logo-for-printing

14.10.2005

Erindi Eiríks Guðnasonar seðlabankastjóra á fundi Landssambands smábátaeigenda

14. október 2005

Erindi Eiríks Guðnasonar á fundi Landssambands smábátaeigenda 14. október 2005

Góðir fundarmenn
Ég þakka fyrir að fá að ræða hér um stöðu og horfur í peningamálum. Stutt er síðan Seðlabanki Íslands gaf út ársfjórðungsrit sitt Peningamál, hið þriðja á þessu ári. Þeir sem hafa lesið það munu kannast við margt af því sem ég hef hér að segja.

Í lögum eru Seðlabanka Íslands sett afar skýr markmið. Meginmarkmiðið er að stuðla að stöðugu verðlagi. Í sameiginlegri yfirlýsingu ríkisstjórnar og Seðlabankans frá mars 2001 er því lýst nánar hvernig að þessu skuli staðið. Annað markmið, einnig mikilvægt, er að stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi, þ.e. að hafa yfirsýn yfir styrk fjármálastofnana sem hér starfa og þær hættur sem að þeim gætu steðjað. Ég mun hér fjalla um fyrrnefnda markmiðið, þ.e. þá reglu að við stjórn peningamála sé stefnt að lítilli verðbólgu. Til þess hefur bankinn aðeins eitt tæki, stýrivextina, sem eru vextirnir sem gilda í viðskiptum bankans við lánastofnanir.

Peningastefnan
Markmið peningastefnunnar er að verðbólga, mæld með vísitölu neysluverðs, sé að jafnaði sem næst 2½% á hverju 12 mánaða tímabili. Áréttað skal að markmiðið er ekki aðeins að halda verðbólgu innan svonefndra þolmarka (1-4%) heldur sem næst 2½% að jafnaði. Bankanum ber að gera opinberlega grein fyrir mati sínu á stöðu og horfum í efnahagsmálum og m.a. birta verðbólguspá tvö ár fram í tímann. Með lögunum frá 2001 var bankanum veitt fullt sjálfstæði til að beita stjórntækjum sínum, þ.e.a.s. að ákveða eigin vexti án samráðs við stjórnvöld. Áhrif vaxtabreytinga seðlabanka hríslast út um efnahagslífið með töluverðri töf og því er nauðsynlegt að horfa fram á veg við ákvarðanir um vexti. Vaxtaákvarðanir seðlabanka hafa oft skjót áhrif á skammtímavexti en mun lengri tími getur liðið þar til áhrifa fer að gæta á langtímamarkaði og raunar geta þau verið af ýmsum toga. Allt fer það eftir væntingum sem leika mikilvægt hlutverk á fjármagnsmarkaði.

Hálft fimmta ár er liðið frá því að upp var tekið verðbólgumarkmið og fallið frá gengismarkmiði. Fyrst eftir breytinguna féll gengi krónunnar og við fengum verðbólguskot. Það stóð aðeins skamma hríð og árið 2002 hjaðnaði verðbólga hratt og hélst lítil fram á árið 2004, en frá fyrri hluta þess árs hafur hún aukist. Þegar reynt er að leggja mat á það hversu vel þessi stefna hentar hagkerfi okkar þarf að hafa í huga að síðari helming tímans sem liðinn er síðan verðbólgumarkmiðið var sett hafa aðstæður verið afar óvenjulegar. Ráðist var í mestu fjárfestingu Íslandssögunnar, erlendir vextir hafa verið lægri en í heila öld og á innlendum fjármálamarkaði hafa orðið stórtækar breytingar. Þótt verðbólga sé nú um sinn meiri en markmiðið segir til um tel ég það á engan hátt sýna að verðbólgumarkmið henti ekki hér á landi. Alltof skammur tími er liðinn frá upptöku þess til þess að fella um það dóma.

Framvinda
Þegar ákveðið var að reisa álver og orkuver á Austurlandi var íslenskt þjóðarbú í býsna góðu jafnvægi. Seðlabankinn taldi á þeim tíma að enda þótt umfang framkvæmdanna væri mjög mikið á mælikvarða íslenskra efnahagsmála mætti með viðeigandi ráðstöfunum komast hjá miklu ójafnvægi af völdum þeirra.

