30.03.2007
Ræða Davíðs Oddssonar, formanns bankastjórnar Seðlabanka Íslands, á ársfundi bankans 30. mars 2007
Formaður, forsætisráðherra, ráðherrar og aðrir góðir gestirFyrir hönd bankastjórnarinnar leyfi ég mér að fagna komu ykkar allra til þessa 46. ársfundar Seðlabanka Íslands. Á síðasta ársfundi bankans var upplýst að ríkisstjórn og Seðlabanki hefðu ráðgast um nauðsyn þess að auka gjaldeyrisforða bankans verulega og jafnframt að bæta eiginfjárstöðu hans. Tilefnið var þó alls ekki það að þetta tvennt stæði lakar á þeim tíma en áður né að bankinn uppfyllti ekki lengur þau skilyrði sem hann hafði jafnan miðað við varðandi eiginfjárstöðu eða gjaldeyrisforða. Lengi hefur lágmark gjaldeyrisforðans verið miðað við að hann stæði undir þjóðarinnflutningi til þriggja mánaða enda jafnan verið tryggt að sú væri staðan. En hinar miklu breytingar, sem jafnvel mætti kalla byltingar, sem hafa orðið í íslensku fjármálalífi á tiltölulega fáum árum leiddu til þess að bankastjórninni þótti eðlilegt og æskilegt að horfa nú einnig til annarra þátta, svo sem til stærðar og umfangs fjármálakerfisins. Enda má segja, að hvað eigið fé bankans varðar má fá skýra leiðbeiningu um æskileg viðmið í nýlegum lögum sem um bankann gilda. Þegar þar er fjallað um arðgreiðslur bankans til ríkissjóðs er þess gætt að þær taki að nokkru mið af því hvort eigið fé bankans hafi náð tilteknu lágmarki og er þá miðað við umfang innlenda lánakerfisins. Í lögunum segir að árlega skuli fjárhæð sem svarar til tveggja þriðju hluta hagnaðar Seðlabankans greidd í ríkissjóð. Bankinn greiðir þó aðeins þriðjung hagnaðar síns í ríkissjóð ef eigið fé hans svarar ekki að lágmarki til 2,25% af fjárhæð útlána og innlendrar verðbréfaeignar lánakerfisins.
Eins og mál standa nú vantar mjög mikið upp á að þessu markmiði laganna hafi verið náð og árlegur hagnaður bankans einn mundi seint breyta þeirri stöðu svo nokkru næmi. En það hefur ekki aðeins orðið mikill vöxtur í öllu lánakerfinu íslenska, heldur hefur það ár frá ári tengst erlendum mörkuðum í auknum mæli og umsvif lánastofnana þar aukist gríðarlega. Þessar breytingar gefa einnig tilefni til þess, hvað gjaldeyrisforðann varðar, að horfa til annarra viðmiða en innflutningsins eins. Eins og fram kom í ræðu forsætisráðherra hér áðan brást ríkisstjórnin mjög vel við ábendingum Seðlabankans og heimilaði bankanum lántöku í nafni ríkissjóðs til að styrkja gjaldeyrisforðann verulega. Ríkisstjórnin fékk einnig heimild Alþingis til að styrkja eiginfjárstöðu bankans. Bankastjórnin þakkar af þessu tilefni ríkisstjórninni góð og örugg viðbrögð hennar. Hin erlenda lántaka sem bankanum var heimiluð er hin mesta sem hann hefur tekið að sér fyrir ríkissjóð til þessa, og segja verður að hún heppnaðist afar vel og var reyndar af virtu alþjóðlegu fjármálariti talin með tíu best heppnuðu útgáfum af þessu tagi í veröldinni á liðnu ári. Kjörin á láninu voru mjög góð og endurspegluðu auðvitað traust íslenska ríkisins á markaði.
