Spurt og svarað
Hér að neðan eru nokkrar algengar spurningar um gengismál og svör við þeim.
Sýna allt
Hvað er gjaldeyrismarkaður?
Gjaldeyrismarkaður er vettvangur þar sem ólíkir gjaldmiðlar ganga kaupum og sölu. Hlutverk gjaldeyrismarkaða er að auðvelda og stýra miðlun gjaldeyris milli þeirra sem vilja kaupa og selja gjaldeyri. Gengi einstakra gjaldmiðla ræðst af innbyrðis verðgildi þeirra sem verður til í viðskiptum á gjaldeyrismarkaði. Á Íslandi eiga gjaldeyrisviðskipti sér stað annars vegar innan fjármálastofnana, einkum stóru viðskiptabankanna, og hins vegar milli stóru bankanna á millibankamarkaði með gjaldeyri.
Hver banki stundar gjaldeyrisviðskipti við viðskiptavini sína og miðlar gjaldeyri milli þeirra, en ef þau viðskipti skila afgangi eða skorti á gjaldeyri á banki þess kost að leita út á millibankamarkaðinn.
Nánari upplýsingar um fyrirkomulag gjaldeyrisviðskipta á Íslandi er að finna í hér: Gjaldeyrismarkaður á Íslandi
Hvernig er gengi krónunnar ákvarðað?
Gengi íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum ræðst af framboði og eftirspurn eftir gjaldeyri á millibankamarkaði með gjaldeyri. Þátttakendur á markaðinum eru fjármálafyrirtæki sem taka á sig ábyrgð og skyldur viðskiptavaka. Millibankamarkaðurinn er opinn milli kl. 9:15 og 16:00 hvern viðskiptadag, en á þeim tíma skuldbinda viðskiptavakar sig til þess að gefa stöðugt upp bindandi kaup- og sölutilboð í evru gagnvart íslensku krónunni fyrir tiltekna viðmiðunarfjárhæð. Til að einfalda verðlagningu krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum fara viðskipti á millibankamarkaði eingöngu fram í evrum og krónum. Gengi krónunnar gagnvart öðrum erlendum gjaldmiðlum leiðir því af gengi evru á hverjum tíma. Gengi krónu gagnvart evru hreyfist helst þegar viðskiptavakar kaupa og selja evrur fyrir krónur. Þegar viðskiptavaki kaupir evrur fyrir krónur á millibankamarkaði lækkar gengi krónunnar að öðru óbreyttu en hækkar þegar viðskiptavaki selur evrur fyrir krónur. Viðskiptavakar geta einnig breytt viðmiðunarverði án þess að viðskipti eigi sér stað.
Hvert er hlutverk Seðlabanka Íslands á gjaldeyrismarkaði?
Markmið Seðlabanka Íslands er að stuðla að stöðugu verðlagi, fjármálastöðugleika og traustri og öruggri fjármálastarfsemi. Þar sem Ísland er lítið og opið hagkerfi með sjálfstæðan gjaldmiðil hefur gengi krónunnar mikil áhrif á innlenda verðlagsþróun, fjármálakerfið og efnahagsstarfsemi í landinu almennt. Gengisþróun krónunnar hefur þar af leiðandi áhrif á það hversu vel Seðlabankanum tekst til við að uppfylla lögbundin markmið sín. Gjaldeyrisviðskipti teljast því til stjórntækja Seðlabankans.
Seðlabanki Íslands er aðili að millibankamarkaði með gjaldeyri. Seðlabankinn er ekki viðskiptavaki, heldur sinnir hann eftirlitshlutverki, setur reglur á markaðinum og getur átt þar viðskipti telji hann það nauðsynlegt til að stuðla að markmiðum sínum. Seðlabankanum er ekki skylt að eiga gjaldeyrisviðskipti við viðskiptavaka þótt eftir því sé leitað, en viðskiptavaka er hins vegar skylt að eiga gjaldeyrisviðskipti við Seðlabankann ef honum þykir þörf á.
Hvaða reglur gilda um gjaldeyrismarkaðinn?
Millibankamarkaður með gjaldeyri lýtur reglum Seðlabanka Íslands um gjaldeyrismarkað nr. 600/2020. Reglurnar kveða á um skilyrði fyrir aðild að markaðinum, skyldur viðskiptavaka, tíðni verðtilboða og viðskipta, lágmarksfjárhæð viðskipta, upplýsingaskyldur, siðareglur og fleira.
