Ræða Birgis Ísl. Gunnarssonar á morgunverðarfundi Verslunarráðs
Birgir Ísleifur Gunnarsson, formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands flutti ræðu á morgunverðarfundi Verslunarráðs Íslands miðvikudaginn 22. maí 2002. Ræðan er birt hér á vef Seðlabanka Íslands. Í lok ræðunnar má sjá tengil á myndir sem Birgir notaði til skýringar með ræðu sinni:
Góðir fundarmenn
Í fundarboði eru þrjár spurningar settar fram en þær eru: Hverjar eru horfur í verðlagsmálum' Lækka vextir frekar' Hvernig kemur staða gengis við atvinnulífið'
Ég mun leitast við að svara þessum spurningum á þeim tíma sem ég hef hér til umráða og byrja á verðlagsmálunum, enda er það meginhlutverk Seðlabanka Íslands samkvæmt lögum að stuðla að stöðugu verðlagi.
Það sem af er þessu ári hefur dregið hratt úr 12 mánaða hækkun vísitölu neysluverðs. Verðbólga þannig mæld náði hámarki í janúar, þegar hún var 9,4%, sem var mesta verðbólga sem mælst hafði frá október 1990. Nú í maí reyndist 12 mánaða verðbólgan 5,9%. Þegar verðbólga jókst á Íslandi á liðnu ári dró heldur úr henni í helstu viðskiptalöndunum. Það sem af er þessu ári hefur hún verið að meðaltali 1½%-2% í viðskiptalöndunum en nokkru hærri í Evrópu eða u.þ.b. 2½% á Evrusvæðinu.
Um verðbólguna á síðastliðnu ári þarf ekki að fjölyrða að þessu sinni. Um ástæður hennar hefur verið fjallað ítarlega áður, m.a. á morgunverðarfundum hér hjá Verslunarráði Íslands. Ég ætla fyrst og fremst að beina athyglinni að þeim umskiptum í verðlagsmálum sem hafa orðið á þessu ári, ástæðum þeirra og hversu varanlegar þær eru.
Þjónusta á almennum markaði vegur tæplega fjórðung í vísitölu neysluverðs. Í maí hafði hún hækkað um 8,9% á tólf mánuðum og hefur því átt drjúgan þátt í verðbólgunni. Almenn þjónusta er næm fyrir launahækkunum en athyglisvert er að hún hefur staðið í stað síðustu þrjá mánuði. Verð opinberrar þjónustu hefur undanfarna þrjá mánuði lækkað lítillega og gætir þar aðgerða stjórnvalda. Þá eru í maí fyrst skýr merki um lækkun á húsnæðisverði, en húsnæðisliður vísitölunnar hefur hækkað jafnt og þétt alllangt skeið.
Aðhaldsstefna Seðlabankans í peningamálum hefur skapað forsendur til minnkandi verðbólgu. Það sem af er þessu ári hefur þrennt stuðlað að hjöðnun verðbólgu: Hækkun gengis krónunnar frá nóvemberlokum, hjöðnun eftirspurnarspennu og aðgerðir Alþýðusambands Íslands sem miðuðu að því að veita verslun og opinberum aðilum aðhald í verðákvörðunum.
Þrýstingur ASÍ á veitendur opinberrar þjónustu hefur leitt til a.m.k. ½% lægri vísitölu neysluverðs en ella. Vandasamara er að meta hve mikil áhrifin hafa verið á verslun því erfitt er að greina þau frá öðrum þáttum sem hafa stuðlað að minni verðhækkunum eða lægra verði á sama tíma. Minni eftirspurn eftir varanlegum og hálfvaranlegum vörum takmarkar svigrúm verslunarinnar til verðhækkunar.
Á mynd má sjá að enn vantar nokkuð á að gengislækkunin sem varð á síðasta ári hafi komið fram í verði á varanlegri og hálfvaranlegri innfluttri vöru. Þetta ásamt öðru hvetur til nokkurrar varfærni í ákvörðun vaxta en vera kann að þessi áhrif komi aldrei fram, að þetta bil sem þarna sést lokist ekki m.a. vegna aukinnar samkeppni í verslun.
