Laufléttar spurningar og svör
Hér má finna svör við ýmsum spurningum um starfsemi Seðlabanka Íslands. Sumar spurninganna hafa borist frá almenningi með tölvuskeytum, símtölum eða á kynningarfundum. Aðrar spurningar hafa orðið til við gerð kynningarefnis um bankann. Markmiðið er að spurningarnar og svörin gagnist til að fræða um ýmis mikilvæg atriði um Seðlabankann.
Vextir og verðbólga
Sýna allt
Hvað eru vextir?
Í einni af bókum Nóbelsskáldsins okkar, Halldórs Laxness, segir að vextir (rentur) séu eins og afkvæmi sem peningarnir gjóta ef þeir eru lagðir í banka. Vextir eru verð á peningum, þ.e. það verð sem greitt er fyrir að fá afnot af peningum í einhvern tíma, t.d. þegar fólk fær pening að láni í banka til að kaupa sér íbúð. Hin hliðin á þessu er að vextir eru tekjur sem fólk fær ef það setur peningana á reikning í banka, þ.e. lánar bankanum eða öðrum peningana sína.Hvað eru stýrivextir?
Stýrivextir eru þeir vextir seðlabanka kallaðir sem hafa áhrif á aðra vexti í hagkerfinu, t.d. á bílalánum eða húsnæðislánum eða vexti á sparnaðarreikningum. Þar með hafa stýrivextir og breyting á þeim áhrif á eftirspurn og framboð af peningum og þannig á það magn peninga í umferð sem hægt er að nota til að kaupa og fjárfesta fyrir – eða spara.
Ef þessir vextir seðlabanka eru lágir hafa fólk og fyrirtæki tilhneigingu til að spara minna en taka meira að láni og kaupa og fjárfesta meira. Þá er eftirspurn meiri eftir vörum og þjónustu, verð hefur tilhneigingu til að hækka og verðbólga er að jafnaði meiri. Hið gagnstæða gerist ef vextir eru háir eða eru hækkaðir.
Að jafnaði eiga seðlabankar einungis viðskipti við viðskiptabanka og fáar aðrar fjármálastofnanir sem fá fé að láni í seðlabönkum eða geyma afgangsfé sitt þar. Ef seðlabankar breyta vöxtum sínum í viðskiptum við lánastofnanirnar (bankana og önnur fjármálafyrirtæki) þurfa þær að breyta sínum vöxtum til samræmis og aðlaga rekstur sinn að breytingunum.
Lesa nánar um miðlun peningastefnunnar
Sjá einnig: Þórarinn G. Pétursson. Miðlunarferli peningastefnunnar. Peningamál 2001/4.
Af hverju hækkar eða lækkar Seðlabankinn vexti?
Seðlabankinn getur hækkað eða lækkað vexti til að bregðast við aðstæðum í samfélaginu sem hafa áhrif á verðbólgu. Markmið Seðlabankans er að viðhalda stöðugu verðlagi og er þá átt við að verðbólga verði lítil og stöðug, eða sem næst 2,5% verðhækkunum á ári samkvæmt samkomulagi Seðlabankans og ríkisstjórnar. En hvernig hafa vextir áhrif á verðlag? Jú, fólk og fyrirtæki geyma pening og taka lán hjá tilteknum fjármálafyrirtækjum, aðallega bönkum og sparisjóðum (stundum kallað lánastofnanir).
Lánastofnanir geyma hluta af sínum fjármunum á reikningum hjá Seðlabankanum eða geta tekið lán í Seðlabankanum. Þegar talað er um að Seðlabankinn hækki eða lækki vexti eru það vextir á þessum reikningum og vextir í viðskiptum við hina bankana sem átt er við.
