Markaðir
Til að sinna verkefnum sínum getur Seðlabankinn ýmist þurft að beita sér á tilteknum fjármálamörkuðum eða að hafa visst eftirlit með þeim.
Sýna allt
Millibankamarkaður með gjaldeyri
Gengi íslensku krónunnar er ákvarðað á millibankamarkaði með gjaldeyri (gjaldeyrismarkaður). Markaðurinn er opinn milli klukkan 9:15 og 16:00 hvern viðskiptadag. Rétt til þátttöku á gjaldeyrismarkaði hafa þrjú fjármálafyrirtæki og gegna þau hlutverki viðskiptavaka en auk þeirra er Seðlabanki Íslands einnig þátttakandi. Um gjaldeyrismarkaðinn gilda reglur sem Seðlabanki Íslands setur, nr. 600 frá 3. júní 2020.
Gjaldeyrismarkaður myndar verð á íslensku krónunni gagnvart evru. Viðskiptavakar skuldbinda sig til að setja fram kaup- og sölutilboð. Tilboðin eru birt í upplýsingakerfi Bloomberg. Seðlabankinn heldur utan um veltu á markaðnum og birtir í hagtölum Seðlabankans.
Skráning á gengi íslensku krónunnar
Seðlabankinn skráir gengi íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum um klukkan 14:15 á mið-evrópskum tíma (e. Central European time). Skráningin er augnabliksmynd af markaðnum á þeim tíma sem skráð er. Viðmiðunargengið er birt opinberlega á heimasíðu bankans um klukkan 16:00 á íslenskum tíma hvern viðskiptadag.
Almennt um millibankamarkað með gjaldeyri
- Markaðurinn er opinn virka daga klukkan 9:15-16:00.
- Fjármálafyrirtæki eru viðskiptavakar á markaðnum:
- Arion banki hf.
- Íslandsbanki hf.
- Landsbankinn hf.
- Viðskiptagjaldmiðill er evra.
- Tilboð viðskiptavakanna eru ein milljón evra í hvert sinn.
Seðlabanki Íslands:
- Er aðili að markaðnum.
- Er ekki viðskiptavaki og þarf því ekki að halda úti virkum kaup- og sölutilboðum.
- Getur átt viðskipti við viðskiptavaka hvenær sem er á meðan markaðurinn er opinn.
- Sinnir eftirlitshlutverki.
Millibankamarkaður með krónur
Millibankamarkaður með krónur (krónumarkaður) er markaður fyrir ótryggð skammtíma inn- og útlán á milli lánastofnana. Markaðurinn var settur á laggirnar í júní 1998. Hann starfar á grundvelli reglna um viðskipti á millibankamarkaði með krónur nr. 1196/2019, sem Seðlabankinn setti í samstarfi við markaðsaðila.
Hlutverk Seðlabankans er þó eingöngu að skipuleggja markaðinn og starfrækja. Seðlabankinn er ekki aðili að markaðnum, þar sem bankanum er ekki heimilt að veita lán án trygginga. Krónumarkaður gengur einnig undir nafninu REIBOR markaður og vextir sem skráðir eru á markaðnum kallaðir REIBOR vextir. REIBOR er stytting á Reykjavík interbank offered rate.
Almennt um millibankamarkað með krónur
- Markaðurinn er opinn klukkan 9:15-16:00.
- Fjármálafyrirtæki eru aðilar á markaðnum.
- Markaðsaðilar eru fjórir;
- Arion banki hf.
- Íslandsbanki hf.
- Landsbankinn hf.
- Kvika banki hf.
- Markaðsaðilar semja um lánalínur sín á milli.
- Markaðsaðilum er skylt að gefa upp bindandi inn- og útlánstilboð í eftirfarandi tímalengdir, yfir nótt (ON), vika (SW), einn mánuður (1M), þrír mánuðir (3M) og sex mánuðir (6M).
- Markaðsaðilar skuldbinda sig til að uppfæra reglulega skuldbindandi vaxtatilboð á inn- og útlánum á millibankamarkaði, þó eigi sjaldnar en á 10 mínútna fresti.
- Markaðsaðilar eru fjórir;
- Hámark vaxtabil milli inn- og útlána í tilboðum markaðsaðila til eins mánaðar eða lengri tíma er 100 punktar. Ekki er skilgreint hámarksvaxtabil í tilboðum með styttri tímalengdum.
Seðlabanki Íslands:
- Er ekki aðili að markaðnum.
- Sinnir eftirlitshlutverki og heldur utan um viðskipti á markaðinum sem birtar eru á Gagnatorgi.
- Skráir daglega vexti á millibankamarkaðinum með krónur fyrir tímalengdir frá yfir nótt að 6 mánuðum. Skráningin fer fram klukkan 11:15 og er birt á heimasíðu Seðlabankans skömmu síðar.
Nánari upplýsingar um veltu á millibankamarkaði með krónur má finna í hagtölum Seðlabankans.
Vaxtaviðmið í íslenskum krónum (IKON)
Seðlabankinn reiknar út og birtir vaxtaviðmið fyrir íslensku krónuna, IKON (Icelandic Krónur OverNight) á heimasíðu sinni. IKON vaxtaviðmið er reiknað út sem vegið meðaltal vaxta á ótryggðum innlánum hjá upplýsingaskyldum aðilum í viðskiptum til einnar nætur (O/N) þar sem samið er um fjárhæð, vexti og innlánstíma. Vextirnir eru birtir á heimasíðunni fyrir klukkan 11:00.
Þar sem:
N = Fjöldi viðskipta
rk = vextir viðskipta k
vk = fjárhæð viðskipta k
Vtot = Heildarfjárhæð viðskiptaAðilar að gagnaskilum fyrir IKON vaxtaviðmið eru viðskiptabankarnir. Um vaxtaviðmið í íslenskum krónum gilda reglur nr. 370/2022 um vaxtaviðmið á ótryggðum innlánum í íslenskum krónum.
Framkvæmdin við útreikning og birtingu veginna vaxtaviðmiða (IKON) er í samræmi við meginreglur Alþjóðlegu verðbréfanefndarinnar (IOSCO) um fjármálaviðmiðanir (Principle for Financial Benchmarks).
Í lok hvers ársfjórðungs birtir Seðlabankinn yfirlit yfir villur og frávik í skýrsluskilum, hvort sem þær hafi leitt til breytinga á birtum viðmiðunarvöxtum eða ekki.