'Verðbólgan er versti óvinurinn,' segir Birgir Ísl. Gunnarsson í ræðu á fundi Verslunarráðs
Góðir fundarmenn.
Ég ætla að byrja þessa umræðu í dag með því að fjalla um
verðbólguna. Bæði er það að meginverkefni Seðlabanka Íslands er að hafa hemil á
verðbólgunni og tryggja stöðugt verðlag og svo hitt að mér hefur fundist að í
umræðunni að undanförnu um vexti og peningastefnu Seðlabankans hafi menn lítið
fjallað um verðbólguna, skautað þar létt yfir og jafnvel látið eins og hún sé
ekki til og a.m.k. stafi ekki af henni nein
hætta.
Þann 27. mars sl. var umgerð
peningastefnunnar hér á landi breytt á þann veg að í stað markmiðs um að halda
gengi innan tiltekinna marka var Seðlabanka Íslands sett verðbólgumarkmið, sem
birt var í sameiginlegri yfirlýsingu ríkisstjórnar og Seðlabanka Íslands.
Samkvæmt því skal að því stefnt að verðbólga, mæld sem hækkun vísitölu
neysluverðs á 12 mánuðum, sé því sem næst 2½%. Skilgreind voru þolmörk sem leyfa
1½% frávik til hvorrar áttar frá verðbólgumarkmiði frá árinu 2003. Til loka
þessa árs og á næsta ári verða efri þolmörkin þó rýmri. Á þessu ári eru þau 6%
og 4 ½% á því næsta. Fari verðbólgan út fyrir þolmörkin skal Seðlabankinn senda
ríkisstjórninni greinargerð um ástæður þess að það gerðist, hvernig bankinn
hyggst bregðast við og hve langan tíma hann telur að það muni taka að ná
verðbólgunni inn fyrir mörkin að nýju. Við verðmælingu í júní sl. hafði
verðbólgan hafði farið út fyrir þolmörk þessa árs og hún reyndist 6,8% á tólf
mánuðum. Greinargerð var því samin og send ríkisstjórninni og birt opinberlega.
Meginniðurstöður hennar voru eftirfarandi:
1. Til þess að markmið um 2½%
verðbólgu á árinu 2003 náist verður að koma í veg fyrir víxlhækkanir verðlags,
launa og erlends gjaldeyris. Komi ekki til breytinga á núgildandi kjarasamningum
voru horfur á að verðbólga yrði nálægt 2½% um mitt ár 2003, jafnvel þó gengi
krónunnar hækkaði ekki frá því sem það var um miðjan júní.
2.
Mánaðarlegar hækkanir vísitölu neysluverðs höfðu líklega náð hámarki kæmi ekki
til frekari lækkunar á gengi krónunnar. Tólf mánaða hækkanir myndu hins vegar
halda áfram að aukast a.m.k. fram á haustið.
3. Laun hafa hækkað langt
umfram framleiðniaukningu og viðunandi verðbólgu á undanförnum árum. Þessi þróun
er veigamesti þátturinn að baki vaxandi verðbólgu. Hún á rætur að rekja til
mikillar innlendar eftirspurnar. Miklar launahækkanir stuðluðu - ásamt
skattalækkunum og útlánaþenslu - að viðskiptahalla.
4 Lækkun gengisins á
undanförnum mánuðum er nærtækasta skýring þess að verðbólga er nú fyrir ofan
þolmörk verðbólgumarkmiðs. Sú lækkun á hins vegar rætur að rekja til hins mikla
ójafnvægis sem magnast hefur í íslenskum þjóðarbúskap og birtist m.a. í
óhóflegum viðskiptahalla.
