logo-for-printing

22. apríl 2002

Fundur alþjóðafjárhagsnefndarinnar í Washington 20. apríl 2002

Laugardaginn 20. apríl 2002 var haldinn í Washington fundur alþjóðafjárhagsnefndarinnar (International Monetary and Financial Committee) sem fer með æðsta vald í málefnum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á milli ársfunda. Á fundi nefndarinnar var fjallað um ástand og horfur í heimsbúskapnum. Ennfremur var rætt um verkefni og stefnumál sjóðsins, svo sem aðgerðir gegn fjármálakreppum og hlutverk sjóðsins í þróunarlöndum, ekki síst með hliðsjón af niðurstöðum nýafstaðins leiðtogafundar Sameinuðu þjóðanna í Monterrey í Mexíkó. Loks var fjallað um aðgerðir gegn peningaþvætti og til að sporna gegn fjármögnun hryðjuverkastarfsemi.

Ísland gegnir nú forystuhlutverki í samstarfi Norðurlanda og Eystrasaltsríkja á vettvangi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og situr Geir H. Haarde, fjármálaráðherra, í alþjóðafjárhagsnefndinni fyrir hönd þessara ríkja. Fjármálaráðherra gerði grein fyrir afstöðu ríkjanna á fundi nefndarinnar og lagði hann áherslu á jákvæða þætti hnattvæðingar og tók undir Monterrey-yfirlýsinguna um samvinnu þróunarlandanna og alþjóðasamfélagsins til að ná þróunarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna (UN Millennium Development Goals). Í máli sínu studdi hann áframhaldandi skoðun hugmynda um formlegt verklag við að leysa úr greiðsluerfiðleikum mjög skuldsettra ríkja (Sovereign Debt Restructuring Mechanism), en lagði jafnframt áherslu á mikilvægi þess að samhliða yrði haldið yrði áfram vinnu við önnur úrræði. Hann lýsti ennfremur yfir ánægju með viðsnúning efnahagslífs heimsins.

Ræða fjármálaráðherra á fundi alþjóðafjárhagsnefndarinnar - tengill á vef fjármálaráðuneytisins 

Yfirlýsing fundarins - tengill í frétt á vef Alþjóðagjaldeyrissjóðsins

Til baka