logo-for-printing

07. nóvember 2024

„Flaggskip“ Alþjóðagjaldeyrissjóðsins – staða og horfur í efnahagsmálum, fjármálastöðugleika og ríkisfjármálum

Helstu reglulegu útgáfur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eru gjarnan kallaðar flaggskip sjóðsins (Flagship Publications). Þær eru World Economic Outlook, Global Financial Stability Report og Fiscal Monitor og kynna mat sjóðsins á stöðu og horfum í efnahagsmálum, fjármálastöðugleika og ríkisfjármálum á heimsvísu auk þess að innihalda þjóðhagsspá sjóðsins. Ritin eru gefin út tvisvar á ári samhliða vor- og ársfundum sjóðsins. Hér að neðan er stutt samantekt á meginefni ritanna sem voru gefin út á ársfundi sjóðsins í október 2024.

Greiningar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem koma fram í flaggskipunum nýtast á marga vegu í starfi Seðlabankans. Til að mynda liggja spár sjóðsins um alþjóðahagkerfið ásamt mati hans á stöðu og horfum m.a. til grundvallar greininga bankans á sviðum peningastefnu og fjármálastöðugleika. Einnig gefa sérefniskaflar ritanna innsýn í margvíslega þróun sem vert er að fylgjast með. Sjóðurinn vinnur spá fyrir stök aðildarlönd, þ.m.t. Ísland, sem er einnig hluti af alþjóðlegri þjóðhagsspá sjóðsins í World Economic Outlook. Þá eru greiningar sem koma fram í ritunum ræddar í framkvæmdastjórn sjóðsins og þar hafa aðildarríki tækifæri til að koma sínum skoðunum á framfæri.  

 

World Economic Outlook

Í World Economic Outlook er að finna mat sjóðsins á alþjóðlegum efnahagshorfum ásamt þjóðhagsspá. Að þessu sinni er yfirskrift ritsins Policy Pivot, Rising Threats. Meginniðurstaðan er að horfur séu á hóflegum hagvexti á heimsvísu sem gæti þó orðið minni vegna aukinnar óvissu. Að mati sjóðsins er tímabært fyrir lönd sem hafa náð valdi á verðbólgu að snúa sér að örvun efnahagsstarfseminnar, ná tökum á opinberum skuldum og að stuðla að hagvexti til meðallangs tíma. Stefnuáherslur ættu að beinast að því að tryggja mjúka lendingu í heimshagkerfinu ásamt því að draga úr óæskilegri skuldaþróun margra landa sem leitt hefur til hárra skulda samhliða litlum hagvexti.

Að mati sjóðsins er útlit fyrir að heimshagkerfið nái mjúkri lendingu en verðbólga hefur víða tekið að hjaðna. Heimshagkerfið hefur sýnt viðnámsþrótt á tímum aðgerða gegn verðbólgu og tekist hefur að koma í veg fyrir alþjóðlegan samdrátt. Hagvaxtarspá sjóðsins hefur tekið litlum breytingum frá í vor og gerir sjóðurinn ráð fyrir að hagvöxtur í heimshagkerfinu verði að meðaltali 3,2% bæði í ár og á næsta ári. Hins vegar hefur samsetning hagvaxtar á heimsvísu breyst og ólík þróun stærri hagkerfa jafnast út. Betri efnahagshorfur í Bandaríkjunum og nýmarkaðsríkjum í Asíu hafa vegið á móti lakari horfum hjá mörgum stærstu ríkjum Evrópu. Þá hafa truflanir í framleiðslu og flutningum, aukin átök og óeirðir auk öfga í veðurfari leitt til lakari horfa í Miðausturlöndum, Mið-Asíu og Afríku sunnan Sahara.

