Yfirsýn fjármálainnviða
Seðlabanka Íslands ber lögum samkvæmt að stuðla að fjármálastöðugleika og traustri og öruggri fjármálastarfsemi. Þá skal bankinn sinna viðfangsefnum sem samrýmast hlutverki hans sem seðlabanka, svo sem að stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi, þ.m.t. greiðslumiðlun í landinu og við útlönd.
Greiðslu- og verðbréfauppgjörskerfi eru mikilvægur þáttur fjármálakerfisins og því mikilvægt að tryggja virka og örugga starfsemi þeirra. Hlutverk Seðlabankans á sviði greiðslumiðlunar er margþætt.
Yfirsýn
Markmið yfirsýnar fjármálainnviða af hálfu Seðlabankans er að stuðla að öryggi, virkni og hagkvæmni kjarnainnviða íslensks fjármálakerfis, eða kerfislega mikilvægra fjármálainnviða og þar með fjármálastöðugleika.
Í yfirsýnarhlutverki Seðlabankans gagnvart kerfislega mikilvægum fjármálainnviðum felst einkum eftirfarandi:
- Fylgst er með þróun, virkni og rekstraröryggi slíkra innviða.
- Reglubundið skal mat lagt á öryggi og virkni kerfislega mikilvægra fjármálainnviða, á grundvelli alþjóðlega viðurkenndra tilmæla um bestu framkvæmd, þ.e. Kjarnareglna CPMI/BIS og IOSCO (e. Principles for Financial Market Infrastructures, PFMI) og á grundvelli laga nr. 7/2020 um verðbréfamiðstöðvar, uppgjör og rafræna eignarskráningu fjármálagerninga.
- Tillögugerð um breytingar á fjármálainnviðum og umgjörð þeirra, þ.m.t. regluverki, þyki tilefni til.
Sýna allt
Hvað er átt við með fjármálainnviðum?
Hvað er átt við með orðalaginu kerfislega mikilvægir?
Kerfislega mikilvægir fjármálainnviðir á Íslandi
PFMI-kjarnareglurnar
Rekstur
Hlutfall rafrænnar greiðslumiðlunar er mjög hátt á Íslandi og byggir á notkun greiðslukerfa sem mörg hver tengjast beint og óbeint. Peningafærslur frá mismunandi greiðslukerfum (eða fjármálainnviðum) fara ólíkar leiðir í gegnum greiðslu- og uppgjörskerfi, sem saman sjá um miðlun, uppgjör og skráningu viðskiptanna.
Mikilvægustu greiðslu- og uppgjörskerfin eru millibankagreiðslukerfi Seðlabanka Íslands (MBK) og verðbréfauppgjörskerfi og er hlutverk yfirsýnar að fylgjast með þróun, virkni og rekstraröryggi þeirra á hverjum tíma.
Millibankagreiðslukerfi Seðlabanka Íslands - MBK kerfið
MBK kerfið er sjálfstætt kerfi í eigu Seðlabankans. Um kerfið gilda reglur nr. 1030 frá 22. október 2020 um millibankagreiðslukerfi Seðlabanka Íslands. Kerfið skiptist í tvo hluta, stórgreiðslukerfi (RTGS) og smágreiðslukerfi (EXP). Stórgreiðslur eru greiðslufyrirmæli að fjárhæð 10 m.kr. eða hærri milli viðskiptavina tveggja fjármálafyrirtækja og í því eru m.a. gerð upp viðskipti Seðlabankans við innlánsstofnanir og viðskipti á millibankamarkaði með gjaldeyri. Í MBK eru einnig framkvæmd uppgjör í mikilvægum uppgjörskerfum, þ.e. verðbréfauppgjörskerfum og smágreiðslukerfum. Nánari upplýsingar um rekstur greiðslukerfi Seðlabanka Íslands má finna á vefsíðu bankans um markaðsviðskipta.