Mannauðsstefna
Tilgangur og markmið
Mannauðsstefna Seðlabanka Íslands tekur mið af því lykilhlutverki bankans að gæta almannahagsmuna, með því að stuðla að stöðugu verðlagi, fjármálastöðugleika og traustri og öruggri fjármálastarfsemi. Stefnan miðar að því að byggja upp trausta liðsheild, með áherslu á virðingu og vellíðan, jafnrétti, þekkingu, fagmennsku og framsækni. Þannig stuðlar hún að því að bankinn nái markmiðum sínum með skilvirkum og árangursríkum hætti.
Megináherslur
Mannauðsstefnan dregur saman áherslur bankans í mannauðsmálum og það er sameiginleg ábyrgð starfsfólks og yfirstjórnar bankans að framfylgja stefnunni til að móta góðan og traustan vinnustað. Til að tryggja sterka liðsheild þar sem samskipti einkennast af heilindum, gagnkvæmri virðingu og trausti leggur bankinn sérstaka áherslu á:
- Að hafa alltaf á að skipa hæfu og metnaðarfullu starfsfólki sem myndar sterka liðsheild innan bankans.
- Að starfsumhverfið styðji við andlega og líkamlega vellíðan starfsfólks.
- Að jafnréttissjónarmiða sé ávallt gætt í starfi bankans.
- Að starfsfólk viðhaldi þekkingu sinni, nýti hana vel í störfum sínum, miðli þekkingu og styðji með því áherslur framsækins seðlabanka.
- Árangursdrifna vinnustaðamenningu sem einkennist af fagmennsku og skilvirkum vinnubrögðum til að tryggja markvissa og góða ákvarðanatöku.
Nánar um megináherslur
Sterk liðsheild
Seðlabankinn leggur áherslu á að hafa í sínum röðum traust og metnaðarfullt starfsfólk með fjölbreytta þekkingu og reynslu sem vinnur saman að því að ná framúrskarandi árangri. Við ráðningar, starfsþróun og framgang starfsfólks í starfi skal byggja ákvarðanir á málefnalegum og faglegum sjónarmiðum og viðhafa vandaða málsmeðferð.
Ábyrgð stjórnenda
Lögð er áhersla á að velja til stjórnunar öfluga leiðtoga sem ganga á undan með góðu fordæmi og hafa metnað og færni til að vinna að verkefnum og framtíðarsýn bankans. Stjórnendur gegna veigamiklu hlutverki við að efla traust, t.d. með markvissri leiðsögn og stjórnun, miðlun upplýsinga og vandaðri og uppbyggilegri endurgjöf á frammistöðu starfsfólks. Þeir þurfa að taka á málum af öryggi og festu, gæta jafnræðis, sýna starfsmönnum virðingu og leggja áherslu á góða og árangursríka samvinnu. Ábyrgðarsvið starfsfólks skal vera skýrt og því treyst til að sinna verkefnum sínum af heilindum og fagmennsku.
Virðing og vellíðan
Starfsumhverfið skal styðja við andlega og líkamlega vellíðan starfsfólks. Starfsfólki ber að hvetja hvert annað og er hvatt til að huga að eigin heilsu með því að stunda heilbrigt líferni ásamt því að huga að velferð samstarfsfólks. Starfsumhverfið skal einkennast af sveigjanleika og stuðla að heilbrigðu jafnvægi á milli vinnu og einkalífs. Einelti og kynferðislega áreitni skal undir engum kringumstæðum líða og ber starfsfólk bankans sameiginlega ábyrgð á að tilkynna um hvers kyns áreitni sem það verður vitni að, hvort sem hún er líkamleg, orðbundin eða táknræn, sbr. stefnu bankans gegn áreitni og einelti.
Jafnrétti
Ævinlega skal gæta jafnréttissjónarmiða með það að markmiði að tryggja öllum jöfn tækifæri, sbr. jafnréttisstefnu bankans. Allt starfsfólk skal meta að verðleikum, óháð kyni, aldri, þjóðerni, trú eða öðrum ómálefnalegum sjónarmiðum.
Bankinn hefur sett sér jafnlaunastefnu til að tryggja að launaákvarðanir séu byggðar á málefnalegum sjónarmiðum og þær feli ekki í sér beina eða óbeina mismunun vegna kyns eða annarra atriða. Til þess að framfylgja jafnlaunastefnu sinni hefur bankinn innleitt jafnlaunakerfi sem byggir á íslenska jafnlaunastaðlinum ÍST 85. Jafnlaunakerfið felur í sér ákveðið fastmótað verklag við launaákvarðanir innan bankans til að tryggja jafnrétti, stöðugar umbætur og leiðréttingu kynbundins launamunar, komi hann í ljós.
Þekking
Seðlabankinn er þekkingarstofnun sem reiðir sig á hugvit og þekkingu starfsfólks. Stefna bankans er að starfsfólk hans búi yfir fjölbreyttri og breiðri þekkingu og reynslu og að starfsumhverfið styðji frumkvæði og metnað þess til að þróast og vaxa í starfi og axla ábyrgð. Lögð er áhersla á að starfsfólk viðhaldi þekkingu sinni, nýti hana vel í störfum sínum og styðji með því áherslur framsækins banka. Bjóða skal upp á öflugt og fjölbreytt fræðslustarf með markvissri þarfagreiningu, skilvirkri fræðsluáætlun og reglulegu mati á árangri fræðslustarfs innan bankans. Starfsumhverfi skal hvetja til miðlunar þekkingar á milli starfsfólks og efla viðleitni þess til að læra hvert af öðru.
Fagmennska og framsækni
Seðlabankinn leggur áherslu á árangursdrifna vinnustaðamenningu sem einkennast skal af fagmennsku og skilvirkum vinnubrögðum til að tryggja markvissa og góða ákvarðanatöku. Leggja skal áherslu á að starfsfólk beiti samræmdum vinnubrögðum og fylgi lögum, reglum og faglegum viðmiðum. Starfsfólk bankans skal gæta þess að halda trúnað í samræmi við lög og sinna störfum sínum af alúð og samviskusemi.
Seðlabankinn leitast við að efla vinnustaðamenningu sem styður við frumkvæði og framsækni starfsfólks, gagnrýna hugsun og vilja til að gera sífellt betur.