Þegar þessir vextir breytast hvetur það lánastofnanir til að breyta vöxtum á lánum til almennings og fyrirtækja eða t.d. á þeim sparnaðarreikningum sem einstaklingar eru með. Þegar vextir lækka er fólk líklegra til að eyða peningum og þannig er hægt að koma hjólum hagkerfisins af stað. Stundum eyðir fólk of miklu en slíkt getur valdið því að verðlag hækkar eða verður óstöðugt. Breytingar á vaxtakjörum hjá almenningi og fyrirtækjum geta þannig haft áhrif á verðlag. Ef Seðlabankinn hækkar vexti hvetur það fólk smám saman til að eyða minna og spara meira – og þá verður eftirspurnin og verðbólgan minni en ella.
Lesa nánar um miðlun peningastefnunnar
Sjá einnig: Þórarinn G. Pétursson. Miðlunarferli peningastefnunnar. Peningamál 2001/4.
Hvað er verðbólga?
Verðbólga er það kallað þegar verð á vöru og þjónustu hækkar að jafnaði yfir ákveðinn tíma. Algengasta viðmiðunin er verð á þeirri vöru og þjónustu sem heimili nota, svo sem kjöt og fiskur, sykur, verðmiði í sund og margt fleira. Verðið er kannað einu sinni í mánuði og verðbólgan er verðbreytingin á vörunum og þjónustunni yfir heilt ár (í tólf mánuði). Til að ákveða hvaða vörur og þjónusta eru notaðar í verðmælingum spyr Hagstofan ákveðinn fjölda heimila reglulega hvað þau kaupa til neyslu í hverjum mánuði. Lesa nánar um verðbólgu hér.Af hverju er betra að verðbólga sé lítil?
Vegna þess að þá er miklu betra að gera góðar áætlanir og stuðla betur að stöðugri og betri hagvexti og atvinnu. Miklar og sveiflukenndar verðbreytingar gera það að verkum að erfitt er að áætla rekstur fyrirtækja og heimila fram í tímann. Það er t.d. erfitt á áætla sparnað til að kaupa reiðhjóli ef reiðhjólið hækkar stöðugt í verði í hverjum mánuði. Verðbólgan getur þannig valdið mikilli óvissu. Á slíkum óvissutímum er hætt við því að fólk og fyrirtæki annað hvort haldi að sér höndum þannig að atvinnuleysi verði meira eða taki ákvarðanir um óhagkvæmar fjárfestingar og framkvæmdir sem skila minni verðmætum til lengdar. Þá veldur mikil verðbólga kostnaði við að verðmerkja vörur og þjónustu. Ef verð á vörum hækkar fæst minna af þeim fyrir launin í hverjum mánuði, þ.e. ef launin hækka ekki jafn mikið eða meira. Ef verð á vöru og laun hækka stöðugt til skiptis, eins og var hér á síðari hluta síðustu aldar, getum við einnig fengið það sem kallað var óðaverðbólga, þ.e. þegar verðbólga fer t.d. upp í um hundrað prósent eins og var hér einu sinni. Lesa nánar um stöðugt verðlag hér.Er verðbólgudraugurinn til?
Þegar verð á vöru og þjónustu hækkaði um tugi prósenta á ári á síðustu öld var oft talað um að verðbólgudraugurinn væri kominn á kreik og skyti fólki skelk í bringu. Verðbólgan hefur þróast með ýmsu móti undanfarna áratugi en markmiðið frá árinu 2001 er að hún verði sem næst tveimur og hálfu prósenti sem er það verðbólgumarkmið sem Seðlabankinn og ríkisstjórn hafa ákveðið að stefna að. Það er með verðbólguna eins og ýmsar veirur og sjúkdóma: Ef við gætum okkar ekki og förum óvarlega í efnahagsmálum getur verðbólgudraugurinn risið upp og valdið usla.
Bankar og eftirlit
Sýna allt
Hvað gera bankar?
