Málstofa: Lausafjárstýring Seðlabanka Íslands
Málstofa um stýringu lausafjár hjá Seðlabanka Íslands og hagkvæmustu leiðir til þess miðað við mismunandi forsendur verður haldin í Sölvhóli, fundarherbergi í Seðlabankanum, þriðjudaginn 5. mars kl. 15:00.
Frummælandi: Ragnheiður Jónsdóttir hagfræðingur.
Ágrip: Á málstofunni verður rætt um nokkrar aðferðir við lausafjárstýringu seðlabanka við framkvæmd peningastefnu. Fjallað verður um mismunandi ástæður þess að umfram lausafé myndast og afleiðingar þess fyrir lausafjárstýringu (og framkvæmd peningastefnu). Þá er leitast við að skýra mikla aukningu þess í bankakerfinu á Íslandi eftir fjármálahrunið. Talið er líklegt að miklar sveiflur í lausafé geti orðið viðvarandi í litlu og opnu hagkerfi með eigin gjaldmiðil, ekki síst með stýrðu flotgengi. Fjallað er um fyrirkomulag þessara mála í Svíþjóð, Noregi og Danmörku og dregnar ályktanir um hagkvæmasta fyrirkomulag lausafjárstýringar í Seðlabanka Íslands miðað við nokkrar mismunandi forsendur.