5. Breytingin sem gerð var á umgjörð
peningastefnunnar undir lok mars sl. skýrir ekki þá gengislækkun og vaxandi
verðbólgu sem átt hefur sér stað upp á síðkastið. Breytingin var gerð í ljósi
þess að hið nýja kerfi hentaði íslenskum aðstæðum betur til frambúðar og að
sjálfstæð fastgengisstefna er mjög erfið í framkvæmd þegar fjármagnshreyfingar
eru óheftar. Þrýstingur á gengið hafði verið viðvarandi um hríð og nánast
útilokað hefði verið fyrir Seðlabankann að halda því mikið lengur innan vikmarka
með inngripum á gjaldeyrismarkaði.
Þá var gerð grein fyrir því að
Seðlabankinn hefði ákveðið að halda vöxtum sínum óbreyttum enda þótt aukin
verðbólga og verðbólguvæntingar gæfu tilefni til vaxtahækkana. Jafnframt beindi
Seðlabankinn því til stjórnvalda að ekki væri tímabært að grípa til
eftirspurnarhvetjandi aðgerða. Aðgerðir sem styrktu framboðshlið hagkerfisins,
þ.e. ykju framboð framleiðsluþátta eða vinnuafls og fjármagns, ykju framleiðni
og efldu sparnað myndu hins vegar samtímis skapa forsendur varanlegs hagvaxtar
og styðja við verðbólgumarkmiðið.
Síðan greinargerðin var samin hafa
birst tvær verðmælingar, í júlí og ágúst, sem styðja m.a. þá niðurstöðu
Seðlabankans, að mánaðarlegar verðhækkanir hefðu náð hámarki en að tólf mánaða
taktur verðbólgunnar myndi halda áfram að aukast um tíma. Hann er nú
7,9%.
Í byrjun þessa mánaðar kynnti Seðlabankinn nýja verðbólguspá en
bankinn birtir verðbólguspár opinberlega ársfjórðungslega. Nú er gert ráð fyrir
að verðbólga verði 8,1% frá upphafi til loka ársins 2001 og 2,9% yfir næsta ár.
Verðbólgumarkmiðinu verði náð á miðju ári 2003. Er ráð fyrir því gert að í
byrjun næsta árs verði hækkanir vegna gengislækkunar að verulegu leyti gengnar
yfir. Samkvæmt því mun draga hratt úr verðbólgu á næsta ári að því gefnu að ekki
komi til frekari gengislækkunar, að kjarasamningar haldi og að hægi á vexti
innlendrar eftirspurnar. Hækkun á gengi krónunnar frá miðjun júní og hóflegri
verðbólguvæntingar eru meginskýringar þess að verðbólguhorfur bötnuðu frá því að
greinargerðin til ríkisstjórnarinnar var samin í júní sl.
Spá
Seðlabankans um verðbólgu frá upphafi til loka þessa árs og á milli ára er nú
svipuð og hjá ýmsum markaðsaðilum en lægri en hjá Þjóðhagsstofnun frá júlí sl..
Í maí sl. voru verðbólguvæntingar almennings 6% sem er nokkuð í takt við reynslu
af fyrri könnunum. Verðbólguvæntingar almennings virðast að jafnaði örlitlu
hærri en verðbólguspá Seðlabankans. Verðbólguálag á ríkisskuldabréf virðast
einnig vera nokkuð í takt við spá bankans.
Þróun næstu missera ræðst að
verulegu leyti af þremur þáttum, þ.e. þróun gengis krónunnar, hvort
kjarasamningar verði endurskoðaðir til hækkunar á næsta ári og hve hratt
ofþensla eftirspurnar hjaðnar á næstunni. Þessa þætti ætla ég að ræða nokkru
nánar.
Mjög mikilvægur óvissuþáttur snýr að launahækkunum og hugsanlegri
endurskoðun kjarasamninga á næsta ári. Laun hafa hækkað langt umfram
framleiðniaukningu og viðunandi verðbólgu á undanförnum árum, sem rekja má m.a.
til mjög mikillar eftirspurnar eftir vinnuafli sakir þeirrar ofþenslu sem ríkt
hefur. Samningsbundin laun á almennum markaði hafa hækkað um 24% frá 1997 og um
rúm 31% með launaskriði. Þessi hækkun launakostnaðar á veigamikinn þátt í
gengislækkun krónunnar og aukinni verðbólgu á undanförnum misserum. Raunlaun
hafa hækkað verulega á undanförnum árum og á síðasta ári var hlutur launa í
þjóðartekjum orðinn næstum eins hár og á ofþensluárunum 1987 og 1988.