Tvennt hefur öðru fremur valdið því ójafnvægi sem nú ríkir í þjóðarbúskapnum og lýsir sér best í miklum viðskiptahalla við útlönd og verðbólgu umfram markmið. Í fyrsta lagi urðu framkvæmdir við stóriðju og orkuver meiri en fyrir var séð í upphafi þar sem auk framkvæmdanna á Austurlandi var ákveðið að ráðast í stækkun álvers í Hvalfirði með tilheyrandi orkuöflun. Að auki breyttust tímaáætlanir framkvæmdanna á þann veg að þær lögðust mun þyngra á árið 2005 en upphaflega var áformað. Í upphafi var ráðgert að þær dreifðust á lengri tíma og þungi þeirra kæmi síðar. Þetta gerði erfiðara en ella að bregðast við með viðeigandi hætti.

Hitt atriðið sem valdið hefur ójafnvægi í þjóðarbúskapnum er sú gríðarlega breyting sem varð á markaði fasteignaveðlána síðla árs 2004 þegar viðskiptabankar og sparisjóðir hófu að veita slík lán með allt öðrum skilmálum en áður höfðu staðið til boða. Í skýrslu sem samin var að beiðni félagsmálaráðherra og birtist á heimasíðu Seðlabankans á seinni hluta síðasta árs benti Seðlabankinn á vandamál sem því gætu fylgt að lánshlutfall og lánsfjárhæðir Íbúðalánasjóðs hækkuðu. Þegar fyrir lágu áform um slíkar hækkanir ásamt lækkun vaxta íbúðalána komu viðskiptabankar og sparisjóðir af miklum krafti inn á þetta svið og hafa nú veitt ný íbúðalán sem óðum nálgast 300 milljarða króna. Þessa þróun sá enginn fyrir, áhrif hennar komu mjög fljótt fram og fyrr en svo að nokkur leið hefði verið að bregðast við henni með tímanlegum aðgerðum í peningamálum. Töluverðum hluta hinna nýju lána hefur verið varið til uppgreiðslu annarra og óhagstæðari lána bæði hjá Íbúðalánasjóði og lífeyrissjóðum. Hins vegar blasir einnig við að heimilin hafa varið hluta nýju lánanna til þess að fjármagna einkaneyslu og endurspeglast það m.a. í mjög miklum innflutningi og viðskiptahalla. Seðlabankinn telur banka og sparisjóði hafa farið offari í þessum efnum. Til lengdar er það að sjálfsögðu ánægjulegt að samkeppni á fjármagnsmarkaði komi heimilum í landinu til góða auk þess sem fasteignaverðtryggð lán treysta fjárhagslegar undirstöður bankanna eins og bent hefur verið á af alþjóðlegum matsfyrirtækjum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Breytingin kom hins vegar á afar óheppilegum tíma.

Ástæða er til að brýna fyrir lánastofnunum að fara gætilega í útlánaákvörðunum sínum og huga rækilega að öryggi lána. Þá hefur Seðlabankinn margsinnis bent á nauðsyn þess að huga að framtíðarhlutverki Íbúðalánasjóðs í fjármögnun íbúðakaupa og með hvaða hætti haga má verkaskiptingu hans annars vegar og banka og sparisjóða hins vegar til þess m.a. að treysta í senn undirstöðu innlends fjármálakerfis og fyrirgreiðslu við þá sem einhverra hluta vegna eiga ekki sama aðgang að íbúðalánum og almennt gerist. Síðast en ekki síst er ástæða til þess að brýna fyrir heimilum landsins að huga vel að fjárhag sínum og gæta þess að takast ekki á hendur skuldbindingar sem reynst geta þungbærar þegar frá líður.

Vaxtabreytingar
Samkvæmt greiningu Seðlabankans er ójafnvægið í þjóðarbúskapnum mun meira nú en hann taldi það vera í byrjun júní sl. þegar hann birti II. hefti Peningamála þessa árs. Seðlabankinn greindi frá þessu mati sínu fyrir hálfum mánuði og hækkaði um leið vexti sína um 0,75 prósentur. Hafa stýrivextir hækkað um nær 5 prósentur síðan í maí í fyrra. Þetta hefur gefið tilefni til umfjöllunar í fjölmiðlum, hjá greiningardeildum bankanna og víðar. Mig langar að nefna nokkur atriði sem fram hafa komið í umræðunni undanfarna daga. Við í Seðlabankanum fögnum því að peningamál skuli rædd, stefna okkar og aðferðir gagnrýndar. Ég tel raunar að merkja megi mikla framför í þessari umræðu síðustu ár, ekki síst fyrir tilstuðlan greiningardeilda bankanna. Stundum finnst okkur þó að einhvers misskilnings gæti.

