logo-for-printing

22. ágúst 2024

Peningamál í hnotskurn

Alþjóðlegar hagvaxtarhorfur hafa lítið breyst frá því í maíspá Peningamála. Talið er að hagvöxtur í helstu viðskiptalöndum verði að meðaltali 1,3% í ár en þokist upp í liðlega 1½% á næstu tveimur árum. Óvissa um alþjóðlegar efnahagshorfur hefur þó aukist. Alþjóðleg verðbólga hefur minnkað áfram það sem af er ári og fleiri seðlabankar iðnríkja eru teknir að lækka vexti. Eins og í maí er talið að verðbólga haldi áfram að hjaðna í helstu iðnríkjum og verði komin í markmið á seinni hluta næsta árs.

Hratt dró úr hagvexti hér á landi er leið á síðasta ár og á fyrsta fjórðungi þessa árs dróst landsframleiðsla saman um 4% milli ára en í maí var gert ráð fyrir 3,7% samdrætti. Neikvæð áhrif minni birgðasöfnunar vegna loðnubrests í upphafi þessa árs vega þungt en ef birgðabreytingar eru frátaldar jókst innlend eftirspurn um 0,9% milli ára á fjórðungnum en í maí var búist við 0,6% vexti. Talið er að landsframleiðsla hafi aukist um 2% milli ára á öðrum fjórðungi ársins og að hagvöxtur í ár verði einungis 0,5% en í maí var spáð 1,1% hagvexti. Skýrist frávikið fyrst og fremst af lakari horfum í ferðaþjónustu. Hagvaxtarhorfur fyrir næstu tvö ár hafa einnig versnað lítillega frá því í maí.

Hægt hefur á fjölgun starfa frá því á fyrri hluta síðasta árs. Atvinnuleysi hefur hins vegar lítið breyst enda hefur atvinnuþátttaka aukist á móti fjölgun starfa. Atvinnuleysi mælist enn lítið þótt vísbendingar séu um minnkandi spennu á vinnumarkaði. Talið er að framleiðsluspennan haldi áfram að minnka og snúist í lítillegan slaka um mitt næsta ár sem er svipað og spáð var í maí.

Nokkuð dró úr verðbólgu á fyrri hluta þessa árs og mældist hún 6% að meðaltali á öðrum fjórðungi ársins eins og spáð var í maí eða tæplega 2 prósentum minni en hún var að meðaltali á fjórða ársfjórðungi í fyrra. Hún jókst hins vegar á ný í júlí í 6,3%. Verðbólga án húsnæðis jókst einnig og mældist 4,2% og undirliggjandi verðbólga jókst í 5,3%. Aukning verðbólgunnar virðist því vera á tiltölulega breiðum grunni og fáar vísbendingar um lækkun verðbólguvæntinga er að finna enn sem komið er. Verðbólguhorfur breytast hins vegar lítið frá því í maí. Lakari upphafsstaða skýrir heldur meiri verðbólgu en spáð var í maí fram á fyrri hluta næsta árs en frá þeim tíma er gert ráð fyrir að verðbólga hjaðni í takt við maíspána og verði komin í markmið á seinni hluta árs 2026.

Ástandið í alþjóðlegum efnahagsmálum er sem fyrr tvísýnt, ekki síst vegna stríðsátaka í Úkraínu og fyrir botni Miðjarðarhafs. Hagvöxtur í helstu viðskiptalöndum hefur verið lítill og óvissa er um hversu traustum fótum hann hvílir á. Hér á landi hefur hægt á umsvifum í ferðaþjónustu og hagvaxtarhorfur gætu verið of bjartsýnar ef atvinnugreinin gefur enn frekar eftir. Hagvöxtur gæti hins vegar reynst vanmetinn í ljósi mikils uppsafnaðs sparnaðar sem heimilin gætu kosið að ganga hraðar á en spáin gerir ráð fyrir. Töluverð óvissa er einnig um þróun verðbólgu á spátímanum, ekki síst í ljósi laskaðrar kjölfestu verðbólguvæntinga sem gæti valdið því að verðbólga verði þrálátari en spáð er. Þá bætist við óvissa um áhrif boðaðra breytinga á skattlagningu bifreiðanotkunar um næstu áramót á mælda verðbólgu.

Höfundur: Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands og framkvæmdastjóri sviðs hagfræði og peningastefnu.

Greinin kom út 21. ágúst 2024 í Peningamálum 2024/2

Til baka