Bankar gegna lykilhlutverki í hverju samfélagi. Þeir miðla fjármunum frá þeim sem spara peninga til þeirra sem vilja taka lán, hvort sem er til að fjárfesta í húsnæði eða gera eitthvað annað. Þannig auðvelda bankar fjárfestingu og uppbyggingu. Þeir eru einnig milliliður í alls kyns viðskiptum, þ.e. milli kaupenda og seljenda vöru og þjónustu. Til að greiða fyrir viðskiptum er fjárhæð oft tekin út af bankareikningi kaupanda og sett inn á reikning þess sem selur. Þannig eru bankar lykilaðilar í greiðslumiðlun í landinu, hvort sem fólk notar kort, heimabanka eða seðla og mynt. Áður en bankar og peningar komu almennt til sögunnar þurfti fólk oft að nota ýmsa hluti eða jafnvel dýr sem greiðslumiðla, svo sem nautgripi eða góðmálma, sem var miklu meiri fyrirhöfn.Hvers vegna höfum við eftirlit með bönkum?
Þeir veita mikilvæga þjónustu
Bankar varðveita sparifé og lána almenningi og fyrirtækjum peninga, t.d. til að kaupa íbúð eða fjárfesta í framleiðslutækjum. Þá eru bankar gjarnan milliliður þegar koma þarf greiðslum milli þeirra sem kaupa og selja vöru og þjónustu. Þetta er mjög mikilvæg starfsemi í samfélaginu. Ef banki lendir í vandræðum getur það því haft víðtæk og mjög slæm áhrif á viðskipti og athafnalíf. Þessu kynntust Íslendingar og fleiri þjóðir í bankakreppunni haustið 2008.
Þeir reiða sig á traust viðskiptamanna
Traust og öryggi er mikilvægt í viðskiptum. Ef einn banki lendir í vandræðum og getur ekki innt af hendi greiðslu þegar óskað er eftir, t.d. greitt fólki sparifé sitt, getur traust á öllu bankakerfinu minnkað. Það getur framkallað það sem nefnt er bankaáhlaup sem lýsir sér í því að fjölmargir reyna að taka út sparifé sitt úr banka eða sparisjóði á sama tíma. Það getur gert bankana og sjóðina óstarfhæfa og valdið hruni bankakerfisins með alvarlegum afleiðingum fyrir samfélagið.
Þeir vernda sparifjáreigendur og almenning
Fólk getur átt erfitt með að leggja mat á stöðu einstakra banka eða sparisjóða og þarf því aðstoð sérhæfðra stofnana til þess. Alþingi hefur sett margvísleg lög, ráðuneyti hafa sett reglugerðir og Seðlabankinn gefið úr reglur um starfsemi banka. Þeim er ætlað að tryggja að bankar geti og njóti trausts til að gegna mikilvægu hlutverki sínu í samfélaginu. Lögum og reglum er ætlað að tryggja að starfsemi banka sé heilbrigð, örugg og skilvirk. Þeim er einnig ætlað að gæta að hagsmunum viðskiptamanna bankanna og almennings.
Í bankaeftirliti er lagt mat á hvers kyns áhættu í starfseminni og hvernig bankarnir stýra henni, hvernig bönkunum er almennt stjórnað, hvernig innra eftirliti er háttað og margt fleira. Meðal annars á grundvelli þessa eru gerðar kröfur um fjárhagslegan styrkleika bankanna og þess krafist að þeir bæti úr veikleikum í starfseminni sem í ljós koma.
Sjá nánari upplýsingar á vef fjármálaeftirlits Seðlabankans.
Peningar, seðlar og mynt
Sýna allt
Hvar get ég skipt erlendum seðlum? Hvað með erlenda seðla sem eru ekki í gildi?
Viðskiptabankar og sparisjóðir hér á landi hafa að undanförnu keypt og selt erlenda peningaseðla (um tíma var einnig gjaldeyrisskiptastöð starfandi). Þessum aðilum er í sjálfsvald sett hvaða seðla þeir kaupa og/eða selja, en að jafnaði er hægt að kaupa eða selja seðla frá stærstu gjaldmiðlasvæðum heimsins og helstu nágrannalöndum okkar. Seðlabanki Íslands kaupir hvorki né selur erlenda peningaseðla. Fólk verður því að leita til ofangreindra aðila til að eiga í seðlaviðskiptum.