Útgáfa skuldabréfa í íslenskum krónum á alþjóðamarkaði
Vaxtahækkanir Seðlabankans hafa óhjákvæmilega leitt til þess að vaxtamunur á milli Íslands og annarra landa hefur vaxið og er orðinn meiri en þekkst hefur frá því að hömlum var létt af flutningi fjármagns á milli Íslands og annarra landa. Víðast annars staðar í hinum iðnvædda heimi eru vextir í eða nálægt sögulegu lágmarki. Af þessu leiðir að fjárfestar leita fjárfestingarkosta sem gefa meiri ávöxtun en býðst víða annars staðar. Í seinni tíð hafa þeir sem kunnugt er staldrað við íslensku krónuna. Þessi framvinda þarf í sjálfu sér ekki að koma á óvart og hún er fylgifiskur frelsisins til að flytja fjármagn óhindrað á milli landa. Íslenskir fjárfestar hafa haft greiðan aðgang að erlendum fjármálamörkuðum og nú gefa erlendir fjárfestar sig að íslensku krónunni. Við þessu er ekkert að segja heldur verðum við að semja okkur að þessum breyttu aðstæðum. Áhrifin til skamms tíma hafa einkum endurspeglast í lækkandi ávöxtun á vissum flokkum ríkisbréfa á innlenda markaðnum og í hækkun á gengi krónunnar. Erfitt er að meta hve mikil áhrifin eru á gengi krónunnar. Þó má telja víst að það sé nokkru hærra nú en það hefði verið ef ekki hefði komið til þessarar skuldabréfaútgáfu. Hver áhrifin verða til lengri tíma er ógerlegt að segja. Skuldabréfin sem gefin hafa verið út á alþjóðamarkaði eru með ýmiss konar lánstíma þannig að þau gjaldfalla ekki öll á sama tíma. Þá er hugsanlegt að með þessari framvindu sé orðinn til stofn skuldabréfa sem haldið verður við þannig að skuldabréf í íslenskum krónum verði til í skuldabréfasöfnum erlendra fjárfesta um ókomna tíð. Um þetta er ekki hægt að fullyrða á þessu stigi. Erlendu fjárfestarnir hafa mjög skamma reynslu af því að eiga viðskipti í íslenskum krónum. Við vitum til þess að erlendir fjárfestar hafa leitast við að afla upplýsinga um Ísland, stöðu krónunnar og efnahagslíf almennt og horfurnar framundan. Þeir hafa því leitast við að taka upplýstar ákvarðanir um fjárfestingar í skuldabréfum í íslenskum krónum. Reynslan sker úr um hversu ábatasamar þessar fjárfestingar þeirra verða og hver áhugi þeirra verður þegar frá líður og munur innlendra og erlendra vaxta minnkar á ný.

Ólíkt mat Seðlabankans og fjármálaráðuneytis
Bent hefur verið á að óheppilegt sé að fram komi mismunandi mat á horfunum framundan hjá Seðlabankanum annarsvegar og fjármálaráðuneytinu hinsvegar. Í nýrri spá Seðlabankans felst m.a. nokkru meiri vöxtur einkaneyslu á næstunni og kröftugri hagvöxtur en í tölum ráðuneytisins. Spyrja má hvort þessir tveir aðilar ættu að koma sér saman  um eina spá. Ég held að það væri afar misráðið og ég hygg að sérfræðingar ráðuneytisins séu raunar sama sinnis. Það myndi rýra mjög sjálfstæði Seðlabankans ef hann legði ekki sitt mat á stöðu og horfur með þeim forsendum sem hann telur réttast að miða við á hverjum tíma. Aðferðir við spágerð kunna að vera ólíkar og forsendur einnig. Til dæmis eru forsendur um breytingar vaxta og gengis ekki þær sömu í spám bankans og ráðuneytisins. Því þarf engan að undra þótt útkoma sé mismunandi. Hitt er svo annað mál að allir sem fást við spágerð vilja endurbæta aðferðir eftir föngum og læra hverjir af öðrum. Því er það eðlilegt, þegar Seðlabanki og fjármálaráðuneyti hafa sett fram sínar spár, að sérfræðingar þeirra beri þær saman og brjóti til mergjar svo að skilningur þeirra aukist. Slík samskipti fara fram og eru til þess fallin að stuðla að framförum við spágerð.