Stórbætt eiginfjárstaða Seðlabankans og öflugri gjaldeyrisvarasjóður en áður eru ekki merki um neina stefnubreytingu af hans hálfu, en eru eðlileg viðbrögð við breytingum á því umhverfi sem bankinn starfar í.
Á þessum stað fyrir rúmu ári höfðum við öll þungar áhyggjur af sérstæðu umtali og stundum illa grunduðum vangaveltum um íslensku bankana, stöðu þeirra og styrk. Ekki er vafi á því að sú umræða og það sem henni fylgdi gerði bönkunum erfitt fyrir um hríð. Bankarnir brugðust hart við þeirri óþægilegu stöðu sem upp var komin. Mikið átak var gert til að útskýra uppbyggingu og skipulag íslensku bankanna. Þar var ekkert fum og fát, heldur miklu fremur festa og öryggi sem skilaði árangri. Bankarnir löguðu nokkra þætti í rekstri og rekstrarumhverfi sínu að málefnalegri gagnrýni sem birst hafði og eins kváðu þeir niður þætti sem ómálefnalegri voru með skýringum, greinargerðum og hreinskilnum upplýsingum, jafnt á stórum fundum sem smáum, og maður á mann, eftir því sem gafst best. Á sama tíma þurftu bankarnir um stund að leita á önnur lánamið en hefðbundin voru og er ekki vafi á að þessar aðstæður reyndu mjög á innviði og stjórnun þeirra. Ekki verður annað sagt en að þeir sem í hlut áttu hafi staðist hið erfiða próf. Fjármögnunarvandinn eins og hann blasti við okkur um þetta leyti fyrir ári er úr sögunni og kjör á eftirmarkaði komin í eðlilegra horf á ný og traust á markaði hefur verið endurvakið. Er þetta mikið þakkar- og fagnaðarefni. Hitt stendur þó auðvitað eftir að mönnum eru nú ljósari en áður þær hættur sem víða geta leynst í framtíðinni. Alþjóðleg skilyrði á markaði geta breyst snögglega. Lánsfjáraðgengi, sem á undanförnum misserum hefur verið með eindæmum hagfellt fyrir íslenska banka sem og aðra, kann að breytast skyndilega við óvæntar aðstæður. Mikilvægt er að vera við því búinn að slíkt geti gerst.
Ég leyfi mér að segja að þegar mest gekk á lagði Seðlabankinn sitt af mörkum með greiningu sinni á fjármálastöðugleika, sem hlaut þá umsögn að vera fagleg og opinská, og sambærileg við það sem best gerist á því sviði. Fyrir lok apríl n.k. birtir bankinn næstu skýrslu sína um fjármálastöðugleika.
Þótt þetta hafi ekki verið eftirsóknarverðir tímar fyrir fjármálafyrirtæki er ljóst að þau lærðu örugglega sína lexíu í hinum mikla öldugangi og eru bæði varkárari sjálf og betur á varðbergi fyrir utanaðkomandi áhrifum en áður var.
Við miklar umbreytingar í fjármálakerfinu á stuttum tíma reynir mjög á eftirlitsstofnanir og þær geta átt fullt í fangi með að halda í við hina hröðu þróun. Sama má eflaust segja um Seðlabankann. Enda er það svo, að þótt slíkar stofnanir geti verið til mikils gagns og mjög til halds og trausts, þá hvorki geta þær né eiga að vera í aðalhlutverkunum. Þeim hlutverkum geta eingöngu fjármálafyrirtækin sjálf gegnt. Vegna þess hve mjög þau reiða sig á greiðan aðgang að lánsfjármörkuðum skiptir traust þeirra í augum lánadrottna afar miklu. Trúverðugleiki er brothættur á þessu sviði sem annars staðar, og trúnaðarbrestur mjög dýrkeyptur.
Og víst er að það verða áfram sviptingar á alþjóðlegum mörkuðum. Auðvitað leitast menn við að spá í þau spil og sjá mikilvægustu breyturnar fyrir svo laga megi sig að þeim í tíma eða bregðast við þeim með skynsamlegum hætti. Svo brýnt sem það er að fylgjast þannig náið með þróun og breytingum á alþjóðlegum mörkuðum, þá skiptir öllu að hafa styrk og stöðu til að standa af sér óvæntustu áföllin.
