logo-for-printing

21.03.2003

Ávarp Ólafs G. Einarssonar, formanns bankaráðs, á ársfundi 21. mars 2003

Hæstvirtir ráðherrar, forseti Alþingis, aðrir góðir gestir.

Fyrir hönd bankaráðs Seðlabanka Íslands býð ég ykkur velkomin til þessa fertugasta og annars ársfundar bankans og segi fundinn settan. Að loknum inngangsorðum mínum mun formaður bankastjórnar Birgir Ísleifur Gunnarsson gefa yfirlit um þróun efnahags- og peningamála, stefnu bankans í peningamálum og framkvæmd hennar og horfurnar framundan. Að ræðu hans lokinni mun forsætisráðherra Davíð Oddsson ávarpa fundinn. Að loknum fundarstörfum er fundarmönnum boðið að þiggja veitingar.

Á fundi bankaráðs í dag staðfesti forsætisráðherra ársreikning bankans fyrir árið 2002 með áritun sinni.

Á ársfundi Seðlabankans fyrir tveimur árum kynnti forsætisráðherra nýja umgjörð stefnunnar í peningamálum og nýtt frumvarp til laga um Seðlabanka Íslands sem afgreitt var sem lög frá Alþingi tæpum tveimur mánuðum síðar. Breytingin á umgjörðinni og nýju lögin fólu í sér að Seðlabankanum var sett eitt meginmarkmið, þ.e. að stuðla að stöðugu verðlagi, og honum var veitt sjálfstæði til þess að beita tækjum sínum í því skyni að ná markmiði sínu. Ég tel að reynslan hafi sýnt svo ekki verður um villst að þessar breytingar hafi reynst heilladrjúgar. Hin nýja umgjörð og nýju lögin gera mjög ríkar kröfur til Seðlabankans um fagleg vinnubrögð, gagnsæi og upplýsingamiðlun. Þessar kröfur hefur bankinn leitast við að uppfylla af metnaði og fullyrði ég að vel hafi tekist til.

Breytingarnar 2001 voru afar mikilvægar og fólu í sér í senn  nýja umgjörð peningastefnunnar og lagaramma og staðfestingu á breytingum á áherslum í starfi bankans sem orðið höfðu á undanförnum árum. Sem fyrr segir er meginmarkmið bankans nú að stuðla að stöðugu verðlagi en hann hefur auk þess önnur mikilvæg markmið  svo sem að stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi, þ.m.t. greiðslukerfi í landinu og við útlönd. Starfsemi bankans hefur breyst mjög mikið um leið og viðfangsefni hans  hafa verið sniðin að því sem kalla má grundvallarviðfangsefni seðlabanka hvar sem er. Þessi þróun endurspeglast meðal annars í því að starfsgildi í bankanum um þessar mundir eru u.þ.b. 40 færri en þau voru fyrir 10 til 15 árum og að nú er liðlega helmingur starfsmanna bankans háskólamenntaðir sérfræðingar en voru innan við þriðjungur við upphaf síðasta áratugar.

Í nýju lögunum um bankann var eftirlitshlutverk bankaráðs skerpt frá fyrri lögum og fjölgað í því úr fimm fulltrúum í sjö. Í greinargerð með frumvarpinu sagði að fjölgun í bankaráði  samræmdist eftirlitshlutverki þess og að hún tryggði breiðari samsetningu þess og að fleiri sjónarmið kæmust að við umfjöllun í bankaráði. Í 28. gr. laganna segir að bankaráð hafi eftirlit með því að Seðlabanki Íslands starfi í samræmi við lög sem um starfsemina gilda og að bankastjórn skuli jafnan upplýsa bankaráð um helstu þætti í stefnu bankans og um reglur sem hann setur. Að öðru leyti sinnir bankaráð sérstaklega verkefnum sem talin eru og tilgreind í 28. gr. laganna. Í eftirlitshlutverki bankaráðs felst meðal annars að bankaráð ræður aðalendurskoðanda Seðlabanka Íslands og setur honum erindisbréf. Aðalendurskoðandi starfar því í umboði bankaráðs og er hlutverk hans afar mikilvægt. Aðalendurskoðandi á náið samstarf við ríkisendurskoðanda og báðir endurskoða ársreikning bankans og hvaðeina í starfi hans sem hugur þeirra kann að standa til hverju sinni. Ég þakka aðalendurskoðanda og ríkisendurskoðanda góð störf á liðnu ári og gott samstarf við bankaráð.

Sem fyrr sagði staðfesti forsætisráðherra í dag ársreikning Seðlabanka Íslands fyrir 2002. Á því ári nam hagnaður af rekstri bankans 2,1 milljarði króna. Framlag til ríkissjóðs nam liðlega 700 milljónum króna og að því frátöldu nam hagnaður bankans 1,4 milljörðum króna. Breyting var gerð á reglum um reikningsskil og ársreikning Seðlabanka Íslands á síðasta ári sem fól í sér að hætt var útreikningi verðbreytingafærslu. Eigið fé Seðlabankans efldist enn á liðnu ári er ríkissjóður lagði honum til  stofnfé að fjárhæð 4,5 milljarðar króna. Í lok ársins 2001 nam eigið fé bankans liðlega 40 milljörðum króna samanborið við 34 milljarða króna í lok ársins áður.

Rekstrarkostnaður Seðlabankans á árinu 2002 nam tæplega 1,1 milljarði króna að meðtöldum 103 milljóna króna kostnaði við prentun seðla og myntsláttu og tæplega 40 milljóna króna fasteignagjöldum. Í árslok 2002 voru stöðugildi í bankanum 110,4 og hafði fjölgað um 2½  á árinu. Ýtarlega er greint frá afkomu og rekstri bankans í ársskýrslu hans sem gefin er út í dag.

Finnur Ingólfsson bankastjóri lét sem kunnugt er af störfum í lok september sl. eftir tæplega þriggja ára starf í bankanum. Ég nota þetta tækifæri til þess að þakka Finni Ingólfssyni ánægjulegt samstarf við bankaráðið þann tíma sem hann var bankastjóri.

Forsætisráðherra setti Ingimund Friðriksson aðstoðarbankastjóra í embætti bankastjóra frá 1. október sl. til óákveðins tíma, þó ekki lengur en til eins árs.

Þá endurskipaði forsætisráðherra Birgi Ísleif Gunnarsson formann bankastjórnar frá 1. febrúar sl. til loka júlí 2006.

Í gildandi lögum um Seðlabanka Íslands segir að kjósa skuli bankaráð Seðlabanka Íslands að loknum kosningum til Alþingis. Kjörtímabil sitjandi bankaráðs er því senn á enda. Bankaráð hélt 19 fundi á árinu sem leið. Ég þakka fulltrúum í bankaráði einkar ánægjulegt samstarf og vel unnin störf. Þá þakka ég bankastjórn og starfsfólki bankans öllu góð störf á liðnu ári og ánægjulegt samstarf við bankaráðið.

 

 

Til baka