Reglulega eru seðlaraðir endurnýjaðar, ákveðnir seðlar teknir úr umferð og nýir seðlar, t.d. með breyttu útliti, settir í umferð í staðinn, en oft með sama verðgildi. Erlendir seðlabankar sem eru útgefendur seðlanna tilkynna slíkt með góðum fyrirvara og innlendir aðilar sem eiga í viðskiptum með seðlana koma slíkum upplýsingum á framfæri. Eftir sem áður er ekki óalgengt að fólk sé með í höndum erlenda peningaseðla sem eru ekki lengur almennur gjaldmiðill í viðkomandi landi, auk þess sem bankar hér á landi eru hættir að eiga í viðskiptum með slíka seðla. Þá getur verið eina ráðið að skipta slíkum seðlum í banka í viðkomandi landi, seðlabanka viðkomandi lands eða útibúum þeirra.
Upplýsingar um seðla í gildi í hverju landi má finna á vefsíðum seðlabanka en á vef Alþjóðagreiðslubankans er að finna yfirlit um vefsíður allra eða allflestra seðlabanka, sjá hér: Yfirlit yfir vefsíður seðlabanka.
Hvað eru peningar?
Peningar eru það sem allir taka við sem greiðslu fyrir hlut eða þjónustu, svo sem þegar fólk kaupir sér föt eða farmiða með strætó. Seðlar og mynt eru algengustu peningar ásamt innstæðum á bankareikningum sem notaðar eru til að millifæra greiðslur, t.d. með greiðslukorti eða í heimabanka.
Áður fyrr og í öðrum samfélögum hafa ýmsir greiðslumiðlar verið notaðir, svo sem skeljar, góðmálmar (t.d. gull og silfur), skinn, kýr eða kálfar og ýmislegt fleira – auk þess sem vöruskipti hafa farið fram.
Síðustu áratugi hafa flestar og stærstu greiðslurnar farið fram rafrænt (kort, heimabankar) en enn eiga sér stað um 10% vöru- og þjónustuviðskipta einstaklinga með reiðufé (seðlum og mynt).
Peningar eru jafnan taldir þurfa að uppfylla þrjú skilyrði. Í fyrsta lagi þurfa þeir að geta mælt verð eða verðmæti (sagt til um hvað hlutir kosta), í öðru lagi að miðla verði (notaðir sem greiðsla) og í þriðja lagi að geyma verðmæti (t.d. sem sparnaður). Ef verðbólga er mikil grefur það undan þriðja skilyrðinu.
Peningarnir sjálfir hafa lítið eða ekkert notagildi, nema kannski fyrir myntsafnara og knattspyrnudómara sem nota mynt til að varpa hlutkesti um það hvort liðið byrjar og á hvaða hluta vallarins hvort lið byrjar. Peningarnir eru eins konar táknmynd eða ímyndun og notkun þeirra byggir á því að fólk treysti því að hægt sé að kaupa fyrir peningana vörur eða þjónustu fyrir þá fjárhæð sem tölugildi peninganna segir til um.
Hvernig urðu peningaseðlar til?
Þótt fyrstu peningaseðlar séu taldir hafa komið fram hjá Kínverjum á sjöundu öld eftir Krists burð er það ekki fyrr en forveri sænska seðlabankans, Stockholms Banco, gaf út seðla árið 1661 að seðlaútgáfa hefst eins og við þekkjum hana í dag. Hún byrjaði þannig að fólk fór í bankann með koparplötur, greiðslumiðil þess tíma í Stokkhólmi, og fékk í staðinn seðla sem það gat notað á miklu handhægari hátt í viðskiptum en koparplöturnar, sem gátu verið þungar og stórar. Þannig voru seðlarnir inneignarnóta á koparinn í bankanum og um leið skuld bankans við handhafa (eiganda) seðilsins. Út frá þessu þróaðist nútíma seðlaútgáfa. Sænski seðlabankinn, Sveriges riksbank, var síðan stofnaður á grunni Stockholms Banco árið 1668 og telst vera elsti seðlabankinn.Eru peningarnir ekta?