Hvað er gengisvísitala?
Opinber gengisvísitala Seðlabankans mælir gengi helstu erlendra gjaldmiðla gagnvart íslensku krónunni. Vísitalan er vegið faldmeðaltal af gengi erlendra gjaldmiðla gagnvart krónu og er gengi þeirra vegið saman eftir samsetningu utanríkisviðskipta þjóðarinnar. Þar sem gengi íslensku krónunnar er birt sem verð á einni einingu af erlendum gjaldmiðli í krónum talið er gengi íslensku krónunnar gagnvart helstu viðskiptagjaldmiðlum því margföldunarandhverfa gengisvísitölunnar:
Hlutfallslega prósentubreytingu á gengi krónunnar milli tveggja tímabila má reikna út frá gengisvísitölu á eftirfarandi hátt:
Þar sem GVTt er gildi gengisvísitölunnar á tíma t og GVTt-k er gildi vísitölunnar k tímabilum á undan. Hækkun gengisvísitölunnar táknar þannig lækkun á gengi krónunnar eða veikingu og lækkun vísitölunnar táknar hækkun á gengi krónunnar eða styrkingu.
Auk opinberrar gengisvísitölu reiknar og birtir Seðlabankinn fleiri gengisvísitölur sem byggja á mismunandi forsendum varðandi vöru- og þjónustuviðskipti Íslands við útlönd. Nánar er fjallað um val á gjaldmiðlum og gjaldmiðlavogir í gengisvísitölum Seðlabankans á síðunni Endurskoðun á gjaldmiðlavogum.
Hvað er opinber gengisskráning?
Einu sinni á dag skráir Seðlabanki Íslands opinbert viðmiðunargengi krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum. Skráningargengið er augnabliksmynd af stöðu markaðarins á þeim tíma sem það er skráð. Viðmiðunargengi eru ekki ætluð til notkunar í viðskiptum, heldur eru þau birt eingöngu í upplýsingaskyni til viðmiðunar í opinberum samningum, dómsmálum og öðrum samningum milli aðila þegar önnur gengisviðmiðun er ekki sérstaklega tiltekin, sbr. 29. gr. laga nr. 92/2019 um Seðlabankann. Um leið er skráð opinber gengisskráningarvísitala. Birting á gengisskráningu ákvarðast af því hvaða gjaldmiðlar eru í reiknuðum gjaldmiðlavogum sem liggja til grundvallar útreikningum á vísitölum meðalgengis. Skráning gjaldmiðils hjá Seðlabankanum segir hins vegar ekkert til um hvort hægt sé að eiga viðskipti með hann í innlendum viðskiptabönkum.
Hvenær er gengið skráð?
Gengi íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum er skráð um kl. 14:15 á mið-evrópskum tíma (e. Central European Time) á hverjum degi sem skipulegir gjaldeyrismarkaðir eru almennt starfandi. Viðmiðunargengið er birt á heimasíðu Seðlabankans um kl. 16:00 á staðartíma hvern viðskiptadag. Þegar sérstaklega stendur á getur Seðlabankinn tímabundið fellt niður skráningu á gengi krónunnar.
Nýjasta skráða opinbera viðmiðunargengi Seðlabanka Íslands er að finna á síðunni Opinber gengisskráning. Tímaraðir fyrir opinbera gengisskráningu er að finna undir Tímaraðir. Gengi annarra gjaldmiðla má finna á ýmsum vefsíðum, t.d. oanda.com. Seðlabanki Íslands ber enga ábyrgð á upplýsingum sem er að finna á slíkum vefsíðum eða notkun aðila á þeim.
Hvar finn ég tölur um gengisskráningu og veltu á gjaldeyrismarkaði?
Nýjasta skráða opinbera viðmiðunargengi Seðlabanka Íslands er að finna á síðunni Opinber gengisskráning. Tímaraðir fyrir opinbera gengisskráningu er að finna undir Tímaraðir. Gengi annarra gjaldmiðla má finna á ýmsum vefsíðum, t.d. oanda.com. Seðlabanki Íslands ber enga ábyrgð á upplýsingum sem er að finna á slíkum vefsíðum eða notkun aðila á þeim.
Seðlabankinn heldur utan um veltu á millibankamarkaði með gjaldeyri og birtir mánaðarlega í hagtölum bankans.