logo-for-printing

28.03.2008

Ávarp Halldórs Blöndals formanns bankaráðs á ársfundi Seðlabanka Íslands 28. mars 2008

Hæstvirtu forsætisráðherra, ráðherrar, aðrir góðir gestir.

Fyrir hönd bankaráðs Seðlabanka Íslands býð ég ykkur velkomin til þessa 47. ársfundar bankans og segi fundinn settan. Að loknum inngangsorðum mínum flytur formaður bankastjórnar, Davíð Oddsson ársfundarræðu sína fyrir hönd bankastjórnar. Að endingu ávarpar Geir H. Haarde forsætisráðherra fundinn. Að loknum fundarstörfum býð ég fundargestum að þiggja veitingar.

Á fundi bankaráðs fyrr í dag staðfesti forsætisráðherra ársreikning bankans fyrir árið 2007 með áritun sinni. Ársskýrsla bankans fyrir árið 2007 er gefin út í dag og liggur frammi í lok fundarins.

Ársreikningur Seðlabanka Íslands er gerður upp á grundvelli reglna sem settar eru af forsætisráðherra, síðast í desember 2005. Samkvæmt rekstrarreikningi varð tap af rekstri Seðlabanka Íslands á árinu 2007 að fjárhæð 1,2 milljarðar króna samanborið við hagnað að fjárhæð 11,9 milljarðar króna árið 2006. Mikil breyting á milli ára skýrist fyrst og fremst af breytingu á gengismun. Á árinu 2006 varð gengishagnaður að fjárhæð 11,8 milljarðar króna en 5,9 milljarða króna gengistap á árinu 2007. Þetta skýrist að sjálfsögðu af ólíkri hreyfingu á gengi krónunnar á þessum tveimur árum. Að gengismun slepptum varð hagnaður af rekstri Seðlabankans 4,7 milljarðar króna á árinu 2007 samanborið við 32 milljóna króna hagnað árið 2006. Framlag til ríkissjóðs nam 2,3 milljörðum króna árið 2007 samanborið við 16 milljónir króna árið 2006.

Á árinu 2007 jukust vaxtatekjur bankans bæði af innlendum og erlendum eignum. Hækkun þeirra skýrist bæði af auknum umsvifum og af hærri vöxtum en árið áður. Vaxtagjöld jukust sömuleiðis mjög á árinu 2007. Hreinar vaxtatekjur námu liðlega 6 milljörðum króna árið 2007 samanborið við 1,7 milljarða króna árið áður. Rekstrargjöld námu tæpum 1,6 milljörðum króna árið 2007 samanborið við 2 milljarða króna árið 2006. Lækkunin stafar einkum af aukaframlagi til lífeyrissjóðs sem greitt var árið 2006 og minni kostnaði við seðla og mynt árið 2007 en 2006.

Á árinu 2007 hækkaði niðurstöðutala efnahagsreiknings Seðlabanka Íslands um 155 milljarða króna og nam tæpum 477 milljörðum króna í lok ársins. Mikil hækkun eigna stafar nánast eingöngu af auknum kröfum Seðlabankans á innlánsstofnanir og aðrar fjármálastofnanir í formi lána gegn veði. Þau jukust úr 147 milljörðum króna í lok árs 2006 í 303 milljarða króna í lok árs 2007. Skuldamegin á efnahagsreikningi jókst fjárhæð seðla og myntar í umferð um 8,4% og nam 15,7 milljörðum króna í lok ársins. Skuldir Seðlabankans við innlánsstofnanir, einkum innstæður þeirra á viðskiptareikningum í Seðlabankanum, jukust úr 43 milljörðum króna í lok árs 2006 í 152 milljarða króna í lok árs 2007.

Heildarinnstæður ríkissjóðs og ríkisstofnana námu 211 milljörðum króna í lok ársins 2007 sem er nánast sama fjárhæð og í lok ársins 2006 þrátt fyrir greiðslu eiginfjárframlags til bankans sem síðar verður getið. Meðal krafna ríkissjóðs á Seðlabankann í lok árs 2007 voru bundin innlán að fjárhæð 26,8 milljarðar króna. Þar er um að ræða hluta af söluandvirði Símans sem lagt var inn í Seðlabankann á sínum tíma. Þá er meðal krafna ríkissjóðs á Seðlabankann gengisbundið skuldabréf sem er andvirði erlends láns sem tekið var síðla árs 2006. Fjárhæð þess nam tæpum 89 milljörðum króna í lok árs 2007.

