eru með hærri tekjur vinna líka lengur en þeir sem eru með lægri tekjur. Þetta ætti að valda einhverri hækkun þátttökuhlutfalls fyrir alla tekjuhópana. En eins og sést í mynd 2 lækka þátttökuhlutföllin ekki bara í heildartölum heldur líka fyrir einstaka undirhópa sem búnir eru til út frá tekjum og menntun.

Aðfallsgreining þar sem gervibreytur fyrir aldur eru notaðar til að kanna áhrif einstakra aldurshópa á líkur á þátttöku í viðbótarlífeyrissparnaði benda til þess að þessi minnkun þátttöku í viðbótarlífeyrissparnaði eftir sextugt sé ekki bara afleiðing af samlagningu ólíkra árganga í þverskurðargögnum.

Þá var athugað hvort fylgni væri milli þess að fólk byrjaði að taka út viðbótarlífeyrissparnað og þess að fólk hætti þátttöku í viðbótarlífeyrissparnaði jafnvel þótt það héldi áfram að vinna og ætti því rétt á að taka þátt. Athugunin sýndi marktæka fylgni á milli þessara tveggja ákvarðana þótt hagfræðilega ætti svo ekki að vera. Reyndar, í ljósi þess að nánast samtímis má taka út sparnaðinn eftir 60, ætti fólk sem orðið er sextugt ekki að hætta að greiða í viðbótarlífeyrissparnað og verða af 2% mótframlagi launagreiðanda, fyrr en það missir réttinn til þess þegar það hættir að vinna. Ekki er auðvelt að geta sér til um ástæðu þess að fólk tengir þessar tvær ákvarðanir saman, þ.e. taka út og hætta þátttöku, en hugsanleg skýring er ef einhver byrjar að taka út úr viðbótarlífeyrissparnaði getur verið að honum finnist „eðlilegt“ að hætta að spara á sama tíma.

 

Aðfallsgreining sýnir að tekjur skýra mest

Aðfallsgreining er öflugt tæki til að greina mögulega orsakaþætti. Svonefnd Probit greining er aðfallsgreining þar sem skýrða stærðin vinstra megin við jafnaðarmerkið eru líkur. Í greiningunni var notað venjulegt Probit og einnig tveggja þrepa Probit minnstu kvaðrat (enska: 2 Stage Probit Least Squares, 2SPLS). Í báðum tilfellum var niðurstaðan sú að tekjur höfðu mikil jákvæð áhrif á líkur á þátttöku. Kyn hafði einnig mikil jákvæð áhrif en menntun hafði neikvæð áhrif á líkur á þátttöku. 2SPLS aðferðin gefur kost á að kanna hvort einhver stærð sem notuð sé sem skýristærð sé í raun innri stærð og skýrist af öðrum skýristærðum. Niðurstaðan var að af 19 matsjöfnum fyrir árin 1999-2017 var núlltilgátunni um að tekjur væri ytri stærð og óháð öðrum skýristærðum hafnað. Ef notuð var jafna fyrir tekjur þar sem tekjur voru skýrðar með menntun, kyni og fleiri stærðum og reiknuð út áhrif menntunar á líkur á þátttöku bæði beint og óbeint í gegnum áhrifin á tekjur fékkst að áhrif menntunar væru jákvæð. Áhrif kyns á líkur á þátttöku minnkuðu mikið þegar tekið var tillit til bæði beinna áhrifa og óbeinna áhrifa í gegnum tekjur. Áhrif kyns voru þó áfram jákvæð, þ.e. meiri líkur voru á þátttöku ef viðkomandi var kona.

Aðrar skýristærðir sem höfðu mikil áhrif á líkur á þátttöku voru þátttaka maka, viðkomandi starfar í fjármála- og tryggingargeiranum, viðkomandi starfar hjá hinu opinbera, viðkomandi skuldar húsnæðislán og viðkomandi á eigið húsnæði. Neikvæð áhrif höfðu skýristærðirnar: viðkomandi býr á Reykjavíkursvæðinu og viðkomandi er skattlagður með maka.

Höfundar: Ásgeir Daníelsson, fyrrum forstöðumaður rannsóknar- og spádeildar á sviði hagfræði og peningastefnu, Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu og Svava J. Haraldsdóttir, hagfræðingur á sviði hagfræði og peningastefnu.

Heimildir

Chetty, R., J.N. Friedman, S. Leth-Petersen, T.H. Nielsen og T. Olsen (2014), Active vs. passive decisions and crowd-out in retirement saving accounts: Evidence from Denmark, The Quarterly Journal of Economics, 129. árg., bls. 1141-1219

Ásgeir Daníelsson, Rannveig Sigurðardóttir og Svava Haraldsdóttir, Participation in supplementary pension savings in Iceland, rannsóknarritgerð nr. 91, útgefin af Seðlabanka Íslands, https://sedlabanki.is/library/Skraarsafn---EN/Working-Papers/WP_91.pdf.

Madrian, B.C. og D.F. Shea (2001), The power of suggestion: Inertia in 401(k) participation and savings behavior, The Quarterly Journal of Economics, 116. árg., nr. 4.

Neðanmáls:

  1. Participation in supplementary pension savings in Iceland, rannsóknarritgerð nr. 91, útgefin af Seðlabanka Íslands.
  2. Lög nr. 129/1997, Lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Með setningu laganna voru lögfest ákvæði um viðbótarlífeyrissparnað.
  3. Viðbótarlífeyrissparnaður er alltaf séreign þess sem tekur þátt, en auk þess fer hluti af skyldu lífeyrissparnaði í séreign. Þetta er þó mismunandi eftir lífeyrissjóðum og kjarasamningum. Hækkun á framlagi launagreiðanda í lífeyrissjóð um 3,5 prósentur sem kom til framkvæmda á árunum 2016-2018 fer í sameignarsjóð nema sótt sé um að hann fari í séreign. Með lögum nr. 129/1997 voru allir lífeyrissjóðir skyldaðir til að vera með sameignardeild sem tryggir lífeyri til æviloka.
  4. Það voru smá frávik frá þessari reglu á árinu 2004, en árið 2005 var þetta fyrirkomulag aftur í gildi.
  5. Hæsta skattþrep var 46,24% árið 2014 og er 46,25% 2023.
  6. Samsvarandi ábati fellur þeim í skaut sem ekki eiga húsnæði og velja að setja viðbótarlífeyrissparnaði inn á sérstaka húsnæðissparnaðarreikninga.
  7. Í hlutastarfi teljast þeir sem vinna minna en 10 mánuði á ári og/eða eru með árstekjur undir tilteknu lágmarki sem breytist yfir tíma. Seinna viðmiðið er notað til að sía burt þá sem vinna alla mánuði ársins en fáar stundir á hverjum mánuði eins og algengt er meðal unglinga á Íslandi. Þessi viðmið hafa þau áhrif að erlendir ríkisborgarar sem vinna fullan vinnudag og stundum rúmlega það en einungis í fáa mánuði í einu teljast í hlutastarfi.
  8. Athugið að það eru tiltölulega fáir háskólamenntaðir í lægsta tekjuhópnum.
  9. Lög nr. 51/2023
Til baka