Verðbólga hefur hjaðnað hraðar en áður var gert ráð fyrir. Eftir að hafa náð hámarki í 9,4% á þriðja ársfjórðungi 2022 gerir sjóðurinn ráð fyrir að á heimsvísu verði hún 3,5% á næsta ári. Útlit er fyrir að verðbólga nái verðbólgumarkmiðum víðast hvar á næsta ári en að þróuð ríki nái þeim árangri á undan nýmarkaðs- og þróunarríkjum. Þótt fagna beri hjöðnun verðbólgu samhliða horfum á hóflegum hagvexti á heimsvísu til meðallangs tíma gætu efnahagshorfur þróast til verri vegar, m.a. vegna aukinnar áhættu tengdri sundrun heimshagkerfisins (e. geoeconomic fragmentation), aukinna átaka víða um heim og verndarstefnu í viðskiptum. Sviptingar á fjármálamörkuðum síðasta sumar hafa einnig vakið áhyggjur um mögulega dulda veikleika í fjármálakerfum. Þá ríkir óvissa um viðeigandi taumhald peningastefnu í löndum þar sem verðbólga er þrálát þótt merki um kólnun hagkerfisins séu komin fram.

Sjóðurinn leggur áherslu á að í ríkjum sem hafa náð stjórn á verðbólgu hugi seðlabankar að því að stuðla að auknum efnahagsumsvifum; að stefna um skuldalækkun sé trúverðug og viðhaldi hagvexti; og að unnið verði að kerfisumbótum sem auka hagvöxt til meðallangs tíma.

Sjá skýrsluna World Economic Outlook á vefsíðu AGS.

 

Global Financial Stability Report

Í Global Financial Stability Report er að finna mat Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á helstu veikleikum og áhættuþáttum fyrir stöðugleika alþjóðafjármálakerfisins. Megin markmið útgáfunnar er að greina fjármálastöðugleika og vekja athygli á aðgerðum sem gætu dregið úr kerfisbundinni áhættu og þar með líkum á fjármálaáfalli og þannig stuðlað að fjármálastöðugleika og hagvexti í aðildaríkjum sjóðsins. Að þessu sinni er yfirskrift ritsins Steadying the Course: Uncertainty, Artificial Intelligence and Financial Stability.

Að mati sjóðsins hefur árangur varðandi hjöðnun verðbólgu og horfur á mjúkri lendingu í heimshagkerfinu dregið úr hættu á fjármálaóstöðugleika, a.m.k. til skemmri tíma. Flestir seðlabankar eru byrjaðir að lækka stýrivexti sem hefur bætt stöðu lántakenda. Eftir tímabundnar sviptingar á fjármálamörkuðum í ágúst sl. hefur flökt minnkað og verið lítið í seinni tíð. Nýmarkaðsríki hafa sýnt viðnámsþrótt þegar þrýstingur hefur myndast á gjaldmiðla þeirra til lækkunar. Í skýrslunni er lögð áhersla á að mikil óvissa ríki í alþjóðlegum efnahags- og stjórnmálum. Að undanförnu hafi sambandið á milli aukinnar óvissu og flökts á fjármálamörkuðum veikst sem valdi áhyggjum. Kæmi til mikilla verðleiðréttinga á fjármálamörkuðum af völdum ríkjandi óvissu gæti það haft töluvert neikvæðar afleiðingar. Sviptingarnar sem urðu á fjármálamörkuðum sl. sumar minna á hversu hratt flökt á mörkuðum getur aukist við skilyrði mikillar eða vaxandi óvissu og gefur innsýn í hversu öfgafull viðbrögðin geta orðið. Eignaverð gæti lækkað hratt ef fjárfestar færa sig úr áhættusömum eignum í öruggari eignir. Hagstæðari fjármálaskilyrði í formi lækkandi vaxta, hafa dregið úr áhættu til skemmri tíma en gætu þó aukið hana til meðallagstíma, sérstaklega þar sem eignaverð er víða hátt, skuldir einkageira og ríkja hafa haldið áfram að vaxa og fjármálafyrirtæki, önnur en bankar, beita vogun (e. leverage) í auknum mæli. Þessir þættir gætu aukið áhættu í framtíðinni.