Seðlabankinn birtir ársfjórðungslega verðbólguspá og var síðasta spá birt nú í byrjun maí. Við skulum fyrst líta á helstu forsendur hennar. Gert er ráð fyrir að laun breytist í samræmi við kjarasamninga en nú er gert ráð fyrir minna launaskriði en í fyrri spám. Að undanförnu hafa komið fram skýrari vísbendingar en áður um að spenna á vinnumarkaði og í þjóðarbúskapnum í heild sé að breytast í slaka. Þetta endurspeglast í minna launaskriði síðustu mánuði en undanfarin ár. Því er nú gert ráð fyrir að launaskrið yfir þetta ár verði aðeins ½% og að það verði ekkert yfir árið 2003. Í síðustu spá var hins vegar gert ráð fyrir 1% launaskriði yfir hvort ár um sig. Yfir árið 2004 er reiknað með 1% launaskriði, sem ætla má að geti gerst við þokkalegt jafnvægi í þjóðarbúskapnum. Forsendur um framleiðnivöxt árið 2002-2003 eru óbreyttar frá síðustu spá. Forsendur um þróun innflutningsverðlags í erlendri mynt taka mið af útreikningum og spám Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og OECD um þróun og horfur verðlags í alþjóðaviðskiptum og framvirku verði á olíu á heimsmarkaði. Að venju er gert ráð fyrir að gengi krónunnar haldist óbreytt frá spádegi, en þegar spáin var gerð var vísitala gengisskráningar 133 stig. Hún hefur reyndar hækkað frá þessu gildi og var við skráningu í gær 129,4 stig.
Að öllum þessum forsendum gefnum er spáð 2,8% verðbólgu frá upphafi til loka þessa árs sem er lítillega minni verðbólga en spáð var í febrúar. Hins vegar munar meiru á spánni yfir árið 2003. Nú er spáð 2,3% verðbólgu, en 3% í síðustu spá. Gert er ráð fyrir að verðbólga verði komin inn fyrir 4½% þolmörkin í haust, og haldist undir 4% þolmörkunum á árinu 2003 og verði kominn niður í 2½% verðbólgumarkmiðið í lok ársins 2003 og fari undir markmiðið snemma árs 2004 með óbreyttri peningastefnu.
Spám fylgir alltaf nokkur óvissa og því meiri sem lengra er spáð fram í tímann og þess vegna eru á þessari mynd sýnd óvissumörk. Ég mun ekki skýra þau nánar hér en vísa til ítarlegrar umfjöllunar í Peningamálum sem birt voru á heimasíðu bankans í byrjun maí og koma út á prenti á morgun.
Ég ætla þá að víkja að vísbendingum um að verulega hafi slaknað á þeirri spennu sem var í efnahagslífinu allar götur fram á seinni hluta ársins 2001. Skýr teikn hafa komið fram á undanförnum mánuðum um að verulega sé farið að slakna á spennu á vinnumarkaði. Aukið atvinnuleysi í lok síðasta árs og það sem af er þessu ári bendir til að dregið hafi úr umframeftirspurn eftir vinnuafli. Frá apríl í fyrra til sama mánaðar í ár jókst atvinnuleysi úr 2,1% í 3,2%. Atvinnuþátttaka minnkaði og fjöldi vinnustunda í viku minnkaði úr 43,7 í 42,8 á þessum 12 mánuðum. Þessi þróun vekur spurningu um hvort þegar hafi myndast slaki á vinnumarkaði. Að árstíðarleiðrétt atvinnuleysi skuli enn vera við lægri mörk áætlaðs jafnvægisatvinnuleysis sem gæti verið 2½-3½%, bendir ekki til að svo sé með óyggjandi hætti. Minnkandi spenna á vinnumarkaði hefur leitt til þess að launaskrið hefur verulega minnkað eins og ég hef þegar nefnt og raunar svo að ekkert launaskrið mældist á milli fjórða ársfjórðungs 2001 og fyrsta ársfjórðungs 2002, og vísbendingar eru um neikvætt launaskrið einstakra hópa.
Ýmsar aðrar vísbendingar má nefna sem benda til að verulega hafi slaknað á spennunni í efnahagslífinu. Einkaneysla hefur dregist verulega saman og árssamdráttur þjóðarútgjalda á þriðja ársfjórðungi 2001 nam 7,3%. Hagvöxtur mældist hins vegar nokkuð mikill á síðasta ársfjórðungi 2001 eða 4,6% frá sama fjórðungi árið áður. Fyrirvara verður að hafa á ársfjórðungsmælingum en samkvæmt síðustu tölum Þjóðhagsstofnunar nam hagvöxtur á öllu árinu 2001 3% sem er mun meira en ætla hefði mátt miðað við opinbera umræðu nánast allt síðasta ár.
