logo-for-printing

07.06.2017

Seðlabanki stuðlar að virkni og velferð

Hvers vegna er Seðlabanki Íslands oft í kastljósi fjölmiðla? Það er vegna þess að bankinn sinnir mikilvægum verkefnum í efnahagslífinu. Hann mætir m.a. þörfum almennings fyrir öruggan greiðslumiðil í formi reiðufjár, þ.e. seðla og myntar, til að nota í innkaupum og öðrum viðskiptum. Bankinn sinnir einnig lykilhlutverki í að tryggja örugga og skilvirka miðlun greiðslna með kortum og öðrum rafrænum færslum þar sem í hlut eiga einstaklingar, fyrirtæki og fjármálastofnanir.

Stöðugt verðlag

Samkvæmt lögum skal Seðlabanki Íslands sjá til þess að greiðslumiðillinn, krónan, haldi sem best kaupmætti sínum, þ.e. að verðbólga rýri sem minnst það sem fæst fyrir launin. Í lögum um bankann segir að meginmarkmið hans sé að stuðla að stöðugu verðlagi. Í yfirlýsingu forsætisráðherra og Seðlabankans árið 2001 var þetta svo útfært þannig að stefna ætti að því að árleg verðbólga yrði sem næst 2½%. Helsta tæki bankans til að ná verðbólgumarkmiðinu eru vextir bankans í viðskiptum við önnur fjármálafyrirtæki.

Frá og með árinu 2009 hefur peningastefnunefnd tekið ákvarðanir um vexti bankans og beitingu annarra stjórntækja peningamála. Góður árangur hefur náðst í að halda verðbólgu í skefjum og hefur hún verið við eða undir 2½% verðbólgumarkmiðinu í rúm þrjú ár. Flestir eru sammála um að hæfileg og stöðug verðbólga stuðli að minni óvissu og betri ákvörðunum bæði almennings og fyrirtækja um fjárfestingu og fleira og þar með að stöðugri atvinnu og hagvexti, betri kaupmætti og aukinni velferð.

Fjármálastöðugleiki

Seðlabankinn á, ásamt öðrum aðilum, að sjá til þess að fjármálakerfið í landinu sé traust og virkt. Í því felst að lánastofnanir geti staðist áföll í efnahagslífi og á fjármálamörkuðum, miðlað lánsfé og greiðslum og dreift áhættu. Í þeim tilgangi setur Seðlabankinn öðrum bankastofnunum reglur og fylgist með starfsemi þeirra.

Til að tryggja stöðugleika og öryggi annast Seðlabankinn jafnframt gjaldeyrisforða, sem er öryggissjóður í erlendum gjaldmiðli. Miðað er við að hann dugi fyrir innflutningi vöru og þjónustu í ákveðinn tíma, sem gæti komið sér vel ef illa árar. Enn fremur auðveldar gjaldeyrisforðinn ríkissjóði að standa við erlendar lánaskuldbindingar og hann skapar þá tiltrú á erlendum mörkuðum að landið geti staðið við erlendar skuldbindingar sínar. Forðann er einnig hægt að nota til að styðja við markmiðið um stöðugt verðlag með kaupum (eða sölu) á gjaldeyri til að koma í veg fyrir of miklar sveiflur í gengi og þar með innflutningsverðlagi.

Alþjóðamál

Seðlabankinn gegnir ýmsum öðrum verkefnum. Hann færir bókhald þjóðarinnar með því að gera upp greiðslujöfnuðinn við útlönd, auk þess sem hann safnar og birtir margs konar upplýsingar um fjármálastarfsemi í landinu sem nauðsynlegar eru í nútímaríki fyrir vel upplýstar ákvarðanir um stjórn efnahagsmála.

Seðlabankinn sinnir samskiptum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og ýmsar aðrar alþjóðlegar stofnanir fyrir íslenska ríkið, þar með talin fyrirtæki sem meta lánshæfi. Fyrir hönd ríkisins sér bankinn um lánamál ríkissjóðs innanlands og erlendis og um skráningu ríkisábyrgða og eftirlit með þeim. Þá veitir Seðlabankinn ríkisstjórn og Alþingi álit sitt um margt er snertir fjármál og stundar rannsóknir á sviði efnahagsmála.

Ný verkefni

Þótt kjarnaverkefni bankans hafi í raun lítið breyst hafa verkefni tengd þeim tekið breytingum. Eftir fjármálahrunið 2008 voru sett á fjármagnshöft og eftirliti með þeim var komið fyrir í Seðlabankanum. Þótt höftin hafi nú verið losuð nánast að fullu þarf enn að fylgjast með sveiflum og hræringum í fjármagnsflæði til og frá landinu til þess meðal annars að tryggja fjármálastöðugleika. Innheimta þurfti kröfur á fallna banka en það verkefni var sett í sérstakt félag í eigu bankans, Eignasafn Seðlabanka Íslands, og er verkefni þess að mestu lokið.

Peningastefnunefnd var sett á laggirnar eftir fjármálahrunið til að vinna með opnum og markvissum hætti að stöðugu verðlagi. Kerfisáhættunefnd, undir forsæti seðlabankastjóra, starfar nú í tengslum við bankann til að vinna að fjármálastöðugleika og gerir tillögur til fjármálastöðugleikaráðs, sem er undir forsæti fjármála- og efnahagsráðherra. Þá tekur bankinn einnig þátt í starfi þjóðhagsráðs sem hefur víðara efnahagslegt hlutverk. Af öðrum nýmælum í tækja- og úrræðasafni bankans má nefna sérstakt fjárstreymistæki sem virkjað var á síðasta ári til að koma í veg fyrir óhóflegt fjármagnsinnflæði sem gæti valdið óstöðugleika. Það tæki dró verulega úr spákaupmennsku með skuldabréf á milli Íslands og annarra landa þar sem hvatinn var einkum ágóði vegna vaxtamunar á milli landa.

Verkefni Seðlabankans til að stuðla að stöðugleika, virkni og velferð í hagkerfi Íslands eru því mörg og þótt þau taki breytingum í tímans rás eru kjarnaverkefnin eftir sem áður skýr. Þau eru að sjá samfélaginu fyrir skilvirkum greiðslumiðli, stuðla að stöðugu verðlagi, og skilvirku, traustu og stöðugu fjármálakerfi. Það er mikilvægt fyrir fólkið í landinu að þar takist vel til.

 

 

Til baka