Seðlabankinn telur því ekki efnahagslegar forsendur fyrir launahækkunum á næsta
ári umfram þegar gerða kjarasamninga og raunar má segja að ef efnt verður til
launahækkana fyrri hluta næsta árs aukast til muna líkur á nýrri
verðbólguhrinu.
Gengi krónunnar var sett á flot í mars síðastliðnum. Í
júní var gengi krónunnar að meðaltali 13% lægra en í mars. Í ágústmánuði hefur
gengið verið 10,4% lægra að meðaltali en í mars miðað við gærdaginn. Með öðrum
orðum, gengið lækkaði allverulega á vormánuðum, en hefur nokkuð rétt úr kútnum
og styrkst nú á sumarmánuðum.
Seðlabankinn telur að fátt bendi til þess
að raungengi krónunnar hafi á fyrri hluta þessa árs vikið umtalsvert frá
langtímajafnvægisstöðu. Í júní í ár mældist raungengi á verðlagskvarða hið
lægsta frá því í júní árið 1983. Í ljósi sögulegrar reynslu verður því að telja
líklegt að raungengi muni hækka á ný, annað hvort fyrir tilstilli gengishækkunar
eða aukinnar verðbólgu, nema hvort tveggja komi til. Seðlabankinn telur horfur í
gengismálum næstu mánuði óvissar þótt styrking sé líkleg til lengri tíma litið.
Ef litið er yfir sviðið um þessar mundir má sjá að aðstæður sem ýmist gætu leitt
til hækkunar eða frekari lækkunar togast á. Þar má nefna viðskiptahallann sem
felur enn í sér töluverða þörf fyrir erlent fjármagn, þótt verulega hafi dregið
úr þörf fyrir lánsfé á fyrsta fjórðungi ársins vegna minni kaupa á erlendum
verðbréfum og sú þróun hefur haldið áfram nú yfir sumarmánuðina. Þá eru
vísbendingar um að viðskiptahallinn í ár verði minni en spáð var í byrjun
sumars.
Á móti kemur aukinn skammtímavaxtamunur við útlönd sem að
undanförnu hefur verið tæplega 7% ef miðað er við þriggja mánaða ríkisvíxla, en
nokkru meiri ef miðað er við peningamarkaðsvexti. Þessi vaxtamunur gefur
fjárfestum töluverðan hvata til að kaupa fremur íslensk verðbréf.
Stofn
erlendra verðbréfaeignar Íslendinga er orðinn nokkuð stór. Fari þeir sem
ráðstafa þessum eignum að eygja styrkingu krónunnar hafa þeir ærna ástæðu til að
auka vægi innlendra eigna í söfnum sínum.
Ljóst er að vilji
Seðlabankans stendur til styrkingar á gengi krónunnar frá núverandi gengi þótt
bankinn muni einungis grípa inn í markaðinn þegar brýn ástæða er til eða þegar
hann telur að inngrip séu líkleg til að skila varanlegum árangri.
Við
skulum þá aðeins líta á spennuna og umsvifin í hagkerfinu en það er mikilvæg
forsenda þess að verðbólguspá Seðlabankans standist að framleiðsluspenna minnki
eins og ég hef áður vikið að. Nýjustu tölur benda til að umsvif í hagkerfinu
hafi verið mun meiri á fyrri hluta ársins en umræða um efnahagsmál að undanförnu
gæti gefið tilefni til að ætla. Hagvöxtur á fyrri hluta ársins hefur líklega
ekki farið niður fyrir vöxt framleiðslugetu og því alls óvíst að
framleiðsluspennan hafi slaknað. Þjóðhagsstofnun birti ekki alls fyrir löngu
ársfjórðungslega þjóðhagsreikninga frá árinu 1997 til fyrsta fjórðungs í ár.
