logo-for-printing

Sérrit 15: Eiginfjárkröfur og fjármálastöðugleiki

Sérrit 15: Eiginfjárkröfur og fjármálastöðugleiki

Seðlabanki Íslands hefur gefið út rit um eiginfjárkröfur og fjármálastöðugleika. Ritið geymir aðgengilegt yfirlit um gildandi eiginfjárkröfur hér á landi í ljósi hins alþjóðlega regluverks og þróunar þess á umliðnum áratugum. Rökstuðningi mismunandi eiginfjárkrafna og beitingu þeirra erlendis jafnt sem innanlands eru gerð skil í ritinu, auk þess sem helstu hagfræðilegu álitaefnum sem þeim tengjast er lýst í megindráttum.

Vegna hins sérstaka og mikilvæga samfélagslega hlutverks sem fjármálafyrirtæki, einkum innlánsstofnanir, hafa með höndum skiptir miklu fyrir efnahagsþróun að þau geti sinnt hlutverki sínu. Með hliðsjón af þessu er fjármálastöðugleiki, sem Seðlabankinn hefur að lögbundnu markmiði, skilgreindur sem ástand þar sem fjármálakerfið getur staðist áföll í efnahagslífinu og á fjármálamörkuðum, aflað sér fjármagns, miðlað lánsfé og greiðslum og dreift áhættu með viðhlítandi hætti. Þessi skilgreining endurspeglar m.a. tvö sjónarmið sem vegast á. Annars vegar þörfina fyrir ríkulegt lánsfjárframboð og hins vegar þörfina fyrir viðnámsþrótt í fjármálakerfinu. Í ritinu er leitast við að útskýra núgildandi regluverk um eiginfjárkröfur út frá viðleitninni til að sætta þessi ólíku sjónarmið með þjóðhagslega hagkvæmni að leiðarljósi.

Ritið er hið fimmtánda í röð Sérrita bankans og er það aðgengilegt á vef Seðlabanka Íslands

Sjá hér: Sérrit nr. 15:Eiginfjárkröfur og fjármálastöðugleiki. Birt 16. júní 2021.


Til baka