Fór peningastefnan í sumarfrí?
Seðlabankinn hefur verið gagnrýndur fyrir háa vexti þessa dagana. Það hefur líka heyrst að hann hefði átt að hækka vexti fyrr og meir en hann hefur gert að undanförnu. M.a. var nefnt að hann hafi látið of langan tíma líða milli síðustu tveggja vaxtabreytinga en þær voru kynntar 3. júní sl. og 29. september. Í því sambandi kom það heilræði frá einni greiningardeildinni að peningastefnan mætti ekki fara í sumarfrí. Ég vil fullvissa ykkur um að peningastefnan fór ekki í sumarfrí. Yfir sumarmánuðina eins og aðra mánuði var því velt upp í Seðlabankanum hvort breyta þyrfti vöxtum. Niðurstaðan, að gera það ekki, kann að þykja undarleg í ljósi þess að hækkunin í lok september var nokkuð mikil. En á þessu eru skýringar þær að horfurnar höfðu breyst umtalsvert eftir að nýjar þjóðhagstölur frá Hagstofu lágu fyrir og gerð hafði verið ný verðbólguspá. Í fyrradag birti Hagstofa Íslands vísitölu neysluverðs í byrjun október og reyndist hún hafa hækkað um 4,6% frá október í fyrra. Síðustu mælingar vísitölunnar bera eindregin merki mikillar innlendrar eftirspurnar. Þau endurspeglast m.a. í hækkun á verði vöru og þjónustu sem ekki sætir samkeppni erlendis frá auk þess sem hækkun á gengi krónunnar undanfarna mánuði kemur ekki nema að takmörkuðu leyti fram í verði innfluttrar vöru. Sérstaklega er þetta áberandi í verði bíla. Krafturinn í eftirspurn, sem hefur komið á óvart, á áreiðanlega ríkan þátt í þessari óheppilegu þróun.

Tíðni vaxtaákvarðana
Í umræðunni að undanförnu hefur verið kallað eftir því að Seðlabanki Íslands taki upp þau vinnubrögð sem tíðkast hjá seðlabönkum erlendis sem hafa verðbólgumarkmið að tilkynna fyrirfram hvenær hann heldur fundi til að ákveða vexti. Seðlabankinn birti á sínum tíma reglur sínar um ákvarðanir í peningamálum og greindi frá því að þær yrðu endurskoðaðar eftir því sem tilefni gæfist til. Meðal annars kæmi til álita að tilkynna fyrirfram hverjir ákvörðunardagar ársins verða. Þetta hefur verið til umræðu og athugunar í bankanum nú um nokkurt skeið og hugsanlegt er að innan tíðar verði tilkynntir sérstakir vaxtaákvörðunardagar. Þeir gætu orðið fleiri en útgáfudagar Peningamála sem þýðir að á öðrum dögum en útgáfudögum Peningamála gæfi Seðlabankinn út tilkynningu um vaxtaákvörðun bankastjórnar hvort sem hún verður á þann veg að breyta vöxtum eða láta þá óhreyfða.

Á Seðlabankinn að styrkja gjaldeyrisforðann með frekari kaupum á gjaldeyri?
Nefnt hefur verið að Seðlabankinn gæti aukið gjaldeyriskaup sín í tvennum tilgangi. Annars vegar til að styrkja gjaldeyrisforðann og hins vegar til að stuðla að lækkun á gengi krónunnar eða aftra frekari hækkun hennar. Bankinn kaupir nú  tólf og hálfa milljón dollara á viku, þar af tíu til að mæta endurgreiðslu ríkissjóðs á erlendum lánum á næsta ári. Um sinn stendur því yfir nokkur uppbygging forðans. Ákvörðun um frekari kaup liggur ekki fyrir en ljóst er að hún myndi byggja á skoðun bankans um það hve gjaldeyrisforðinn þurfi að vera stór. Hún myndi semsagt ekki miðast við að ná einhverri breytingu á gengi krónunnar enda er bankinn ekki með gengismarkmið. Þar fyrir utan hafa inngrip seðlabanka á gjaldeyrismarkaði takmörkuð áhrif á gengi nema e.t.v. í mjög skamma hríð. Ennfremur auka gjaldeyriskaup bankans lausafé í umferð, sem getur verið vandamál.