Samkvæmt því uppgjöri var landsframleiðsla á fyrsta ársfjórðungi rúmlega 7½%
meiri en á sama tíma í fyrra og átti það einkum rætur að rekja til kröftugs
útflutnings og mikillar aukningar fjármunamyndunar, en einkaneysla dróst
lítillega saman. Hafa verður vissa fyrirvara á þessum tölum, en ljóst er þó að
umsvif hafa enn verið að aukast á fyrstu mánuðum ársins. Tölur um veltu eftir
atvinnugreinum sem byggðar eru á virðisaukaskattsinnheimtu styðja þessa ályktun.
Fyrstu fjóra mánuði ársins var heildarvelta nærri 7% meiri að raungildi en á
sama tíma í fyrra. Eins og áður hefur komið fram var útflutningur mjög öflugur
fyrstu fimm mánuði ársins, einkum vegna áls og sjávarafurða. Velta
innanlandsgreina án eldsneytis var hins vegar um 3% meiri að raungildi en á sama
tíma í fyrra, sem er svipuð aukning og árið áður. Það á að verulegu leyti rætur
að rekja til mikillar aukningar veltu í byggingarstarfsemi og þjónustu, en
smásöluverslun stóð nánast í stað að raungildi. Raunvelta í iðnaði án stóriðju
og sjávarútvegs var 4½% meiri en á sama tíma í fyrra sem er meiri veltuaukning
en þá mældist. Athygli vekur einnig í þessu sambandi að velta í mars ' apríl
hafði í innanlandsgreinum aukist heldur meira frá fyrra ári en veltan í janúar
og febrúar. Raunveltuaukning í greiðslukortum á fyrstu sex mánuðum ársins er um
5,8%, þ.e. 3,7% í debetkortum og 10,6% í kreditkortum Engin merki eru enn að
finna í þessum tölum um samdrátt í efnahags-lífinu og rímar það vel við
vísbendingar af vinnumarkaði sem ég mun nánar fjalla um hér á eftir. Framvindan
það sem af er þessu ári staðfestir því ekki það sem gjarnan var haldið fram í
almennri umræðu fyrr á árinu að verulega væri tekið að draga úr umsvifum í
efnahagslífinu. Kannanir bankans á líklegum framkvæmdum og umsvifum á komandi
vetri benda ekki til þess að snögg umskipti séu í vændum á næstu
mánuðum.
Atvinnuleysistölur fyrir júlí hafa nýlega verið birtar.
Atvinnuleysi var að meðaltali 1,1% samanborið við 1,2% í júní. Í júlí í fyrra
var atvinnuleysi einnig 1,1%, þ.e. engin slökun milli ára. Undanfarna tólf
mánuði hefur atvinnuleysi að meðaltali verið 1,3%. Mun fleiri atvinnuleyfi voru
gefin út til útlendinga á fyrri helmingi ársins en á sama tíma í fyrra. Þessar
tölur benda til þess að enn sé mikil spenna á vinnumarkaði, sem eykur hættu á
launaskriði.
Á almennum vinnumarkaði var launaskrið rúmlega helmingi
meira milli fyrstu fjórðunga áranna 2000 og 2001 ef tekið er mið af pöruðu
úrtaki Kjararannsóknanefndar en ekki hækkun launavísitölu. Á öðrum fjórðungi
ársins höfðu laun á almennum vinnumarkaði hækkað um 8,1% á einu ári samkvæmt
launavísitölu, en það felur í sér 2,1% hækkun umfram kjarasamninga, sé miðað við
samninga stærstu launþegahópanna. Launaskrið mældist því hið sama og á fyrsta
fjórðungi ársins á mælikvarða launavísitölu. Samkvæmt úrtaki
Kjararannsóknanefndar var hins vegar 4½% launaskrið á fyrsta ársfjórðungi.