Það þarf traust og trú til þess að peningakerfið virki vel. Einn liður í því er að gera peningaseðla þannig úr garði að fólk treysti því að þeir séu ekta og endurspegli raunverulega þau verðmæti sem þeir eru skráðir fyrir. Til að ná þessu markmiði eru seðlar þannig útbúnir að erfitt á að vera að falsa þá. Eitt fyrsta öryggisatriðið af þessu tagi var handskrifuð undirskrift á seðlinum. Hér á landi er það nafn seðlabankastjóra sem er á seðlinum. Margir fleiri öryggisþættir eru á hverjum seðli, svo sem málmþynna, málmþráður eða aðrir öryggisþræðir, vatnsmerki, plastefni, örmyndir eða örletur, upphleypt prentun, hlutar seðils sem skipta um lit við sérstaka tegund af ljósi og svo er pappírinn sem seðillinn er gerður úr sérstakrar gerðar, auk þess sem nú eru plastefni notuð í seðlana í meira mæli en áður til að tryggja betur endingu þeirra. Þá er sérstakt númer á tveimur stöðum á hverjum seðli. Að auki er blindramerki á hverjum seðli svo sjóndaufir og blindir eigi auðveldara með að nota seðlana.
Öryggisatriði eru líka til staðar í mynt, þótt það þyki í dag ekki jafn augljóst. Rifflur á rönd myntpeninga eru viss öryggisatriði. Í gamla daga þótti gróðavænlegt að skafa aðeins málminn af myntpeningunum. Þannig gátu óprúttnir einstaklingar náð sér í silfur ef þeir handléku marga peninga. Þá eru myndirnar á myntunum visst öryggisatriði og svo að sjálfsögðu málminnihald þeirra.
Af hverju notum við ekki bara kort – eða símgreiðslur?
Notkun seðla og myntar, þ.e. reiðufjár, hefur minnkað talsvert í mörgum löndum og greiðslukortanotkun og önnur rafræn greiðslumiðlun komið í staðinn, t.d. greiðslur með farsímum. Þannig voru seðlar og mynt í umferð (hjá fólki og fyrirtækjum) þegar Seðlabankinn var stofnaður árið 1961 um 5% af verðmæti landsframleiðslu, þ.e. af verðmæti þess sem framleitt er í landinu á einu ári. Síðan fóru Íslendingar að nota ávísanir í meiri mæli og svo héldu greiðslukort innreið sína um og upp úr 1980. Þá var þetta hlutfall reiðufjár af landsframleiðslu komið niður í um 1% og var þá með því minnsta sem þekkt var á okkar heimssvæði. Í mörgum nágrannalandanna hefur þetta hlutfall verið talsvert hærra. Eftir fjármálaáfallið 2008 hækkaði hlutfallið þegar fólk vildi hafa meira af öruggu reiðufé á milli handanna, og hefur verið í kringum 2,25% síðustu ár. Fleira kom til á þessum árum, svo sem aukin ferðaþjónusta sem kallar á meira reiðufé.
Ástæður fyrir því að við notum áfram seðla og mynt eru nokkrar. Ein er sú sem þegar er nefnd, nefnilega að fólk vill hafa hjá sér seðla til öryggis, t.d. ef greiðslukortin eða önnur greiðslumiðlun virkar ekki. Það getur líka verið öryggisatriði fyrir þjóð að hafa fleiri en eina greiðslumiðlunarleið aðgengilega, t.d. ef erfiðleikar af einhverju tagi bjáta á. Þá eru lög hér á landi og víðar þannig að seðlabankar eiga að anna þeirri eftirspurn sem er eftir seðlum og mynt í samfélaginu. Ef fólk fer í hraðbanka eða bankaútibú og vill taka út peninga af reikningi sínum verður viðkomandi banki að útvega reiðuféð frá seðlabanka (sem hefur að jafnaði einkarétt á að gefa út seðla og mynt). Eftir sem áður notar stór hluti fólks hér sem víða í nágrannalöndum einungis kort, greiðslubanka og aðra rafræna greiðslumiðlun, svo sem síma, í daglegum innkaupum og viðskiptum.