Á að draga úr verðtryggingu fjárskuldbindinga?
Þá hefur verið nefnt að mikil útbreiðsla verðtryggingar fjármagns hér á landi tefji fyrir miðlun peningastefnunnar og því beri að athuga hvort draga megi úr notkun verðtryggingar. Reyndar hafa ýmis rök verið færð fyrir því að draga ætti úr verðtryggingu. Einhvern tímann var því haldið fram að ekki væri unnt að ná niður verðbólgu nema fella niður verðtrygginguna. Það hefur nú verið rækilega afsannað. Svo hefur því verið haldið fram að verðtryggð lán væru dýr fyrir lánþega. Í því sambandi vil ég benda á að óverðtryggð lán eru að jafnaði dýrari. Lánþegar þurfa hinsvegar að átta sig á því að þegar þeir taka verðtryggt lán eru þeir í raun að semja um mörg lán fram í  tímann, því þeir fá verðbætur á hverjum gjalddaga að miklu leyti að láni. Því er greiðslubyrði verðtryggðra lána létt framan af lánstímanum en þung undir lokin. Það er eðlilegt og sjálfsagt að verðtryggingin sé athuguð gaumgæfilega með hliðsjón af því að afnám hennar eða minni notkun en nú er gæti gert peningastefnuna fljótvirkari þannig að vaxtabreyting hjá Seðlabanka smitist fyrr út í hagkerfið. Það er þó ekki fullvíst að svo sé. Benda má á að vextir á verðtryggðum verðbréfum hér á markaði hafa verið að hækka svolítið síðustu daga og eru ekki aðrar skýringar nærtækari en að það stafi af síðustu vaxtabreytingu Seðlabankans.

Myndi henta að taka upp evru?
Stundum er nefnt að Íslendingar ættu að taka upp evru sem gjaldmiðil jafnvel án aðildar að Evrópusambandinu. Seðlabankinn hefur fjallað um þetta mál í ræðu og riti og það hafa fleiri gert*. Seðlabankinn hefur varað við því að menn einfaldi fyrir sér möguleika okkar í þessum efnum. Væri evra tekin upp sem gjaldmiðill hér með einhliða ákvörðun íslenskra stjórnvalda myndi það vissulega skila lægri vöxtum en þessi leið hefur margvíslega galla fyrir sjálfstætt ríki og væri hugsanlega ekki í sátt við Seðlabanka Evrópu. Gengið yrði ekki lengur til sem hagstjórnartæki og öryggisventill, við núverandi aðstæður væri hér áreiðanlega meiri verðbólga en nú er og ef hér væri samdráttur en uppsveifla í löndum Myntbandalagsins myndi atvinnuleysi að líkindum aukast hér. Mjög ólíklegt er að okkur standi til boða að gerast aðilar að myntbandalaginu án aðildar að Evrópusambandinu. Jafnvel þótt slík aukaaðild stæði okkur til boða, sem ekki virðast líkur á, er næsta víst að við yrðum að uppfylla skilyrði Maastricht-sáttmálans um aðild að Myntbandalaginu. Meðal þeirra eru lág verðbólga, lágir vextir og að viðkomandi land hafi verið í gengissamstarfi Evrópusambandsins, ERM2, í að minnsta kosti tvö ár án þess að gengi krónunnar færi út fyrir vikmörk. Greinilegt er að við uppfyllum ekki þessi skilyrði í allra næstu framtíð. Nefna má að nokkur lönd mið- og austur Evrópu hafa nýlega fengið aðild að Evrópusambandinu og æskja síðar þátttöku í Myntbandalaginu. Af hálfu Seðlabanka Evrópu og annarra í forystu Evrópusambandsins hefur rík áhersla verið lögð á mikilvægi þess að þessar þjóðir uppfylli öll skilyrði til þátttöku í Myntbandalaginu. Því er mjög ólíklegt að fallist yrði á að veita nokkurt fordæmi sem þær kynnu að geta nýtt til þess að stytta sér leið inn í Myntbandalagið.