Fjármagnsaðgengi hefur verið með eindæmum gott í heiminum á undanförnum árum og margur hefur sótt sér þar hnefa á góðum kjörum. Dirfska, útsjónarsemi og viðbragðsflýtir nýtast til fulls við slíkar aðstæður. Ekki er útilokað að slíkt ástand vari lengi enn, en það er fjarri því að vera öruggt. Og þegar breytingarnar verða geta þær komið vegna óvæntra aðstæðna og gerst hratt. Það er þá sem að gætnin og hyggindin skila mestum árangri. Vextir hafa farið hækkandi að undanförnu víðast hvar og fjármagn er ekki jafn ódýrt og áður, þótt enn sé það finnanlegt við mjög vægu verði. Því er líklegra að meira þurfi að hafa fyrir lífinu á lánsfjármörkuðum almennt á næstu misserum og árum.
En svo áhrifamikil og örlagarík sem efnahagsþróun austan hafs og vestan núorðið er fyrir íslenskt efnahagslíf, þá skiptir miklu enn sem fyrr, hvernig við höldum sjálf á okkar eigin málum. Brýnast er að draga hratt úr ójafnvæginu í þjóðarbúskapnum og endurheimta stöðugleika. Til þess þarf að draga úr innlendri eftirspurn. Það gerist að hluta til sjálfkrafa með lokum þeirra stórframkvæmda sem staðið hafa yfir.
Margt hefur breyst frá því þessi fundur var haldinn fyrir ári, sumt mjög til batnaðar, en annað ekki. Viðskiptahalli liðins árs verður lengi í minnum hafður og honum tókst jafnvel að slá við svartsýnustu spám. Sem betur fer sjást nú örugg merki um að úr honum dragi hægt og bítandi, en líkur standa þó til að sá bati verði hægari en við höfðum áður vænst, sérstaklega vegna vaxtabyrði af völdum erlendra skulda.
Bankastjórn Seðlabankans ákvað í gær að stýrivextir bankans skyldu vera óbreyttir, 14,25%, eins og þeir hafa verið frá því í desember. Daginn fyrir síðasta ársfund bankans hækkaði bankastjórnin hins vegar vexti sína um 0,75 prósentur og eru þessar tvær ákvarðanir væntanlega nokkur vísbending um hvar Seðlabankinn telur sig standa í baráttunni við verðbólguna um þessar mundir. Sá slagur er forgangsverkefni og er ekki vafi á að góður árangur í þeirri rimmu er mikið hagsmunamál fyrir þjóðina í heild og ekki síst fyrir það unga fólk sem tekið hefur á sig miklar skuldbindingar í því skyni að tryggja sér húsnæði um skeið eða til framtíðar. Skuldir íslenskra heimila við lánastofnanir hafa aukist mjög mikið á undanförnum árum. Greiðslubyrði hefur þó ekki vaxið sem hlutfall af tekjum vegna annarra og betri lánskjara sem nú bjóðast, auk hækkandi tekna. Vanskil eru ennþá með allra lægsta móti. Hvort tveggja er þetta mjög jákvætt. En það breytir ekki því að Seðlabankinn hefur áhyggjur af því að ýmsir kunni að hafa reist sér hurðarás um öxl, eða a.m.k. teflt á mjög tæpt vað, því að ekki þurfa að verða miklar breytingar til að skuldsettir einstaklingar lendi í erfiðleikum, sem í sumum tilfellum gætu reynst óviðráðanlegir. Vaxandi verðbólga gæti því orðið rothögg fyrir mörg heimili.
