Fjármálastöðugleiki í hnotskurn
Aðhald peningastefnunnar hefur að undanförnu verið hert frekar, bæði hér á landi og erlendis, til að vinna gegn þrálátri verðbólgu. Aukið aðhald hefur hægt á hagkerfum heimsins sem meðal annars hefur komið fram í lækkandi eignaverði. Einnig hefur hægt á hagvexti hér á landi en hann er þó enn umtalsverður, enda mikil eftirspurn eftir helstu útflutningsafurðum Íslands. Hagvaxtarhorfur hafa versnað og spár benda til að það dragi úr hagvexti á seinni hluta þessa árs og því næsta.
Verðbólga og hækkandi vextir hafa þyngt greiðslubyrði heimila og fyrirtækja. Skuldsetning einkageirans er þó lítil í sögulegu samhengi og eiginfjárstaðan góð. Þá hafa hátt atvinnustig, hækkanir nafnlauna og hagvöxtur stutt við greiðslugetu heimila og fyrirtækja. Þyngri greiðslubyrði hefur því ekki birst í auknum vanskilum, þó er viðbúið að slíkt geti gerst fyrr eða síðar. Til að fyrirbyggja greiðsluerfiðleika og vanskil er mikilvægt að þeir lántakendur sem illa geta staðið undir aukinni greiðslubyrði skoði með lánveitendum þau úrræði sem þeim standa til boða.
Umsvif á íbúðamarkaði hafa minnkað töluvert. Framboð íbúða hefur aukist, sölutími lengst og velta dregist saman. Fjármögnun er orðin erfiðari en áður enda vaxtastig hærra og lánþegaskilyrði þrengri. Verð á markaðnum er enn hátt á flesta mælikvarða þrátt fyrir að dregið hafi úr misvægi. Frávik íbúðaverðs frá langtímaleitni hefur einnig minnkað nokkuð, þar sem nafnverð hefur nánast staðið í stað og raunverð því lækkað. Þá hefur eftirspurn eftir leiguhúsnæði aukist, enda viðvarandi spenna á vinnumarkaði með tilheyrandi aðflutningi fólks.
Staða stóru viðskiptabankanna er sterk. Eiginfjárhlutföll þeirra eru há, arðsemi af reglulegum rekstri er góð og vanskil heimila og fyrirtækja í lágmarki. Bankarnir hafa dregið úr endurfjármögnunaráhættu í erlendum gjaldmiðlum á síðustu mánuðum með skuldabréfaútgáfu á erlendum lánsfjármörkuðum. Álagspróf Seðlabankans, annars vegar, og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, hins vegar, sýna að bankarnir búa yfir miklum viðnámsþrótti gagnvart ytri áföllum í efnahagslífinu. Viðbúið er að virðisrýrnun aukist á næstu mánuðum, bæði hjá heimilum og fyrirtækjum, þar sem greiðslubyrði hefur þyngst en bankarnir búa yfir nægum viðnámsþrótti til að takast á við það.
Rekstraráhætta í innlendri greiðslumiðlun fer vaxandi eins og víða erlendis, m.a. vegna mikilla tækninýjunga í greiðslubúnaði, fjölgun greiðslumiðla og stríðsátaka. Innlendir fjármálainnviðir búa þó yfir töluverðum viðnámsþrótti en álagspróf á millibankakerfi Seðlabankans sýnir að þátttakendur í millibankakerfinu geta vel staðið við greiðsluskuldbindingar innan dags þó einn banki verði fyrir áfalli og geti ekki sent frá sér greiðslur. Þó er nauðsynlegt að efla áfram viðnámsþrótt með því að styrkja mögulegar staðgönguleiðir innlendrar greiðslumiðlunar, hvort sem um er að ræða reiðufé eða innlenda óháða smágreiðslulausn.
Netárásum, netsvikum og tilraunum til slíkra afbrota fjölgar stöðugt. Til að standa vörð um samfellda þjónustu fjármálafyrirtækja og tryggja öryggi fjármálainnviða þarf að efla enn frekar viðbúnað vegna netógna. Þar gegna samhæfðar aðgerðaáætlanir lykilhlutverki. Mikilvægt er að tryggja samræmd viðbrögð og samskipti opinberra aðila í netöryggismálum, einkum á tímum neyðar, þannig að hlutverkaskipting, ábyrgð og ekki síður valdheimildir séu skýrar. Þörf er á að halda áfram virku samtali allra hlutaðeigandi.
Greinin birtist í ritinu Fjármálastöðugleiki sem var gefið út 20. september 2023.
Höfundur: Eggert Þröstur Þórarinsson, aðstoðarframkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs Seðlabanka Íslands.