Samkvæmt því úrtaki höfðu raunlaun á almennum vinnumarkaði hækkað um 9,3%. Mikil
spenna á vinnumarkaði eykur að sjálfsögðu hættu á auknu launaskriði sem er
líklegt til að kynda undir aukna verðbólgu.
Það ánægjulega í þróun
undanfarinna mánaða er að ótvírætt hefur dregið úr vexti útlána innlánsstofnana.
Nýjar tölur um áætlaða breytingu útlána innlánsstofnana á milli júní og júlí sl.
benda til þess að útlán hafi dregist saman um 1,12% milli mánaða þegar leiðrétt
hefur verið fyrir breytingum gengis og verðlags. Er þetta í fyrsta sinn sem
slíkar tölur hafa sést í mjög langan tíma. Aukning síðustu tólf mánaða var 10,6%
með samsvarandi leiðréttingum og samsvarandi aukning síðustu sex mánaða var 5%.
Hér er hins vegar ekki leiðrétt fyrir lánum til erlendra aðila. Í lok júlí hafði
peningamagn og sparifé M3 vaxið um 12% á tólf mánuðum og hefur vöxtur þess lítið
breyst í heilt ár.
Í umræðum um vaxtamál hér á landi hefur gjarnan verið
vísað til þess sem gerist í öðrum löndum, bæði almennt í viðskiptalöndum okkar
og einnig hefur þróun í Bandaríkjunum sérstaklega verið á dagskrá. Í umræðunni
um vaxtamál hefur mátt skilja að svo háir vextir hér á landi og í svo langan
tíma væri algerlega séríslenskt fyrirbæri. Það er að vísu svo að um þessar
mundir eru vextir mun hærri hér en í helstu viðskiptalöndum, enda viðfangsefnin
í efnahagsmálum allt önnur en hjá viðskiptaþjóðum okkar vegna misgengis
hagsveiflunnar. Hins vegar er fróðlegt að skoða, hvað aðrar þjóðir telja sig
þurfa að gera þegar mikil þensla herjar á þær. Skammtímavextir í Bretlandi, þ.e.
raunvextir, voru að meðaltali 7,1% í tuttugu og níu mánuði á árunum 1990 ' 1992
og fóru reyndar hæst í 9,2%. Í Þýskalandi voru skammtímaraunvextir 7% að
meðaltali í ellefu mánuði 1990 til 1991. Í Svíþjóð voru slíkir vextir að
meðaltali 7,7% í tuttugu og sex mánuði, frá febrúar 1985 til mars 1987 og fóru
hæst í 11% á því ári. Þetta eru aðeins nokkur dæmi en nefna mætti sambærileg
tilvik frá Bandaríkjunum, Frakklandi, Ítalíu, Kanada og fleiri löndum. Á Íslandi
fóru raunvextir Seðlabanka Íslands yfir 5½% snemma árs 2000 en niður fyrir
aftur í vor vegna verðbólguskots. Þeir fóru síðan upp í lok júlí og eru nú um
6½%. Ef litið er framhjá dýfunni í vor er tímabilið rúmlega eitt og hálft ár eða
átján mánuðir hér á landi. Í öllum tilvikum er miðað við raunvexti sem eru
reiknaðir með því að nota verðbólgutölur sex mánuði aftur og sex mánuði fram.
Þessir háu vextir tímabundið á Íslandi eru því ekkert einsdæmi þegar þjóðir
telja sig þurfa að glíma við ofþenslu í efnahagslífinu.
Margir hafa borið
saman framkvæmd peningastefnunnar á Íslandi og í Bandaríkjunum á undanförnum
misserum. Bandaríski seðlabankinn hefur lækkað vexti oft að undanförnu og margir
hafa vitnað í það sem fordæmi fyrir Seðlabanka Íslands til að fara sömu leið.