Í lok ársins námu erlendar eignir 34% heildareigna bankans samanborið við 52% í lok ársins 2006. Erlendar skuldir og skuldir í erlendum gjaldmiðli námu 19% af heildarskuldum og eiginfé í árslok 2007 samanborið við 31% í árslok 2006.

Í árslok 2007 nam eigin fé bankans 91 milljarði króna samanborið við 48 milljarða króna í lok árs 2006. Hækkunin skýrist einkum af 44 milljarða króna eiginfjárframlagi ríkissjóðs sem greitt var bankanum í maí 2007 og formaður bankastjórnar vék sérstaklega að á ársfundi bankans fyrir ári. Í lok ársins 2007 svaraði eigið fé bankans án endurmats til 18% af niðurstöðutölu efnahagsreikningsins. Árið áður var hlutfallið 13,4%.

Ég hef aðeins drepið á helstu liði í ársreikningi bankans. Í ársskýrslunni er reikningurinn birtur í heild sinni ásamt skýringum auk þess sem ítarlegri grein er gerð fyrir afkomu bankans á árinu og breytingum á efnahagsreikningi en ég hef gert í máli mínu hér.

Talsverðar breytingar urðu á starfsliði bankans á árinu. Alls hurfu 11 starfsmenn til annarra starfa eða fóru á eftirlaun en 16 starfsmenn voru ráðnir til bankans. Fjórir þeirra komu til starfa í október 2007 þegar starfsemi Lánasýslu ríkisins var lögð niður og verkefni hennar voru flutt til Seðlabankans. Í lok ársins voru starfsmenn 115 að tölu og starfsgildi 106,3.

Eftir kosningar til Alþingis vorið 2007 var kosið nýtt bankaráð í Seðlabanka Íslands. Úr bankaráði hurfu Helgi S. Guðmundsson, Ólafur G. Einarsson og Sigríður Stefánsdóttir. Í bankaráð voru kjörin Halldór Blöndal, Jón Sigurðsson, Erna Gísladóttir, Ragnar Arnalds, Hannes H. Gissurarson, Jónas Hallgrímsson og Jón Þór Sturluson. Á fyrsta fundi hins nýkjörna bankaráðs var Halldór Blöndal kosinn formaður þess og Jón Sigurðsson varaformaður. Haustið 2007 sagði Jón Þór Sturluson sig úr ráðinu og var Sigríður Ingibjörg Ingadóttir kjörin í hans stað. Bankaráð hélt 20 fundi á árinu 2007. Ég þakka fulltrúum í bankaráði mjög ánægjulegt samstarf og vel unnin störf. Þá þakka ég bankastjórn og starfsfólki bankans mjög góð störf á liðnu ári og gott samstarf við bankaráð.

Viðfangsefni Seðlabankans var vandasamt á liðnu ári og er enn. Stefna Seðlabankans hefur sætt nokkurri gagnrýni. Sem kunnugt er starfar bankinn á grundvelli laga frá árinu 2001 og sameiginlegrar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar og bankans frá sama ári. Markmið peningastefnunnar er stuðla að stöðugu verðlagi sem skilgreint er sem 2½% verðbólga. Þetta viðfangsefni hefur reynst vandasamt í seinni tíð og hefur bankinn gert rækilega grein fyrir ástæðum þess og ekki þörf fyrir mig að rekja þær hér. Af hálfu bankans hefur margsinnis verið lögð á það afar rík áhersla hve brýnt hagsmunamál það er fyrir heimili og fyrirtæki í landinu að halda verðbólgu í skefjum. Roskið fólk hugsar nú aftur til 8. og 9. áratugarins með kvíða, þegar verðbólgan lék lausum hala og nærðist af sjálfri sér. Þá misstu margir tök á fjármálum sínum, einstaklingar og fyrirtæki, atvinnuleysi blasti við og lífskjör versnuðu. Þá tíma viljum við ekki lifa að nýju. Fyrir þær sækir blasir við að brýnasta verkefnið nú er að koma böndum á verðbólguna og gefa hvergi eftir í þeim efnum.

Til baka