Íslendingar hafa valið að standa utan Evrópusambandsins og ekki lýst áhuga á aðild. Stefndi hugur þjóðarinnar til þess að taka evru upp sem gjaldmiðil væri nærtækast að ganga í Evrópusambandið með öllum skyldum og kostum sem því fylgja, þ.m.t. aðild að Myntbandalaginu. Ákvörðun um slíkt ræðst þó af fleiri þáttum en eingöngu varða gjaldmiðil þjóðarinnar og ferlið myndi taka allmörg ár. Þetta er auðvitað fyrst og fremst stórt pólitískt viðfangsefni. Við þurfum því að halda áfram að fóta okkur sem þjóð með eigin gjaldmiðil sem við skilyrði frjálsra fjármagnshreyfinga krefst mjög agaðrar hagstjórnar.

Aðhald í peningamálum
Næstu ár verða aðstæður í þjóðarbúskapnum óvenju erfiðar frá sjónarhóli peningastefnunnar. Þau verða raunar prófsteinn á hve vel núverandi stefna hentar litlu, opnu hagkerfi. Seðlabankinn telur brýnt að peningastefnan standist þessa prófraun og að verðbólga víki ekki nema skamma hríð umtalsvert frá verðbólgumarkmiði hans. Það er skylda Seðlabankans að stefna að þessu og til þess hefur hann aðeins eitt tæki, vexti. Seðlabankanum er full alvara að halda verðbólgu sem næst verðbólgumarkmiðinu á næstu tveimur árum og til lengri tíma þótt það kunni um tíma að koma hart niður á ýmsum atvinnugreinum. Þær sérstöku aðstæður sem nú eru fyrir hendi gera stjórn peningamála sérlega vandasama og hafa að mörgu leyti óæskileg áhrif á virkni hennar. Þetta lýsir sér m.a. í því að aukið aðhald kemur um þessar mundir mjög misjafnlega niður á einstökum geirum efnahagslífsins. Það kemur hart niður á útflutningsgreinum en bitnar lítið á einstaklingum enn sem komið er. Við þessar aðstæður er ástæða til að vara við hugmyndum um að til séu einfaldar lausnir til þess að létta á vanda útflutningsgreina til dæmis. Því hefur m.a. verið fleygt að rétt væri að hleypa verðbólgu í gegn til þess að koma útflutningsatvinnuvegunum til hjálpar. Rétt er að vara við þessum hugmyndum. Ef verðbólgu yrði hleypt í gegn, eins og það er orðað, sem gerast myndi með slakara peningalegu aðhaldi, myndi raungengi krónunnar hækka vegna meiri verðbólgu hér á landi en erlendis, launþegar myndu sækja á um hækkun kaupgjalds umfram það sem ella yrði og eftir stæði þjóðarbúið ekki aðeins með hátt raungengi krónunnar heldur einnig mikla verðbólgu með tilheyrandi röskun á starfsskilyrðum atvinnuvega og fjárhagserfiðleikum skuldsettra heimila. Auk þess þyrfti þá enn harkalegri aðgerðir til þess að kveða niður þá verðbólgu en þær sem nauðsynlegar verða til þess að halda aftur af verðbólgu nú.

Niðurlag
Verðbólga hefur að meðaltali verið talsvert yfir verðbólgumarkmiði frá því það var tekið upp. Seðlabankinn á því nokkurt verk að vinna við að skapa trúverðugleika um peningastefnuna og er staðráðinn í að gera það. Það verður ekki gert átakalaust. Stjórnvöld og aðilar atvinnulífs geta létt undir með bankanum og stuðlað að lægri kostnaði en ella við að koma böndum á verðbólguna. Óháð því hvort bankinn nýtur slíks liðsauka mun hann óhikað vinna áfram að framgangi verðbólgumarkmiðsins. Til langs tíma litið er það bæði atvinnulífi og einstaklingum fyrir bestu.

 

Tilvísun:

* Sjá Seðlabanki Íslands: Efnahags- og Myntbandalag Evrópu – EMU, sérrit 2, 1997; Forsætisráðuneytið: Áhrif Efnahags- og myntbandalags Evrópu á íslenskt efnahagslíf. Nefndarálit júní 1998; Birgir Ísleifur Gunnarsson: Hefur Evran áhrif á Íslandi? Ræða flutt á ráðstefnu Útflutningsráðs og birt í Peningamálum 2001/4.

Til baka