logo-for-printing

26. september 2024

Fjármálastöðugleiki í hnotskurn

Seðlabankar víða erlendis hafa slakað varfærnislega á peningalegu aðhaldi eftir að verðbólga tók að nálgast markmið á ný og hægja tók á efnahagslegum umsvifum. Óvissa um alþjóðlegar efnahagshorfur er þó áfram mikil. Hér á landi hefur verðbólga verið þrálát. Hægt hefur á efnahagsumsvifum það sem af er ári enda peningalegt aðhald þó nokkurt. Raunvextir, ekki síst til skemmri tíma, hafa hækkað á ný að undanförnu. Áhrif þessa á eignamörkuðum, ekki síst fasteignamarkaði, hafa enn sem komið er verið takmörkuð.

Horfur í ferðaþjónustu, stærstu útflutningsatvinnugrein landsins, hafa versnað. Lítill vöxtur hefur verið í greininni á þessu ári og vísbendingar eru um að meðaldvalartími ferðamanna hafi styst, einkum á landsbyggðinni. Bókunarstaða næstu mánuði er lakari en á sama tíma í fyrra. Hækkun verðlags hefur þar vafalítið áhrif. Framboð á flugi til og frá landinu mun dragast saman á næstu mánuðum, miðað við það sem var á síðasta ári.

Heimili og fyrirtæki hafa á síðustu mánuðum brugðist við hækkandi fjármagnskostnaði, s.s. með því að leita eftir verðtryggðum lánum til að takmarka greiðslubyrði. Vanskil á útlánum bankanna hafa lítið aukist og eru enn sem komið er mjög takmörkuð. Eiginfjárstaða flestra heimila með fasteignalán er sterk enda hefur fasteignaverð hækkað mikið á síðustu árum.

Íbúðaverð er enn hátt á flesta mælikvarða en viðvarandi hagvöxtur, lítið atvinnuleysi, vaxandi kaupmáttur ráðstöfunartekna og aðflutningur fólks til landsins hafa stutt við markaðinn. Umsvif á íbúðamarkaði jukust á vormánuðum, með uppkaupum á íbúðarhúsnæði einstaklinga í Grindavík og afleiddum áhrifum þeirra. Þrátt fyrir það eru nú nánast jafnmargar íbúðir til sölu og um áramót. Á sama tíma hefur nýbyggingum á sölu fjölgað lítillega. Meiri umsvif hafa sett þrýsting á verð íbúðarhúsnæðis og seljast hlutfallslega fleiri íbúðir yfir ásettu verði en fyrir ári. Vaxandi hluti íbúðakaupa er nú fjármagnaður með verðtryggðum lánum. Það styður við umsvif á markaðnum þrátt fyrir hækkandi vexti, að jafnaði styttri lánstíma og takmarkanir lánþegaskilyrða.

Stóru viðskiptabankarnir standa sterkt. Eiginfjárhlutföll þeirra eru há, arðsemi af reglulegumrekstri er góð og vanskil heimila og fyrirtækja takmörkuð. Árlegt álagspróf Seðlabankans bendir til þess að þeir búi yfir miklum viðnámsþrótti gagnvart ytri áföllum. Þung greiðslubyrði lántakenda og minni umsvif í hagkerfinu gætu þó aukið vanskil á næstu misserum. Vanskil eru enn sem komið er að mestu bundin við rekstrarerfiðleika einstaka fyrirtækja. Sterk eiginfjárstaða margra lántakenda veitir svigrúm til endurskipulagningar útlána.

Netógn vex stöðugt og er því afar mikilvægt að aðilar á fjármálamarkaði hafi yfir að ráða öflugu öryggiskerfi gegn netárásum. Greinargóðar áætlanir um viðbrögð við slíkum árásum og um samfelldan rekstur gegna lykilhlutverki svo efla megi viðnámsþrótt og takmarka áhrif netárása á fjármálakerfið. Unnið er að gerð samhæfingaráætlunar fyrir fjármálamarkaðinn með það að markmiði að tryggja snemmbær, samhæfð og skilvirk viðbrögð við rekstraratvikum. Áformað er að koma á laggirnar sérstakri atvikamiðstöð til að einfalda samskipti milli aðila, stytta boðleiðir og minnka áhættu í fjármálakerfinu.

Höfundur: Eggert Þröstur Þórarinsson, aðstoðarframkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs hjá Seðlabanka Íslands. 

Greinin birtist fyrst í Fjármálastöðugleika 2024/2: Fjármálastöðugleiki 2024/2

Til baka