Af hverju bættum við tíu þúsund króna seðli við?
Tilgangur með útgáfu seðilsins var að gera greiðslumiðlun á Íslandi liprari og hagkvæmari, meðal annars með því að fækka seðlum í umferð. Þegar tíu þúsund króna seðli var bætt við seðlaröð Seðlabankans árið 2013 hafði verðbólga síðustu áratuga m.a. leitt til þess að hlutur fimm þúsund króna seðilsins, sem var hæsta verðgildið þá, var kominn yfir 80% af heildarvirði útgefinna seðla. Þannig kallar stöðugt hækkandi verð, þ.e. verðbólga til langs tíma, á seðla eða mynt með hærra verðgildi.
Hvaða fólk er á myndunum á peningaseðlunum?
Á framhlið tíu þúsund króna seðilsins er mynd af Jónasi Hallgrímssyni, skáldi og náttúrufræðingi (1807-1845). Á bakhlið seðilsins er teikning Jónasar af fjallinu Skjaldbreið.
Á fimm þúsund króna seðlinum er mynd af Ragnheiði Jónsdóttur hannyrðakonu (1646-1715) megin myndefnið, en þar er líka mynd af manni hennar, Gísla Þorlákssyni biskup, tveimur fyrri konum hans, Gróu Þorleifsdóttur og Ingibjörgu Benediktsdóttur. Á bakhlið seðilsins er mynd af Ragnheiði og tveimur hannyrðakonum.
Á framhlið tvö þúsund króna seðilsins er mynd af Jóhannesi S. Kjarval listmálara (1885-1972) en á bakhlið er mynd af málverki eftir Kjarval.
Þúsund króna seðillinn skartar mynd af Brynjólfi Sveinssyni biskup (1605-1675) á framhlið, en á bakhlið er mynd af Brynjólfskirkju í Skálholti.
Á framhlið fimm hundruð króna seðilsins er svo mynd af Jóni Sigurðssyni, forseta Alþingis (1811-1879) og á bakhliðinni er mynd af Jóni við skriftir, auk myndar af Lærða skólanum í Reykjavík þar sem þingfundir voru haldnir í tíð Jóns.
Hver ákveður hvaða mynd er á peningaseðlunum?
Samkvæmt lögum hefur Seðlabanki Íslands einkarétt á að láta gera og gefa út peningaseðla og láta slá og gefa út peninga úr málmi. Það er hins vegar sá ráðherra sem fer með málefni bankans sem ákveður, að fenginni tillögu Seðlabankans, gerð, lögun, útlit og verð peningaseðla sem bankinn lætur gera og gefur út. Seðlabankinn skal einnig láta slá peninga úr málmi til að fullnægja eðlilegri þörf á skiptimynt á hverjum tíma, en ráðherra þarf að samþykkja gerð þeirra og lögun. Nánar er hægt að lesa um hönnun seðla og myntar hér.
Annar gagnlegur fróðleikur
Sýna allt
Af hverju eru efnahagsmál mikilvæg?
Efnahagsmál lýsa því meðal annars hvernig við notum vinnuafl okkar og ýmsar auðlindir á landi eða sjó til þess að framleiða vörur og þjónustu. Framleiðsluna köllum við oft gæði og efnahagsmál fjalla einnig um það hvernig þessum gæðum, það er afrakstri vinnunnar og auðlindanna, er skipt. Ýmis fyrirtæki og einkaaðilar sjá um stóran hluta framleiðslunnar og svo sinna opinberir aðilar, þ.e. ríki og sveitarfélög, stórum hluta þjónustu sem telst til mikilvægra gæða. Efnahagsmál og það hvernig hagkerfið virkar hefur mikil áhrif á afkomu og velferð íbúa í hverju landi.Hvað er átt við þegar talað er um þjóðhagsvarúð?