Nýlegar vísbendingar um veltu virðast styðja þá skoðun að heldur hafi hert á samdrætti í einkaneyslu. Greiðslukortavelta hefur t.d. dregist saman með vaxandi hraða frá því í árslok 2001.
Útlánaþensla innlánsstofnana er nú að fullu hjöðnuð. Taka verður tillit til þess að gengis- og verðtryggð lán hækka að nafnverði í takt við verðhækkun gjaldmiðla eða verðvísitölur sem þau eru bundin. Án þessarar uppfærslu fór 12 mánaða vöxtur útlána innlánsstofnana stöðugt lækkandi á síðasta ári og var í lok ársins orðinn tæplega 7½%. Þessi þróun hefur haldið áfram á þessu ári. Reiknað á sama hátt hækkuðu útlán innlánsstofnana um tæp 2½% á fyrstu þremur mánuðum ársins umreiknað til ársbreytingar.
Sé litið á lánakerfið í heild er enn ekki hægt að fullyrða hið sama. Aðrar lánastofnanir tóku að nokkru upp slakann í útlánavexti innlánsstofnana á síðasta ári. Til dæmis jukust sjóðfélagalán lífeyrissjóða um nærri 28% á tólf mánuðum til loka febrúar sem samsvarar um 17% í raunvexti. Heldur virðist þó hafa dregið úr aukningu þeirra síðustu mánuði. Aukning útlána Íbúðalánasjóðs hefur einnig verið mikil. Þau jukust um 19% á síðasta ári, eða um rúmlega 9½% að raungildi. Í heild jukust útlán lánakerfisins um 18½% á síðasta ári eða án gengis- og verðuppfærslu um nærri 8%.
Síðustu ár hefur verið mikil framleiðsluspenna í þjóðarbúskapnum, þ.e. framleiðslan hefur verið mun meiri en framleiðslugetan. Þessi framleiðsluspenna náði hámarki á árinu 2000. Hún var einnig mjög mikil á árinu 2001, en nú er gert ráð fyrir að á þessu ári hverfi framleiðsluspennan, að lítils háttar slaki myndist og nái hámarki á næsta ári, þegar hann verður rúmlega 1%. Slíkur slaki er nauðsynlegur um sinn til að tryggja eðlilegt jafnvægi og verðstöðugleika.
Sú spurning heyrist oft hvort skriða verðhækkana muni nú ríða yfir þegar ljóst er að rauðu strikin héldu. Auðvitað kunna einhverjar hækkanir að koma fram sem frestað hefur verið fram yfir byrjun maí. Það er þó mat Seðlabankans að svo verði ekki í neinum þeim mæli sem raskar verðbólguhjöðnuninni sem bankinn hefur spáð á þessu ári.
Mun ég þá víkja að horfunum á frekari vaxtalækkunum. Til að vinna á móti þeirri spennu sem hér tók að gera vart við sig á árinu 1999 hækkaði Seðlabankinn stýrivexti sína í áföngum jafnt og þétt þar til í árslok 2000 að stýrivextir bankans voru komnir í 11,4%. Með hliðsjón af batnandi verðbólguhorfum og slaknandi spennu hefur Seðlabankinn lækkað stýrivexti sína þrisvar á þessu ári, eða um 1,3 prósentur. Frá því í nóvember sl. hefur bankinn lækkað vexti sína um 2,1 prósentu. Stýrivextir hans eru nú 8,8%, 2,6 prósentur lægri en þegar þeir voru hæstir. Þrátt fyrir þessar lækkanir er peningastefnan enn aðhaldssöm ef litið er á verðbólguvæntingar og verðbólguspár. Það er því eindregin skoðun Seðlabankans að æskilegt sé að raunvextir hans lækki áfram á komandi mánuðum. Í umræðu um vexti mega menn þó ekki gleyma því meginmarkmiði Seðlabankans að halda verðbólgu í kringum 2½%. Fyrirliggjandi verðbólguspá sem m.a. byggir á þeim vísbendingum sem ég hef nefnt, bendir til þess að forsendur muni verða til að lækka vexti frekar á næstu mánuðum. Bankinn telur þó æskilegra að gera það í fleiri og minni skrefum en fáum og stórum. Það væri einnig í samræmi við vaxtahækkanir bankans á sínum tíma, auk þess sem seðlabankar almennt telja það æskilegra að standa þannig að vaxtabreytingum, því of stór skref geta haft slæm áhrif. Þetta á ekki síst við um gjaldeyrismarkaðinn. Næstu verðmælingar munu að sjálfsögðu ráða miklu um vaxtalækkanir á næstu mánuðum.