Til þess að draga úr óvissu er mikilvægt að peningastefna sé gagnsæ. Í löndum þar sem verðbólga hefur reynst þrálát og yfir markmiði þarf peningastefnan að vera skýr og forðast að skapa væntingar um ótímabærar vaxtalækkanir. Komi fram vísbendingar um tekið sé að draga úr hagvexti og umsvifum ættu seðlabankar að smám saman að draga úr taumhaldi peningastefnu í átt að hlutlausu stigi. Enn fremur væri hægt að draga úr neikvæðum áhrifum óvissu á efnahagshorfur með viðeignandi stefnu og aðgerðum á sviði ríkisfjármála og þjóðhagsvarúðar. Tilkoma gervigreindar hefur haft ýmis konar jákvæð áhrif, til að mynda með því að draga úr kostnaði og auka skilvirkni. Hins vegar gæti aukin útbreiðsla og notkun gervigreindar á fjármálamörkuðum aukið áhættu fyrir fjármálastöðugleika með því að auka flökt og draga úr gagnsæi.

Sjá skýrsluna Global Financial Stability Report á vefsíðu AGS.

 

Fiscal Monitor

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn fjallar um mál sem snúa að opinberum fjármálum í Fiscal Monitor en í ritinu er að finna yfirlit sjóðsins yfir nýlega þróun í fjármálum hins opinbera, mat á horfum í opinberum fjármálum og á fjármálalegum áhrifum af opinberri stefnu á heimsbúskapinn. Að þessu sinni er yfirskrift skýrslunnar Putting a Lid on Public Debt. Lögð er sérstök áhersla á mikilvægi þess að ná tökum á opinberum skuldum og að endurbyggja svigrúm opinberra fjármála.

Í ritinu kemur fram að halli hins opinbera sé víða mikill og opinberar skuldir séu mjög háar og fari vaxandi á heimsvísu. Á núverandi hraða munu opinberar skuldir á heimsvísu nálgast 100% af vergri landsframleiðslu fyrir lok áratugarins og munu fara fram úr hágildi sínu í kórónuveirufaraldrinum. Þó er nokkuð ólík þróun á milli landa. Þrátt fyrir að sjóðurinn spái því að ríkisskuldir muni ná jafnvægi eða lækka hjá tveimur þriðju aðildarlanda, þá standa þau lönd þar sem gert er ráð fyrir að skuldir muni ekki ná jafnvægi undir meira en helmingi ríkisskulda á heimsvísu. Þá eru talsverðar líkur á að skuldir ríkja gætu orðið meiri en sjóðurinn gerir ráð fyrir nú enda hefur víða verið mikill þrýstingur til aukinna ríkisútgjalda. Óvissa varðandi stefnu í ríkisfjármálum hefur aukist og takmarkaður vilji hefur verið til að mæta auknum útgjöldum með hækkun skatta eða annarri aukningu tekna. Þá hefur verið aukinn þrýstingur á útgjaldahliðinni til að mæta t.d. þörfum tengdum grænni umbreytingu, öldrun þjóða og þjóðaröryggi. Þá hafa spár um þróun ríkisskulda sögulega oft reynst of bjartsýnar.

Sjóðurinn telur að þörf sé á meiri aðlögun í ríkisfjármálum á heimsvísu en núverandi áætlanir ríkja gera ráð fyrir til að koma ríkisskuldum í jafnvægi eða ná fram lækkun þeirra. Í ritinu er lögð áhersla á að tímabært sé að endurbyggja svigrúm í ríkisfjármálum á máta sem stuðlar að hagvexti samhliða því að ná tökum á ríkisskuldum. Nauðsynlegt sé að tryggja sjálfbærar ríkisskuldir en tafir á nauðsynlegri aðlögun geta orðið kostnaðarsamar og aukið líkur á að ríkisskuldir verði ósjálfbærar. Hjöðnun verðbólgu og væntingar um lausara taumhald peningastefnu hjálpa til við að mæta áhrifum aukins aðhalds í ríkisfjármálum.

Sjá skýrsluna Fiscal Monitor á vefsíðu AGS.

Höfundur: Kristín Arna Björgvinsdóttir, sérfræðingur á skrifstofu bankastjóra.

Til baka