Þjóðhagsvarúð er að varðveita stöðugleika í fjármálakerfinu og takmarka hættur sem geta steðjað að því. Seðlabankinn getur beitt tilteknum stjórntækjum til þess að uppfylla markmið um þjóðhagsvarúð. Þessi tæki kallast þjóðhagsvarúðartæki. Þar á meðal eru reglur um eiginfjárauka á fjármálafyrirtæki en það eru reglur sem Seðlabankinn setur um það fjármagn sem fyrirtæki þurfa að varðveita. Líkja mætti því við reglur um að eiga öryggissjóð. Einnig getur bankinn ákveðið reglur um tiltekinn jöfnuð í eignum í gjaldeyri, um laust fé og fleira. Hægt er að lesa nánar um þjóðhagsvarúð hér.Hvað er gjaldeyrisforði og til hvers er hann?
Gjaldeyrisforði er nokkurs konar öryggissjóður og góður gjaldeyrisforði stuðlar að trausti í garð Íslands í heimi alþjóðaviðskipta. Gjaldeyrisforði samanstendur aðallega af eign Seðlabankans í góðum erlendum verðbréfum og fé á reikningum í traustum bönkum erlendis, einkum í útbreiddustu gjaldmiðlunum, svo sem Bandaríkjadal, evru, pundum og jeni.
Seðlabankinn varðveitir þennan gjaldeyrisforða (einnig stundum kallað gjaldeyrisvarasjóður) til að vinna gegn því að sveiflur í greiðslum til og frá landinu valdi óstöðugleika í fjármálum hér á landi og verðlagi innanlands. Gjaldeyrisforðanum er ætlað að vinna að því að ríkissjóður og Seðlabankinn geti staðið við alþjóðlegar skuldbindingar og síðast en ekki síst er forðinn öryggissjóður sem hægt er að grípa til ef stór og óvænt áföll eiga sér stað í gjaldeyrisöflun landsmanna. Stór og öruggur forði stuðlar auk þess að auknu lánstrausti Íslands á alþjóðamörkuðum og stuðlar þar með að minni vaxtakostnaði landsmanna. Það má á vissan hátt líkja gjaldeyrisforðanum við góðan hey- eða matarforða hjá bændum fyrr á tímum sem skapaði öryggiskennd hjá fólkinu um trygga afkomu þótt uppskeran brysti við og við.
Hvar er gull Seðlabankans geymt? Hve mikið er það?
Eins og á við um annað í gjaldeyrisforða Seðlabankans er gullið geymt á öruggum stað erlendis. Gullið hefur þó aðeins verið lítið brot af forðanum, eða á bilinu eitt til tvö prósent.
Gullið er nánast eingöngu í stöngum og vegur hver um sig um 12,5 kílógrömm þótt rúmmál hennar samsvari rétt rúmlega hálfum lítra af mjólk. Markaðsvirði (í júní 2021) hverrar stangar var sem svaraði rétt rúmlega 91 milljón króna á alþjóðlegum markaði. Bankinn á um 160 stangir og var virði þeirra (í ágúst 2020) því samtals um 14,6 milljarðar króna. Þetta gull hefur verið geymt á góðum stað erlendis í meira en 80 ár og er við og við leigt út gegn ávöxtun í gulli.
Gull er að jafnaði mælt í únsum, mælieiningu sem kennd er við borgina Troyes í Frakklandi, en sú mælieining er 31,1 gramm, nokkrum grömmum meira en venjuleg únsa sem vegur 28,35 grömm. Í árslok 2020 vó gulleign bankans 63.796,6 únsur (tæplega tvö tonn).
Upplýsingar um gulleign bankans er að finna í ársreikningum bankans. Sjá t.d. hér í ársskýrslu bankans fyrir árið 2020.