Margt ber þó á milli í efnahagslífi Bandaríkjanna og Íslands. Í þessari töflu er
sýndur samanburður á efnahagsástandi í Bandaríkjunum og á Íslandi eins og hann
var undir lok júlí og skal ég fara fljótt yfir sögu. Nýjustu tölur um verðbólgu
í Bandaríkjunum eru 3,6% en 7,9% á Íslandi. Í Bandaríkjunum er spáð verðbólgu
milli áranna 2000 og 2001 3,1% en 6,4% á Íslandi. Hækkun launa árið 1996 til
2000 hefur verið 12,7% í Bandaríkjunum en 31,4% á Íslandi þegar launaskrið hefur
verið meðtalið. Meðal hagvöxtur áranna 1996 til 2000 hefur verið 3,4% í
Bandaríkjunum en 4,5% á Íslandi. Spáð er hagvexti upp á 0,7% á þessu ári í
Bandaríkjunum en tæplega 2% á Íslandi. Vöxtur útlána í Bandaríkjunum hefur verið
nokkuð ör á undanförnum árum. Á árunum 1998 og 1999 var tólf mánaða vöxtur
útlána bandarískra lánastofnana til innlendra fyrirtækja á bili 6,5 ' 7%.
Töluvert dró úr vextinum á síðastliðnu ári og hefur hann nýlega verið á bilinu
4,5 ' 5%. Til samanburðar hefur útlánaaukning íslenska lánakerfisins numið
u.þ.b. 20% undanfarið ár og útlán innlánsstofnana jukust um tæp 35% þegar
vöxturinn náði hámarki árið 1999. Síðan þá hefur útlánavöxtur innlánsstofnana
hér á landi ekki farið verulega niður fyrir 25% en hluta vaxtarins undanfarið ár
má reyndar rekja til sjálfkrafa uppfærslu gengistryggðra og verðtryggðra lána.
Ef tekið er tillit til þeirra hefur útlánaaukningin verið 12 ' 13% sem er mun
hærri tala en í Bandaríkjunum. Af framangreindu má ljóst vera að aðstæður í
íslenskum efnahagsmálum eru mjög frábrugðnar þeim bandarísku. Gott er að leita
fyrirmynda hjá öðrum þjóðum en það má þó alls ekki verða til að leiða menn af
vegi.
Góðir fundarmenn,
Ástæðan fyrir því að Seðlabankanum eru sett
þau markmið að stuðla að lítilli verðbólgu ' í raun án tillits til annarra
markmiða 'er sú að reynsla bæði Íslendinga og annarra þjóða sýnir að til lengdar
er það best fyrir hagvöxt og lífskjör að verðbólga sé lítil. Verðbólgan er
versti óvinur fyrirtækja og heimila. Þetta er alþjóðlega viðurkennd stefna og
því hefur seðlabönkum um allan heim verið sett það markmið að halda verðbólgu í
skefjum. Af þessum ástæðum hefur Seðlabanki Íslands nú um alllangt skeið rekið
aðhaldssama stefnu í peningamálum. Ég get vel fallist á að það eru ýmis teikn á
lofti um að tekið sé að draga úr ofþenslunni hér á landi. Sú mynd er þó fjarri
því að vera skýr og ótvíræð. Við skulum hafa í huga að það skiptir afar miklu
máli hvenær slökunaraðgerðir eru tímasettar. Bráðlæti í þeim efnum getur gert
illt verra. Þess vegna komst Seðlabankinn að þeirri niðurstöðu í greiningu sinni
í byrjun ágúst að ekki væri tilefni til að lækka vexti frekar í bráð. Í þeirri
greiningu var bæði litið um öxl og fram á veg. Sú niðurstaða stendur enn.
Ræða Birgis Ísl. Gunnarssonar á fundi Verslunarráðs Íslands
miðvikudaginn
29. ágúst 2001