logo-for-printing

12. nóvember 2002

Rit um opinberan gjaldmiðil

Myntsafn Seðlabanka og Þjóðminjasafns hefur gefið út ritið Opinber gjaldmiðill á Íslandi. Í ritinu er gerð grein fyrir öllum opinberum gjaldmiðli sem gefinn hefur verið út til notkunar á Íslandi frá því á 18. öld, er saga hans hefst, til þessa dags. Hér er bæði um að ræða seðla og mynt, en mynt er skipt í tvo sjálfstæða flokka, annars vegar gangmynt og hins vegar tilefnismynt, þ.e. mynt sem gefin er út til hátíðabrigða.

Saga opinbers gjaldmiðils á Íslandi hefst árið 1778 með formlegri lögfestingu danskra kúrantseðla sem voru sérstaklega búnir íslenskum texta til þess að þeir gætu gengið hér. Íslensk gjaldmiðilssaga er óvenjuleg að því leyti að hér komu seðlar til sögu talsvert fyrr en slegin mynt öndvert við það sem gerst hefur með flestum öðrum þjóðum. Fyrstu seðlar sem íslensk stjórnvöld létu gera voru gefnir út 1886, en íslensk mynt kom ekki til fyrr en 1922. Á löngum tíma hefur útgáfa opinbers gjaldmiðils verið á margra höndum, og í ritinu er gerð grein fyrir hlut hvers útgefanda fyrir sig í tímaröð.

Tvisvar hefur verið efnt til gagngerra gjaldmiðilsskipta hér á landi. Árið 1873 voru gefin út ný myntlög í Danmörku, en með þeim urðu róttækustu breytingar sem gerðar hafa verið á peningakerfinu er (1) lögfestur var nýr myntfótur, gullfótur í stað silfurs; (2) tekið var upp tugamál í verðreikningi í stað tylftarmáls; og (3) ný myntheiti, króna og eyrir, komu í stað spesíu (spesíudals), ríkisdals og skildings. ' Um áramótin 1980/81 var í annað sinn skipt um gjaldmiðil er verðgildi krónu var hundraðfaldað. ' Minni háttar var sú breyting er seðlar voru innkallaðir og gefnir út í breyttum lit vegna eignakönnunar um áramótin 1947/48.

Í ritinu er birt allnákvæm lýsing hverrar gjaldmiðilseiningar fyrir sig þar sem greind er stærð, litur, myndefni og fleiri atriði í gerð seðla ásamt þeim undirskriftum sem þekktar eru, ' og stærð, málmblanda og myndefni á mynt ásamt árgerðum og upplagstölum. Þá er greint hvar seðlar eru prentaðir og mynt slegin og hverjir hafa annast hönnun gjaldmiðilsins eftir því sem um er vitað. Loks er gerð ítarleg grein fyrir lagaramma gjaldmiðilsins og rakin opinber ákvæði er varða útgáfu hans og meðferð og upphaf og gildislok hverrar gjaldmiðilseiningar.

Opinber gjaldmiðill á Íslandi er í ritröðinni Myntrit sem Myntsafn Seðlabanka og Þjóðminjasafns gefur út. Ritið er 74 bls. og búið litmyndum af öllum þeim gjaldmiðli sem um er fjallað. Það fæst í Seðlabanka Íslands og kostar kr. 1.500.

Nr. 40/2002
12. nóvember 2002

Til baka