Sumir hafa brugðið á það ráð að flytja skuldir í erlenda gjaldmiðla vegna tiltölulega hárra vaxta og verðtryggingar hér á landi en það getur reynst skammgóður vermir ef gengi krónunnar lækkar. Gengislækkun kæmi strax og að fullu fram í afborgun af erlendu láni. Áhrifa hennar myndi gæta minna og síðar í verðtryggðum innlendum kjörum.
Á síðasta ársfundi var nefnt að Seðlabankinn hefði mjög hvatt fjármálafyrirtækin til að draga úr útlánaaukningu sinni sem var þá, að mati bankans, farin úr öllu hófi. Þau brugðust jákvætt við þeim tilmælum bankans og ótvírætt var að útlánahraðinn minnkaði verulega. En nú eru allmörg merki þess að enn sæki í hið fyrra horf og verður bankinn því að árétta aðvörunarorð sín í þessum efnum.
Um leið og Seðlabankinn tilkynnti vaxtaákvörðun í gær, gaf hann út Peningamál sín. Þar er að finna helstu forsendur fyrir ákvörðunum bankans og vísbendingar um stefnu hans á næstunni og þau sjónarmið sem hann telur þýðingarmikið að horft sé til við stjórn efnahagsmála. Að þessu sinni voru gerðar mikilvægar breytingar á forsendum grunnspár bankans sem gera hana trúverðugri og peningastefnuna gagnsærri en hingað til. Með þessu skipaði bankinn sér í hóp framsæknustu seðlabanka með verðbólgumarkmið. Í Peningamálum kemur m.a. fram að verðbólguþróun hefur orðið nokkuð hagfelldari en fyrri spár bankans gerðu ráð fyrir, og þótt undirliggjandi verðbólga hafi verið nokkru meiri í febrúar og mars en vonir stóðu til, gerir bankinn ráð fyrir að hratt muni draga úr bæði mældri og undirliggjandi verðbólgu á næstu mánuðum. Á báða kvarða verður verðbólga nærri markmiði frá miðju næsta ári. Enginn vafi er á því að þennan árangur má fyrst og fremst þakka ströngu aðhaldi í peningamálum, sem m.a. fólst í hækkun stýrivaxta um 3,75 prósentur á síðasta ári.
Eins og jafnan áður verður að benda á, sérstaklega við núverandi skilyrði, að óvissa um gengisþróun getur ruglað þessa mynd nokkuð. Gengi krónunnar hefur verið býsna stöðugt frá leiðréttingunni sem varð á fyrri hluta síðasta árs, og er um þessar mundir nokkru sterkara en sögulegir mælikvarðar gefa tilefni til, þótt rétt sé að viðurkenna að vísindaleg nauðhyggja á sennilega illa við þegar þróun gjaldmiðla er metin. Óvissa um gengið stafar m.a. af miklum viðskiptahalla auk þess sem það getur hæglega ráðist af þáttum sem við höfum ekkert með að gera, svo nátengt sem íslenskt fjármálakerfi er orðið því alþjóðlega.
Banki sem fylgir verðbólgumarkmiði skv. þeim lögum og reglum sem hann starfar eftir, gleðst auðvitað mjög yfir þessari verðbólguþróun en hann myndi kjósa að fastara land væri undir fótum í þessum efnum. Dregið hefur úr innlendri eftirspurn, en þó nokkru hægar en bankinn hafði vænst. Viðskiptahallinn er mikill og úr honum dregur einnig hægar en bankinn teldi æskilegast. Töluverð eftirspurn er ennþá á húsnæðismarkaði og merki þess að útlánaaukning kunni að fara vaxandi á ný. Bankinn mun því af þessum ástæðum og öðrum hafa vara á sér og ekki slaka á peningalegu aðhaldi sínu fyrr en hann sér enn skýrari merki þess að varanleg breyting sé orðin.
