Fjármálavæðing og tekjuskipting
Málstofa um þetta efni verður haldin í Sölvhóli, fundarherbergi í Seðlabankanum, þriðjudaginn 10. apríl kl. 15.
Frummælandi: Stefán Ólafsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands
Erindið byggir á bók Stefáns Ólafssonar og Arnaldar Sölva Kristjánssonar, Ójöfnuður á Íslandi – Skipting tekna og eigna í fjölþjóðlegu samhengi, sem kom út í nóvember síðastliðnum. Fjallað verður almennt um langtímaþróun tekjuójafnaðar á Íslandi og ítarlegar um þær breytingar sem urðu á tekjuskiptingunni frá um 1995 til 2015.
Leitað er skýringa á mikilli aukningu tekjuójafnaðar fram að hruni fjármálakerfisins árið 2008 og einnig breytingum til öndverðrar áttar eftir hrun. Samsetning heildartekna fyrir skatt breyttist mikið á þessum tíma, með mikilli aukningu fjármagnstekna sem komu með ólíkum hætti í ólíka tekjuhópa.
Sundurgreining áhrifavalda tekjuójafnaðar bendir til að vöxtur fjármagnstekna skýri um tvo þriðju af aukningu ójafnaðar fram að hruni – og hið sama á við um aukningu jafnaðar eftir hrun. Vísbendingar eru um að vöxtur fjármagnstekna hafi verið óvenju mikill á Íslandi á árum bóluhagkerfisins. Breytt skatta- og velferðarstefna skýrir um þriðjung af breytingum tekjuójafnaðar, bæði fyrir og eftir hrun fjármálakerfisins.