Ég mun þá aðeins víkja að gengisþróun þessa árs. Seðlabankinn hélt því þráfaldlega fram á síðastliðnu ári að lækkun á gengi íslensku krónunnar eftir að hún fór á flot undir lok mars 2001 og fram til loka nóvember hafi verið umfram efnahagslegar forsendur til lengri tíma litið. Vissulega mátti skýra lækkunina með ójafnvægi á gjaldeyrismarkaði vegna viðskiptahalla og annars gjaldeyrisútstreymis, auk þess sem væntingar og vantraust mögnuðu sveifluna. Gengislækkunin var eigi að síður töluvert meiri en þurfti til að ná ytra jafnt sem innra jafnvægi í þjóðarbúinu. Raungengi krónunnar var á fjórða ársfjórðungi síðastliðins árs tæplega 15% undir tíu ára sögulegu meðaltali og ýmis önnur rök voru fyrir því að það myndi hækka á komandi misserum. Spurningin var fyrst og fremst hvort það myndi gerast með hækkun nafngengis eða vaxandi verðbólgu.
Verulega dró úr viðskiptahalla í fyrra og framhald verður á þeirri þróun í ár. Jafnframt er hugsanlegt að hann hverfi með öllu. Þessi viðsnúningur skýrist aðeins að hluta af gengislækkun krónunnar. Einnig kemur til samdráttur þjóðarútgjalda sem stafar af aðhaldsstefnu Seðlabankans í peningamálum og að útgjöld heimila og fyrirtækja voru orðin svo mikil að þau hlutu að ganga til baka óháð breytingum á gengi krónunnar.
Áætlað er að raungengi á öðrum fjórðungi þessa árs verði u.þ.b. 8½% hærra en á síðasta ársfjórðungi 2001 miðað við hlutfallslegt verðlag og tæplega 15% ef miðað er við hlutfallslegan launakostnað á einingu. Þar með yrði raungengið farið að slaga upp í gengið á fyrsta ársfjórðungi sl. árs, áður en mesta gengislækkunin varð. Áætlað raungengi á öðrum fjórðungi þess árs verður um 7% eða 2% undir tíu ára meðaltali eftir því hvort miðað er við neysluverðlag eða launakostnað á einingu. Mjög mikil óvissa ríkir um hvert jafnvægisraungengi krónunnar er á hverjum tíma og það er auðvitað einn af kostum verðbólgumarkmiðs að yfirvöld peningamála þurfa ekki að mynda sér nákvæma skoðun á því. Hins vegar er mjög erfitt að álykta nú að gengi krónunnar sé komið yfir jafnvægisgengið. Staða íslensku krónunnar um þessar mundir á því engan veginn að vera hamlandi fyrir íslenskt atvinnulíf. Horfur um gjaldeyrisflæði til og frá landinu gefa tilefni til að ætla að gott jafnvægi eigi að geta ríkt á gjaldeyrismarkaði í ár.
Góðir fundarmenn,
Sá árangur sem nú virðist vera að
nást við að endurreisa stöðugleika og að koma verðbólgu niður á eðlilegt stig er
fyrst og fremst afrakstur þeirrar aðhaldssömu peningastefnu sem fylgt hefur
verið á undanförnum misserum. Háir vextir hafa dregið úr fjárfestingu og
einkaneyslu, sem síðan hefur stuðlað samtímis að minni viðskiptahalla og betra
jafnvægi á vinnumarkaði. Afleiðingin er sú að launaskrið hefur stöðvast og
fyrirtæki verða að auka framleiðni og minnka kostnað í stað þess að hækka verð.
Hér sannast því enn einu sinni að verðbólga er peningalegt fyrirbæri. Frumkvæði
aðila vinnumarkaðsins varð til í þessum jarðvegi og kom á réttum tíma. Það var
ákaflega mikilvægt og stuðlaði án efa að því að verðbólguhjöðnunin gengur hraðar
fyrir sig og að henni fylgir líklega á endanum minni kostnaður í formi glataðs
hagvaxtar og atvinnuleysis en ella. Í heild er ekki annað hægt að segja en að
íslenskt efnahagslíf hefur komið vel út úr áraun síðustu missera og ekki er
ástæða til annars en að horfa björtum augum til framtíðarinnar að því er snertir
verðlag, hagvöxt og lífskjör.