logo-for-printing

30. maí 2024

Nýleg endurskoðun á sögulegum hagtölum

Nýlega birti Hagstofa Íslands endurmat á þjóðhagsreikningum fyrir árin 2020-2022 og á mannfjöldatölum frá árinu 2010. Eins og nánar er rakið í rammagrein 2 í Peningamálum 2024/2 setur þessi mikla endurskoðun hagþróun síðustu ára í nýtt ljós.

 

Hagvöxtur undanfarinna ára var mun meiri en áður var talið …

Samkvæmt endurskoðuðum tölum Hagstofunnar dróst landsframleiðsla saman um 6,9% árið 2020 sem er lítillega minni samdráttur en áður hafði verið talið. Þá var hagvöxtur ársins 2021 færður upp um 0,6 prósentur í 5,1% (mynd 1). Endurskoðunin á hagvexti ársins 2022 var hins vegar töluvert meiri. Nú er talið að hann hafi verið 8,9% eða 1,7 prósentum meiri en fyrri tölur höfðu bent til.

Eins og sést á mynd 2 er þetta mesti hagvöxtur sem mælst hefur hér á landi á síðustu fimmtíu árum og þarf að fara aftur til ársins 1971 til að finna meiri árshagvöxt en mældist árið 2022. Hagvöxtur ársins var einnig tæplega þrefalt meiri en hann hefur verið að meðaltali síðustu hálfa öld.

Eins og sést á mynd 1 má rekja stærstan hluta endurskoðunar Hagstofunnar á hagvaxtartölum áranna 2021-2022 til þess að fjármunamyndun reyndist töluvert meiri en fyrri tölur höfðu gefið til kynna. Að mestu endurspeglar það endurmat á fjárfestingu atvinnuveganna í mannvirkjum og þá sérstaklega fyrirtækja í landeldi og hótelrekstri en einnig gagnavera í netþjónum.

Endurskoðun þjóðhagsreikninga fól einnig í sér að sögulegar tölur um hagvöxt á mann hafa tekið nokkrum breytingum. Þar bætist við nýleg endurskoðun Hagstofunnar á mannfjöldatölum sem sýna að mannfjöldi hér á landi hefur verið ofmetinn undanfarinn ríflega áratug. Nú er áætlað að hagvöxtur á mann hafi verið 6,4% árið 2022 sem er 1,8 prósentum meiri vöxtur en fyrri tölur höfðu gefið til kynna. Þetta er fjórði mesti hagvöxtur á mann sem mælst hefur hér á landi síðustu hálfa öld og var ríflega þrefalt meiri vöxtur en að meðaltali yfir sama tímabil.

 

… og hefur efnahagssamdrátturinn í kjölfar heimsfaraldursins þegar verið endurheimtur

Samkvæmt endurskoðuðum tölum Hagstofunnar var landsframleiðslan árið 2023 komin tæplega 11% yfir það sem hún var árið 2019, þ.e. árið fyrir heimsfaraldurinn. Hún var því 2,9% meiri árið 2023 en áður hafði verið áætlað (mynd 3). Vegna endurskoðunar á mannfjöldatölum var munurinn á landsframleiðslu á mann í fyrra frá áður birtum tölum enn meiri eða 3,5% og var hún 2,8% meiri í fyrra en hún var árið 2019. Sú landsframleiðsla á mann sem tapaðist í heimsfaraldrinum endurheimtist því að fullu árið 2022 samkvæmt nýjum tölum Hagstofunnar. Miðað við fyrri áætlanir var hún hins vegar enn 0,7% undir því sem hún var árið 2019 í fyrra og útlit var fyrir að hún hefði ekki náð því stigi sem hún var á fyrir farsóttina fyrr en á næsta ári – þremur árum seinna en endurskoðaðar tölur gefa til kynna.

 

Nýjar tölur benda til þess að framleiðsluspennan árið 2022 hafi farið hátt í það sem hún var mest árið 2007

Endurskoðun Hagstofunnar á sögulegum fjárfestingartölum gerir það að verkum fjármagnsstofn þjóðarbúsins er nú talinn stærri en áður var metið. Vegna vanmats hagvaxtar hefur framleiðni vinnuafls einnig vaxið meira undanfarin ár en áður var talið. Framleiðslugeta þjóðarbúsins hefur því aukist umfram það sem áður var talið þótt á móti vegi að Íslendingar eru nú taldir færri í kjölfar endurskoðunar Hagstofunnar á mannfjöldatölum undanfarinna ára.

Á móti 2,9% aukningar á landsframleiðslu ársins 2023 frá fyrra mati vegur því að framleiðslugeta þjóðarbúsins er nú talin 1½% meiri. Munurinn á milli landsframleiðslunnar og framleiðslugetu, þ.e. framleiðsluspennan, er því talin 1,5 prósentum meiri í fyrra en gert var ráð fyrir í febrúarspá bankans (mynd 4).

 

Lokaorð

Endurskoðun Hagstofunnar á sögulegum hagvaxtar- og mannfjöldatölum setur hagþróun síðustu ára í nýtt ljós. Samkvæmt endurskoðuðum tölum var hagvöxtur ársins 2022 sá mesti sem mælst hefur hér á landi í ríflega hálfa öld og hagvöxtur á mann náði töluvert fyrr því stigi sem hann var á fyrir heimsfaraldurinn en eldri tölur höfðu bent til.

Endurskoðun á hagvaxtartölum má fyrst og fremst rekja til þess að fjárfestingarumsvif reyndust töluvert meiri en fyrri tölur gáfu til kynna. Þrátt fyrir það var viðskiptajöfnuðurinn hagstæðari en áður var talið sem bendir til þess að innlent sparnaðarstig hafi verið nokkru hærra en áður var gert ráð fyrir. Svigrúm einkageirans til að viðhalda kröftugri eftirspurn gæti því verið meira en áður var talið. Á móti vegur þó að framleiðniþróun undanfarinna ára hefur verið hagstæðari en áður var áætlað sem gæti bent til þess að geta fyrirtækja til að taka á sig kostnaðarhækkanir sé meiri en áður var áætlað. Þrátt fyrir það virðist framleiðsluspennan í þjóðarbúinu hafa verið meiri en fyrri tölur bentu til þar sem aukning framleiðslugetunnar náði ekki að halda í við aukna innlenda eftirspurn. Nú er því talið að framleiðsluspennan árið 2022 hafi farið nálægt því sem hún var mest árin fyrir fjármálakreppuna. Hefðu grunnspár bankans á undanförnum árum byggst á þessum upplýsingum er líklegt að þær hefðu spáð meiri verðbólgu og því farið nær því sem varð í raun.

Höfundar:

Elís Pétursson, Haukur V. Guðjónsson, Kári Gunnlaugsson, Katrín S. Másdóttir, Kolbrún Þorfinnsdóttir, Þórarinn G. Pétursson hagfræði- og peningastefnusviði Seðlabanka Íslands.

Til baka