Hlutabréfaverð hér á landi hefur hækkað hratt á síðustu árum. Vera kann að skýra megi hluta hækkunarinnar með því að markaðsverð hérlendra fyrirtækja hafi verið of lágt metið, t.d. í samanburði við sambærileg fyrirtæki erlendis, auk þess sem áræði og dirfska stjórnenda margra fyrirtækja hafi aukið virði þeirra. En oftast eru sterk tengsl á milli áhættu og ábata. Stundum getur verið of djarft telft. Lengi hefur tíðkast að greiða yfirverð fyrir vænlega fjárfestingarkosti. Það yfirverð, sem nefnt er viðskiptavild í bókhaldi fyrirtækja, var síðan afskrifað á löngum tíma og hafði sjaldnast teljandi áhrif á reksturinn. Aðstæður hafa breyst og nú þurfa fyrirtæki að gera svokallað virðisrýrnunarpróf á viðskiptavild sem eignfærð er í efnahagsreikningi. Gangi upphaflegar áætlanir ekki eftir þarf að afskrifa viðskiptavild í samræmi við það. Sú hætta er því til staðar, ef harðnar á dalnum, að þessi regla geti magnað upp neikvæða afkomu fyrirtækja þegar síst skyldi. Bókfærð viðskiptavild, var samtals yfir 500 ma.kr. í árslok 2006 í reikningum allra fyrirtækja sem skráð eru í Kauphöll Íslands og dæmi eru um að viðskiptavild einstakra fyrirtækja og aðrar óefnislegar eignir séu meira en helmingur bókfærðra eigna. Er þetta umhugsunarefni.
Þótt það sé meginverkefni Seðlabanka við tækifæri eins og þetta að vekja sérstaka athygli á þáttum sem ástæða er til að hafa áhyggjur af, er einnig rétt að hann eins og aðrir haldi því til haga sem er til þess fallið að styrkja langtímahorfur í efnahagsmálum þjóðarinnar. Íslenska efnahagskerfið er þróað, gegnsætt og virkt. Staða ríkissjóðs er sterk svo til fyrirmyndar er, þjóðin er hlutfallslega ung, vel menntuð og fljót að laga sig að hvers konar nýjungum í tækni og vísindum. Sterkt lífeyriskerfi hefur verið byggt upp og öfugt við aðrar þjóðir sem óttast mjög um framtíð síns lífeyriskerfis og sjálfbærni, er ljóst að lífeyriskerfi Íslendinga verður sífellt öflugra. Enn er það vissulega ekki farið að greiða mjög hátt hlutfall af ævitekjum eigenda sinna vegna þess hve ungt það er enn að árum, en það hlutfall hækkar ár frá ári og öll merki þess að það geti svo lengi sem séð verður staðið vel undir sér. Lífeyriskerfið styrkist þannig á Íslandi meðan miklir veikleikar þess eru að verða áberandi víða annars staðar í sambærilegum löndum.
Kaupmáttur á Íslandi er einn sá hæsti í heiminum og atvinnuleysi með því minnsta. Nýlega hefur verið ráðist í miklar fjárfestingar, sem skila munu drjúgum útflutningstekjum. Hefðbundnar greinar búa við örugga markaði og hátt afurðaverð um þessar mundir. Óneitanlega lítur sú mynd, sem þannig er dregin upp, afar vel út og margt fleira jákvætt mætti tína til. En það breytir ekki hinu, eins og áður hefur verið sagt, að víða var teflt á tæpt vað og næstu misserin verða þýðingarmikil um hvernig tekst til. Fjölmargir þættir eru verulegri óvissu háðir. Margt heimilið á Íslandi fetar þröngt einstigi skulda og launa og má lítið út af bera svo ekki skriki fótur og fallið verði hátt. Það er því nauðsynlegt að fara að öllu með gát og sýna festu og stillingu á öllum sviðum efnahagslífsins – að ganga hægt um gleðinnar dyr – gildir sem sagt enn sem fyrr. Hvað Seðlabankann varðar er lítil verðbólga veigamesta verkefni hans í bráð og lengd. Þar er heldur að rofa til eins og áður sagði, þótt enn sé aðgátar þörf.